19 janúar 2008

Frændi

Þá er hann Gunnar móðurbróður minn dáinn.
Hann dó í svefni í fyrrinótt, 90 ára gamall.
Gunnar og mamma voru alltaf náin, enda ólustu þau tvö upp saman hjá henni Rannveigu ömmu. Amma var ekkja með tvö börn í Reykjavík í kreppunni upp úr 1930 og aldrei þáði hún aðstoð frá því opinbera enda var hún afar stolt kona.
Gunnar lærði prentiðn og mamma hjúkrun og saman komust þau þrjú í gegnum allar hindranir sem kreppan lagði á fólk.
Mamma og Gunnar voru sérstaklega glæsileg, það er til mynd af þeim frá því sennilega á stíðsárunum og mér hefur alltaf þótt þetta geta verið mynd af glæsilegustu Hollywoodstjörnum. Ég erfði útlitið úr föðurættinni minni - ekki að ég sé að vanþakka neitt.
Gunnar giftist Guðnýju Helgadóttur og saman eignuðust þau þrjár dætur, Rannveigu, Ástu og Kristínu. Það var alltaf notalegt að koma til þeira á Kleppsveginn og seinna í Dúfnahólana. Þau áttu myndarlegt og fallegt heimili sem var þeim ótrúlega eiginleika búið að það sást aldrei blettur eða hrukka, það var aldrei drasl neins staðar en samt var allt svo afslappað og notalegt og manni var alltaf tekið fagnandi.
Ég hugsa oft um heimili Gunnars og Guðnýjar þegar ég er að drukkna í ryki og drasli. Hvernig fer sumt fólk að því að hafa alltaf svona snyrtilegt en samt sést aldrei til þeirra með tusku á lofti?
Við systkinin kölluðum Gunnar lengi vel bara Frænda, þó við ættum fjöldann allan af frændum og frænkum þá var bara einn Frændi. Hann var alltaf svo hlýr og góður við okkur.
Ég þakka Gunnari samfylgdina og Guðný mín, Rannveig, Ásta, Kristín og þið öll - Guð styrki ykkur í sorginni.

|