19 júní 2008

19. júní

19. júní 1977 vaknaði ég með hræðilega verki.
Finnur var hjá mér og ég vakti hann upp og sagði að það hlyti eitthvað að vera að gerast. Svo fór ég og vakti pabba og mömmu því ég var enn í föðurhúsum á þessum tíma.
Ég gat alls ekki verið kjurr, ég var á stjákli um húsið og allir komnir í viðbragðsstöðu. Það var nefnilega lítið barn á leiðinni í heiminn.
Svo missti ég vatnið og lagðist á stofugólfið. Mamma vildi að ég legðist í stofusófann en ég þverneitaði, ætlaði ekki að fara að subba hann allan út, það væri betra að subba út parketið á stofugólfinu.
Finnur skalf eins og hrísla þar sem hann kraup við hliðina á mér. Ég man að mamma leit á hann og sagði "Hva, er þér virkilega svona kalt Finnur minn?"
Svo kom sjúkrabíll og það var farið að reyna að koma mér út úr húsinu. Þá kom babb í bátinn því það var ekki hægt að fara með sjúkrabörur út um forstofuna, það var 90° horn milli hurða og ekki hægt að beygja með börurnar. Svo mér var pakkað í teppi og borin þannig út. Þessi uppákoma varð til þess að mamma pantaði smiði og lét breyta húsinu, gat ekki hugsað sér að búa í húsi sem ekki væri hægt að fara með sjúkrabörur út úr.
Mamma og Finnur fór með mér niður á spítala og voru þar með mér allan daginn, en fæðingin tók 12 tíma. Það endaði reyndar með því að ég var klippt í tvennt til að ná krakkanum út.
En þarna á fæðingadeildinni á Egilsstöðum birtist hún Gunnhildur mín, sæt og fín. Til hamingju með daginn gæskan.

|