20 júní 2008

Er það nú sumar

Bara skítakuldi og snjór í fjöllum.
Kominn 20. júní - hvað á þetta að þýða?
Jæja, ekki öll nótt úti enn, sumarið sem ég lærði að liggja í sólbaði þá var líka skítakuldi um miðjan júní. Svo brast á með sól og hita sem entist út sumarið - alla vega í minningunni.
Við systkinin höfum síðustu vikuna verið að vinna í Runu. Auðvitað var það miklu meira verk að skipta um klæðninguna en við höfðum átt von á, en það hefur samt gengið mjög vel. En verkið verður klárað í áföngum í sumar. Runa verður orðin klæðskiptingur í haust, eða þannig.
Á morgun er Runudagaslútt, grill og gaman. Í stað þess að vera í stuttbuxum eins og við hæfi er á slíkri samkomu, þá mætir maður bara í föðurlandinu og í lopapeysu. Vona samt að Dyrfjöllin láti sjá sig. Annars voru þau afskaplega falleg um síðustu helgi og fram eftir viku, en í dag létu þau ekkert sjá sig.
Örverpið mitt lenti á Egilsstaðaflugvelli kl. 20.00, kom og smellti einum á kinnina á móður sinni og var rokin út að hitta vini sína.
En það er ljúft að vita af henni á staðnum.

|