10 september 2008

Ausandi vatnsveður

Í dag var ég á Höfn í Hornafirði.
Það ringdi og ringdi. Þegar ég lagði af stað heim leist mér eiginlega ekki alveg á blikuna. Það var rok og hellirigning í Lóni.
Ef ekki væri búið að laga veginn í Hvalnes- og Þvottárskriðum hefði hann örugglega verið ófær í kvöld. En nú er búin að setja vegrið meðfram veginum um skriðurnar, malbika og það sem mestu skiptir, það er búið að setja vegg sem stöðvar grjótið sem fellur úr fjallinu. Þannig að þó það rigndi eins og í syndaflóðinu gerði það ekkert til.
Ég hef varla séð aðra eins vatnavexti. Allar ár voru upp bólgnar og ég hef bara ekki séð önnur eins vatnsföll á Öxi.
En þetta gekk allt vel. Ég notaði tækifærið á Höfn og fór til augnlæknis. Svoleiðis þjónustu hef ég bara ekki geta nýtt mér á Austurlandi í 15 til 20 ár, eða síðan ég gafst upp á að fara til augnlæknisins sem landlæknir sendir okkur Héraðsmönnum. Það gerir svo sem ekkert til þó hann sé bæði ókurteis og hranalegur, það sem gerði útslagið hjá mér var þegar hann neitaði Önnu Berglind um gleraugu þegar hún var hætt að sjá á töfluna í skólanum. Ég veit nú ekki til hvers gleraugu eru ef ekki má nýta þau fyrir ung skólabörn. Enda fór ég með hana suður og þar fékk hún gleraugu og hefur gengið með gleraugu upp frá því, ja fyrir utan það að hún notar víst linsur í dag.
Í kvöld komu Anna systur, Guðlaug mágkona og Guðný Rós í Skógarkot og við áttum skemmtilegt dvd-kvöld, horfðum á frábæra írska gamanmynd, Waking Ned.

|