04 september 2008

Í krabbameinsskoðun

Ég er svo seinheppin þegar ég fer í krabbameinsskoðun.
Reyndar hef ég verið svo heppin hingað til að það hefur verið allt í lagi með mig, eða alla vega hafa krabbameinsleitendur ekki fundið neitt athugavert við mig.
Einu sinni fór rafmagnið af þegar ég var komin upp í þessa leiðindastöðu í stólnum og læknirinn bara sat þarna með hausinn milli fóta mér og spjallaði um daginn og veginn meðan hann beið eftir að það yrði aftur ljós.
Í morgun var ég í krabbameinsskoðun. Það gekk eiginlega allt á afturfótunum hjá mér. Ég vissi ekki að maður átti að fara niður í kjallara fyrst, skrá sig og borga fyrir skoðunina. Ég dreif mig upp og í bleika sæta dressið. Svo var ég rekin niður í dressinu til að borga. Þegar ég kom upp aftur upphófst mikil bið. Ég reyndi að vekja á mér athygli en það hafði lítið að segja. Loks kom hjúkka og athugaði af hverju ég var látin bíða og bíða. Þá kom upp úr dúrnum að ég var skráð kl. 16.10 en ekki 8.50. Eins gott að það uppgötvaðist, annars sæti ég enn á bleika dressinu, bíðandi eftir að nafnið mitt verði kallað upp.
Jæja svo hófst nú skoðunin. Brjóstin teygð, flött og kramin og teknar myndir í bak og fyrir. Svo skoðun í neðra og þegar ég loksins var búin var ég orðin svo samdauna bleika dressinu að ég var rétt farin út af spítalanum svona klædd. Ja það hefði eflaust vakið athygli ef ég hefði komið í vinnuna eins og bleikur öskupoki.
En þrátt fyrir að það fer alltaf allt í flækju hjá mér þegar ég mæti í skoðun þá er ég afskaplega þakklát fyrir að búa við þá góðu heilbrigðisþjónustu sem við íslenskar konum njótum, m.a. með því að okkur skuli vera boðin reglubundin krabbameinsskoðun í heimabyggð.
Allar konur ættu að svara kalli þegar bréfið frá Krabbameinsfélaginu berst.

|