03 október 2008

Hið ljúfa líf

Hvað er betra en að eiga helgina framundan?
Föstudagskvöld, úti er snjór og kuldi en hér í Skógarkoti er hlýtt og kósý.
Kisurnar letilegar, Klófríður snyrtir sig og Kolgríma kúrir hér við hliðina á mér. Garpur kom með Magga og hann flatmagar á gólfinu.
Afskaplega getur lífið verið ljúft og gott og tilhugsunin um að þurfa ekki að fara á fætur fyrr en ég nenni í fyrramálið er frábær.
Hátta með góða bók, vitandi það að í fyrramálið verður lagað gott kaffi og framreiddur góður morgunmatur, beikon, egg og ávextir.
Það er næstum hægt að ímynda sér að hagkerfið gangi smurt og þjált og að smjör drjúpi af hverju strái á Íslandi.
Annars var ég að hugsa um það í dag að miðað við þann aðbúnað sem íslenska þjóðin bjó við um 1930 þegar heimskreppan skall á, þá þurfum við ekki að kvarta svo sárt. Fólk bjó í óupphituðum hreisum en ekki í húsum með hita og rennandi vatni. Fátæktin var svo skelfileg að ég held að ég og mín kynslóð getum ekki einu sinni reynt að ímynda okkur hvernig lífið var.
En ég ætla að njóta þess að það er föstudagskvöld og helgin framundan.

|