07 október 2008

Hvað er að gerast?

Flóðgáttir himnanna hafa verið opnar í tvo sólarhringa.
Hér rignir og rignir. Það er alla vega ekki vatnsskortur í kreppunni.
Ekki nóg með það. Egisstaðabændur eru að tæma skíthúsin og það er þvílíkur fnykurinn yfir bænum að það er örugglega ekki til maður hér í bænum með stíflaða nös.
Ég fór í Bónus og á leiðinni heim var ég nánast viss um að það hefði belja skitið í aftursætið á Súbba mínum.
Ég hef reynt að forðast að hlusta mikið á fréttir í dag, en auðvitað hef ég ekki alveg geta stillt mig um að fylgjast aðeins með. Ég var bara svo úrvinda í gærkvöldi eftir allt sem á gekk í gær að það var ekki til orkuarða í kroppnum á mér þegar ég skreið í bólið.
Annars verð ég að segja að mér finnst Geir standa sig vel og það er ágætt að hafa hagfræðimenntaðan forsætisráðherra á svona tímum.
Það sem ég hef heyrt frá pólitíkusunum okkar finnst mér þeir bara flestir standa sig ágætlega á þessum þrengingatímum.
Ég er bara hrædd um að kreppan sé eins og borgarísjaki sem við erum bara búin að sjá lítið brot af. Kannski að íslenska hagkerfið sé eins og Titanik, bara spurning hverjir komast í björgunarbátana.

|