22 nóvember 2008

Að morgni kreppunnar

Ég er sjálf lítið farin að finna fyrir kreppunni.
En ég er að búa í haginn til að mæta því sem verða vill. Búin að endurskipuleggja eitt og annað í fjármálum eins og t.d. að yfirfara allan tryggingapakkann minn. Hækka sjálfsábyrð og breyta heimilistryggingunni. Þannig náði ég útgjöldum niður um slatta af þúsundköllum.
Ég hef haft það rosalega gott undanfarin misseri og ekki þurft að neita mér um nokkurn skapaðan hlut. Ég lenti í smá innri átökum í vikunni því að ég hef verið að leita að góðum hægindastól til að hafa í litlu stofunni minni. Þessir sem mig langar í hafa bara verið svo rosalega dýrir að ég hef ekki tímt að kaupa mér nýjan stól.
Svo rakst ég á draumstólinn minn á netinu og hann er bara á ótrúlega góðu verði - kostar bara rúman helming af því sem þeir kosta sem ég hef verið að skoða. Ég var næstum fallin í þá freistni að kaupa hann. En ég þorði því ekki, maður veit ekki hvað er framundan svo ég dró bara gamla hægindastólinn minn, sem ég var búin að planta út í bílskúr, inn í stofu.
Hann passar ekkert rosalega vel í nýju stofuna en einhverra hluta vegna fyllist ég öryggiskennd að hafa hann hérna. Kolgríma var líka mjög glöð að fá gamla uppáhaldsstólinn sinn af Reynivöllunum inn í stofu og hertók hann undir eins.
En framtíð mín er eins björt og hún getur verið á Íslandi í dag. Ég er ekki með erlent lán, ég er ekki með bílalán og ég er ríkisstarfsmaður - það þótti reyndar ekkert rosa flott fyrir nokkrum vikum síðan, en ég er í góðum málum.

|