03 desember 2008

Lán í óláni

Það halda áfram að berast sögur af glötuðu orðspori þjóðarinnar.
Við erum aðhlátursefni um allan hinn vestræna heim og Íslendingar verða að fara huldu höfði ef þeir hætta sér út fyrir landsteinana.
En lítum á björtu hliðarnar. Við búum í svo fallegu landi að það er ekki hægt að vorkenna okkur það að komast ekki í borgarferðir niður til Evrópu. Ekki langar mig til London, svo mikið er víst. Ég fór þangað á síðustu öld og mig langaði aldrei þangað aftur, borgin höfðaði ekki til mín og maturinn var nú ekki upp á marga fiska.
Hugsum okkur að við værum í gíslingu í Hollandi. Þar er ekki lófastór blettur sem ekki er manngerður. Hvað ætti maður að taka sér fyrir hendur ef maður væri staddur í Hollandi og í þeirri aðstöðu að komast ekki út fyrir landamærin næstu misserin. Það væri náttúrlega hægt að skoða söfn, en það er þreytandi til lengdar.
Nei, það er gott að búa á Íslandi. Skaparinn hefur verið í essinu sínu þegar hann skóp þetta land okkar. Hlóð það alls konar náttúruperlum og stórbrotnu landslagi sem við ættum að muna eftir að vera þakklát fyrir og ganga um af virðingu.
Hver einasti íbúi Íslands hefur náttúrufegurð í sínu nánasta umhverfi og þarf ekki mikið meira en reiðskjóta postulanna til að komast í aðstöðu til að upplifa fegurðina. Ég er svo vel í sveit sett að ég þarf ekki nema horfa út um gluggana í Skógarkoti til að sjá gamlan íslenskan birkiskóg, Lagarfljótið, fjöll og heiðar sem nú eru snævi þakin.
Drukknum ekki í svartsýni, munum eftir því góða sem við eigum.

|