20 janúar 2009

Það eru 32 ár frá því ég mætti á mótmælafund

... þar til ég fór á fundinn í Tjarnargarðinu sl. laugardag.
Það var í mars 1977 að haldinn var mjög fjölmennur fundur herstöðvaandstæðina í Háskólabíói. Ég var ólétt, komin 6 mánuði á leið og á þessum fundi lenti ég í þvílíkum troðningi að ég hélt að það ætti að kreista úr mér krakkann. Ég gat ekki verið í fjölmenni í mörg ár.
Það var eins og fólkið ætlaði aldrei að hætta að streyma inn í húsið, það var setið í öllum tröppum og fólk stóð hvar sem hægt var að koma sér fyrir.
Megas og listaskáldin vondu tróðu upp en það sem kannski trekkti mest að á þessum fundi var að í fyrsta sinn var sýnd myndin sem tekin var 1949 á Austurvelli þegar brutust út óeirðir vegna inngöngu Íslands í Nató.
Ég las um Guttóslaginn fyrir mörgum árum og það má Guð vita að ekki átti ég von á að ég myndi lifa þá daga að þvílík mótmæli myndu brjótast út á Íslandi.
En er nokkur furða að menn mótmæli á Íslandi í dag? Í hvaða forarsvað er þessi ríkisstjórn búin að koma okkur með aðstoð helstu frammámanna í fjármálaheiminum. Svo er okkur talið trú um að það séu einhver öfl úti í heimi sem hafa komið okkur í þessa stöðu.
Það líður ekki sá dagur að ekki berist fréttir af einhverri ömurlegri spillingu sem viðgengist hefur á Íslandi undanfarin misseri og skuldatölur þjóðarinnar eru svo háar að ég get ekki einu sinni skilið þær.

|