08 janúar 2009

Vegur eldri borgara

Allir vilja veg eldri borgara sem mestan og bestan.
Líka við hér á Egilsstöðum. En hvernig sem á því stendur er Lagarásinn, gatan sem elliheimilið, sjúkrahúsið, sambýli eldri borgara og íbúðir fyrir eldri borgara, standa við búin að vera nánast ófær í marga mánuði.
Götunni var að mestum hluta mokað upp síðasta sumar og það er hreint með ólíkindum hvað það hefur tekið langan tíma að koma þessari götu í það form að þar sé öku- og göngufært.
Lengi þurfti að klöngrast upp á trébrú til að komast yfir skurð við íbúðir aldraðra. Þetta var ekki greiðfært fyrir fullfríska, hvað þá fyrir gamla og göngulúna fætur.
Ég átti erindi í apótekið í dag, en það stendur líka við Lagarásinn og það var ekki meira en svo að gatan væri rétt jeppafær á kafla.
Mér finnst þetta ástand til háborinnar skammar fyrir sveitafélagið okkar.
Í gær var ég á fundi sem haldinn var í Hlymsdölum. Nýrri og glæsilegri félagsaðstöðu fyrir eldri borgara og í rauna fyrir alla sem vilja nota þetta húsnæði. Félagsmálastjóri bæjarins hélt fróðlegt erindi um þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir, m.a. elstu íbúunum. Það er allt til fyrirmyndar heyrðist mér og sveitarfélagið virðist hafa á að skipa bæði vel upplýstum og metnaðarfullum starfsmönnum í félagsþjónustunni.
En það sem mér fannst sorglegt við að koma í þessi fínu húsakynni er að aðkoman að húsinu er með öllu óboðleg. For, drullupollar og klakabunkar. Samt stendur þetta hús ekki við Lagarásinn.
Mér er slétt sama um það þótt það sé kreppa. Elstu íbúar sveitarfélagsins eiga að geta komist leiðar sinnar án þess að stofna lífi og limum í hættu. Ég held að sumir þeirra geti varla nýtt sér þá þjónustu sem í boði er vegna ófærðar af mannavöldum.
Við skulum ekki gleyma því að þetta er fólkið sem lagði grunninn að Egilsstaðaþorpi og það á ekki að þurfa að staulast um þorpið í þeirri verstu færð sem þekkist síðan byggð fór að myndast hér við Gálgaásinn.

|