05 október 2009

Allt í rusli

Hér á Fljótsdalshéraði hefur verið tekin upp flokkun sorps.
Nú eru liðnir þeir dagar að maður opni ruslaskápinn í eldhúsinu og láti allt gossa þangað inn án þess að hugsa sig um hvort það er bananhíði, kaffikorgur, tóm sultukrukka, niðursuðudós eða pakkning undan fersku grænmeti.
Fyrir utan húsið mitt standa nú þrjár ruslatunnur í staðinn fyrir eina og frá bæjarfélaginu fékk ég senda þrískipta ruslafötu til að nota innanhúss.
Þetta er búið að valda mér miklum heilabrotum eða kannski frekar kvíða. Í vor sendi bæjarstjórinn okkur bækling og kynnti fyrirhugaða sorpflokkun en síðan eru liðnir margir mánuðir og mikið sorp farið á haugana í millitíðinni, m.a. svona sorpflokkunarkennsluefni.
Fyrsta áfallið var að innanhús sorpflokkunarílátið passar ekki í ruslaskápinn í eldhúsinu. Ég var farin að sjá fyrir mér að ég yrði að skipta um eldhúsinnréttingu - það væri eina lausnin á þessu flókna vandamáli.
Meðan ég var að reyna að finna lausn á þessu máli safnaðsti óflokkað sorp fyrir á eldhúsbekknum í Skógarkoti. Ég þorði ekki með það út af því að ég vissi ekki í hvaða tunnu ég mátti láta það og enn síður vissi ég í hvers konar umbúðir ég gat safnað ruslinu í. Bæjarstjórinn hafði nefnilega líka sent mér nokkrar pakkningar af pokum sem ég átti að setja lífrænan úrgang í en svo átti ég að setja annað rusl í einhverja aðra poka.
Það var komið mikið óloft í húsið og haugurinn á eldhúsbekknum óx í sama hlutfalli og kvíðahnúturinn í maganum á mér.
Loksins tók ég mig til, dró andann djúpt, varð mér úti um nýtt kennsluefni og las allt sem ég komst yfir um sorpflokkun. Ég meira að segja fann það út að það var hægt að flokka í önnur ílát en þetta stóra þrískipta sem hafði valdið mér ómældum kvíða og óþægindum af því að það var ekki möguleiki að troða því undir eldhúsvaskinn. Ég gat meira að segja haldið áfram að nota ruslafötuna sem er föst í innréttingunni. Með því að bæta við minni ílátum sem ég valdi mér bara sjálf, þá gat ég loks hafið flokkun sorps á mínu heimili.
Nú er þetta allt farið að ganga betur. Ég hef meira að segja bara gaman af að flokka sorpið.
Afleiðingarnar eru að ég er farin að horfa mun betur á þær umbúðir sem neysluvarningi er pakkað í. Þegar ég kaupi í matinn í Bónus þá þarf ég, áður en ég tek ákvörðun um kaup, að horfa á innihaldslýsingu vörunnar - er maturinn hlaðinn aukaefnum, er nógu mikið af vítamínum og nógu lítið af hitaeiningum? Ræð ég við verðið? Og síðast en ekki síst - hvernig get ég svo losnað við umbúðirnar?

|