Afsakiði
Ég er búin að finna allar bækurnar um kvenspæjarastofuna.
Fann þær í morgun þegar ég var að leita að allt öðrum bókum. Þær voru allar saman komnar í bókaskápnum í gestaherberginu.
Ég get svo svarið að ég var búin að marg renna augunum yfir þennan bókaskáp.
Biðst afsökunar á að halda að ég hafi lánað einhverju ykkar bækurnar.
Garpur litli er farinn heim til sín.
Ég ætla aldrei aftur að taka að mér að fara með kött í geldingu. Ég tók Garp með mér í vinnuna af því að það var föstudagsmorgunmatur og ég vildi ekki missa af honum. Garpur naut mikillar samúðar karlmannanna við matarborðið, þeir sátu allir með krosslagða fætur og grettu sig.
Þegar ég var búin að fá mér morgunmat upp í vinnu þá fórum við Garpur að hitta Hjört dýralækni og ég get sagt ykkur að hann Garpur litli varðist fimlega því hann vildi hreint ekki láta taka sig af númerunum. Ég er með nokkur sár á höndunum og Hjörtur makaði joði á allar rispurnar.
Svo svaf Garpur fram eftir degi og um kvöldið þegar hann var farinn að labba um húsið var hann svo ræfilslegur að ég fékk kökk í hálsinn og nagandi samviskubit. Það var eins og hann væri grátbólginn því það hafði verið sett krem í augun á honum til að verja hornhimnuna (kettir eru með opin augun í svæfingunni).
Jæja svona er lífið. Tíminn hlýtur að lækna þessi sár eins og önnur.
Sólin skín, sæt og fín og í dag ætla ég að spássera með slátturvélina um garðinn.