23 júní 2006

Tapað fundið

Í gærkvöldi byrjaði ég á 5. bókinni um Kvenspæjarastofu nr. 1.
Ég hef verið að svipast um eftir hinum fjórum en ég finn þær ekki. Nú kynni einhverjum að detta í hug að það sé eðlilegt, það muni vera erfitt að finna tilteknar bækur hér á þessu heimili. Ég er samt bara orðin nokkuð viss um að þær eru ekki hér.
Ég held ég hafi lánað þær, en ég man ekki hverjum. Þannig að ef einhver les þetta og minnist þess að hafa fengið þessar bækur að láni hjá mér þá vinsamlegast hafðu samband. Ég er ekki að kalla eftir bókunum bara fá að vita hvar þær eru.
Sögurnar um hana Precious Ramotswe, eiganda Kvenspæjarastofu nr. 1 í Botsvana eru yndislegar. Hún hefur hefðbundið vaxtarlaga og notar föt nr. 20. Hún virðir gömul gildi og er rosalega klár spæjari. Merkilegt að karlmaður skuli hafa samið þessar sögur.
Garpur á að mæta til dýralæknis eftir rúman klukkutíma. Litla krílið.
Það er auðvitað ekkert gaman að standa í þessu stússi með hann en mér þykir enn verra að vera að svelta kettina. Þau hafa ekki fengið neitt að borða síðan í gærkvöldi og aumingja Kolgríma sem er ekki að fara í neina aðgerð hefur þurft að fasta Garpi til samlætis. Um leið og ég verð búin að segja Garp í búrið og koma honum út fær Kolgríma nammi og eitthvað meira gott í gogginn.
Ég hef meir samúð með þeim sem þurfa að fasta en ketti sem þarf að gelda. Svona er nú forgangsröðunin á þessum bæ.

|