26 október 2005

Fimbulkuldi

Ekki hlýnar á Héraði.
Nú er -10°. Ég var að koma heim af kvöldgöngu, hélt ég yrði úti, en komst í hús áður en frostið náði að gera út af við mig. Ég skil ekki hvað ég er orðin hræðilega kulvís, eins og ég er vel bólstruð. Þetta hlýtur að vera aldurinn. Ég var samt vel klædd og með húfu og vettlinga. Ég segi bara ekki annað en að úr því að það er orðið svona hræðilega kalt í október, hvernig verður þetta þá í janúar og febrúar. Ég held ég fari að undirbúa að leggjast í vetrardvala eins og bangsarnir.
Lambið mitt komst heilu og höldnu til Tyrklands. Þökk sé almættinu. Vona bara að hún skemmti sér vel og vandlega. Það hlýtur að vera óborganlegt ævintýri að koma til Tyrklands, næstum eins og að hverfa inn í 1001 nótt.
Kolgríma er búin að vera á músaveiðum í 3 daga. Hún var svo kát yfir að ég skyldi loksins þrífa heimilið og færa til húsgögn til að skúra undir þeim því þá komu ýmis leikföng sem hún á í ljós. Meðal annars uppáhalds músin hennar. Henni voru færðar 3 mýs í vor og tvær þeirra eru bara alveg týndar. Þær hljóta að koma í ljós í jólahreingerningunni. En þangað til verður Kolgríma bara að veiða þessa einu mýslu sína.

|