08 maí 2006

Sumir dagar ...

... eru betri en aðrir.
Dagurinn í dag var einn af þessum afbragðs góðu dögum. Heitt og notalegt og yndislegt veður til að hjóla. Ég er svo ánægð með að vera búin að fá hjól, sem mun vera þriðja hjólið sem ég kaupi mér á 28 árum.
Eftir að Dandý á fasteignasölunni var búin að koma og mynda húsið að utan og innan, skrifa niður alls konar upplýsingar og skoða leigjandann, þá fór ég niður á fasteignasölu og hitti verkfræðingana, arkitektinn, byggingaverktakann og lögfræðinginn minn og lögð voru lokadrög að Skógarkoti. Ég vissi nú ekki að það þyrfti svona marga til að byggja draumahúsið mitt, en það eru ótaldir allir iðnaðarmennirnir. Þetta verður múgur og margmenni, kannski að einn þeirra geti bara fylgt húsinu.
Matarboðið á laugardaginn heppnaðist vel. Jón og Kristín komu færandi hendi, Kristín færði mér fínerí í eldhúsið en Jón færði mér bókina sem hann sagði frá í kommentum í síðust eða næst síðustu færslu. Eitt gott ráð til kvenna sem eiga kött: Ef þú átt kött og hann er öfugur - snúðu honum þá við (það stendur ekkert um opinbera birtingu eða afritun í bókinni).
Bókin er byggð upp þannig að á hverri opnu er eitt ráð og eru þau í stafrófsröð, ráðið hér fyrir ofan var á blaðsíðu E. Aftan við ráðin eru blaðsíður undir símanúmer og þar á ég að skrifa niður símanúmer hjá öðrum kattaeigendum, dýralækninum, kattavinafélaginu og þessa háttar mikilvæg símanúmer. Svo fylgdi bókinni mjög gagnlegt nafnspjald, en förum ekki nánar út í það.
Gestirnir voru samtals 10 og það var setið og etið og spjallað og hlegið fram að miðnætti.
Það er sem ég segi, sumir dagar eru betri en aðrir.

|