22 júní 2006

Kettir

Kolgríma mín tríttlaði kát og glöð út að leika sér.
Ég hef bara verið að dunda mér hér heima, á frí fram að hádegi. Ég er í svona lausbeisluðu sumarfríi.
Allt í einu heyri ég þessi líka skelfilegu læti, kattagrenjur og hvæs. Ég fékk auðvitað hland fyrir hjartað og hélt að hún Kolgríma mín væri lenti í klónum á einhverju óargadýri.
Framan við eldhúsgluggann minn voru tveir fresskettir í miklum bardaga og miðað við fjaðrafokið í kringum þá voru þeir að slást um dauðan fugl.
Annar kötturinn er örugglega flækingsköttur, ég hef stundum séð hann hér í hverfinu. Þetta er sami kötturinn og laumaði sér inn í þvottahúsið hjá mér og var svo mikill dóni að míga á gólfið og skilja eftir sig ógeðslega fýlu. Þessi köttur er illa til reika og hefur ekki verið geltur.
Þetta er hinn svokallaði slæmi félagsskapur úr undirheimum sem leynist í öllum samfélögum.
Ég fór út í garð og þar húkti Kolgríma mín og var dauðfegin að komast inn og sleppa úr þessum hættulegu aðstæðum.
Aumingja Garpur litli veit ekki hvað býður hans á morgun. Hann fór til síns heima fyrir viku síðan en í kvöld kemur Maggi með hann aftur því ég hef tekið að mér það verkefni að fara með hann og láta gelda hann, Garp þ.e.a.s.
Litla greyið, ég vona að hann verði fljótur að jafna sig og erfi það ekki við mig þótt ég hafi tekið að mér þetta hlutverk. Ég hlakka til að sjá þessa elsku og ég veit að Kolgríma verður líka kát að fá Garp aftur í heimsókn.

|