28 desember 2006

Vandlifað í veröldinni

Það er orðinn mikill vandi að senda jólakveðjur.
Það hefur nú ekki farið framhjá neinum fárið út af Dóminósjólakveðjunni. Ég er reyndar hálf móðguð út í Dómínós, ég sé nefnilega að ég er mjög aftarlega á merinni hjá þeim, sennilega bara einu sinni pantað pizzu. Jólagestirnir mínir fengu nefnilega sínar kveðjur strax upp úr kvöldmat en mín kveðja kom ekki fyrr en um kl. 22. En þetta svo sem eyðilagði ekki kvöldið fyrir mér enda lá ég afvelta í hægindastól inn í stofu og dansandi fílar á þakinu hefðu ekki raskað ró minn, hvað þá eitt sms-skeyti.
Svo er það Alcan - þeir senda Hafnfirðingum jólagjöf og eftir fréttum að dæma eiga þeir von á að fá eitthvað af gjöfunum í hausinn aftur. Ég fæ ekkert frá Alcan enda bara búið eitt ár í Hafnarfirði og það eru 30 ár síðan.
En þá eru það jólagjafir Kb-banka. Ég hef komist að því að minn góði banki gerir ótrúlega upp á milli viðskiptavina sinna. Ég fékk svarta pokann sem Kolgríma ákvað að væri svefnpoki fyrir sig, en svo hef ég verið að heyra af allskonar fínni gjöfum frá bankanu. Ég var niður í banka áðan og þær sögðu mér stelpurnar sem vinna þar að það væru nokkrir búnir að koma og skila fína svarta kattasvefnpokanum og þeir hinir sömu hafi verið sármóðgaðir. En alla vega gaf bankinn starfsfólkinu fínar gjafir svo þetta er nú allt í lagi.
Það er orðinn mikill vandi að senda jólakveðjur en ég er svo heppin að þær gjafir og kort sem ég sendi vinum og vandamönnum virðast hafa fallið í góðan jarðveg - alla vega er ég ekki farin að fá neitt í hausinn ennþá.

|