04 febrúar 2007

Lokadagur

Þá er blótsvertíðinni lokið hjá mér þó þorrinn sé ekki búinn.
Ég kem undan þorranum með þreytta fætur og úttroðinn maga en gleði í hjarta. Og þá er tilganginum náð.
Vallablótið lukkaðist að venju vel og ég náði ekki að klára danskortið þrátt fyrir að Bergur á Ketilsstöðum hafi svikið mig og flutt suður á land. Í fyrra reyndu faðir hans og sonur að fylla í skarð Bergs og dansa við mig á blótinu en nú liggur Jón á sjúkrahúsi og Guðmundur mætti ekki á blótið.
Þegar ég var að kveðja og halda heim á leið eftir frábæra kvöldskemmtun á Iðavöllum, þá uppgötvaði ég semsagt að það voru nokkrir gamlir sveitungar sem mér hafði ekki unnist tími til að dansa við. En ég mæti alveg örugglega á Vallablótið 2008 því ég verð í næstu nefnd og þá get ég reynt að vinna upp danstapið frá þessu ári.
Á Litla blótinu hér á Egilsstöðum í gær, var einhver að halda því fram að hann hlyti að eiga nefndametið af viðstöddum, taldist svo til að þetta hafi verið fjórða þorrablótsnefndin sín. Vallamenn taka allt með trukki og sem gömlum Vallamanni þá taldist mér til að þetta hafi verið í það minnst áttunda nefndin mín og sú níunda á næsta ári. En Vallamenn voru nú líka að halda sitt 111. þorrablót eftir því sem talning leiddi í ljós hjá veislustjóra og það var lengi til siðs að hálfur hreppurinn væri í hverri nefnd.
Góðar stundir.

|