26 ágúst 2007

Í skóginum

Dagskráin í gær gekk eftir.
Eða þar til kom að lið 10. Ég fór reyndar í mitt ból í Kelduskógunum en ég var svo þreytt eftir daginn að ég sleppti síðustu pílagrímsferðinni í Skógarkot.
Þakka allar góðar kveðjur og óskir sem ég fékk í gær. Þetta var alveg ógleymanlegur dagur. Bjössi yfirsmiður kom og færði mér konfektskál og fallegt kort. Mér þótti náttúrulega mjög vænt um það.
Skógarkotið er voða fínt. Hreindýraveislan í tjaldinu lukkaðist vel og tarfurinn var lungamjúkur. Simmi og Jói voru veislustjórar og Simmi rifjaði upp sögur frá bernsku- og unglingsárum sínum hér á Egilsstöðum sem voru frekar skrautleg. Charles Ross var útnefndur bæjarlistarmaður og það fór vel á því.
Dagurinn leið við stanslausa gleði og gaman. Loks var fjölmennt ball í Valaskjálf og ég held að ég hafi örugglega yfirgefið staðinn fyrst af öllum því það var mjög mikið stuð í liðinu, en ég var bara alveg búin með alla orku.
Vinir og vandamenn, ég vona að þið verðið öll dugleg að hafa upp á mér á nýjum stað. Þetta er auðþekkt, eins og einn flutningabílstjóri sagði eftir að vera búinn að fara í allar göturnar í hverfinu að leita að Skógarkoti "Nú, er þetta við ómerktu götuna". Veit ekki af hverju allar hinar voru merktar en ekki Bjarkarselið. Minnir á vonbrigðin sem ég upplifði, þegar ég var á fjórða ári, við fermingarmessu elsta bróður míns og uppgötvaði að allar stelpurnar voru með rós í hárinu nema Gissur bróðir.

|