24 október 2007

Skógarkisa

Kolgríma hefur uppgötvað dásemdir skógarins.
Hún hefur verið mjög lítið fyrir að vera út, aðeins svona kíkt hér fyrir húshornið, nusað upp í vindinn og drifið sig svo aftur inn. Þar til í dag, hún hefur farið hverja ferðina á fætur annarri í spássitúr í skóginum.
Í kvöld var ég með smá matarboð. Nokkrir vinir og vandamenn komu og gæddu sér á sviðum með mér.
Kolgríma hefur eitthvað tekið þessa sviðaveislu of bókstaflega því ég þurfti að bregða mér á klósettið og þá lá hauslaus mús þar við dyrnar. Kolgríma var eitthvað að snuðra þarna eftir að ég var búin að koma líkinu út í ruslatunnu og hún er búin að biðja um það hvað eftir annað í kvöld að fá að skreppa út í skóg.
Það er víst vissara að horfa vel á það hvort hún er með bráð í kjaftinum áður en ég hleypi henni inn í hús. Hún er afskaplega ánægð með sig þar sem hún liggur hér við hliðina á mér og malar.

|