20 mars 2008

Páskafrí

Yndislegt að eiga 5 daga frí framundan.
Það er langt liðið á morgun og ég er enn í mjúku flónelsnáttfötunum.
Ég ætla ekki á lappir fyrr en um hádegi, bara kúra með bók og hafa það notalegt.
Venjulega borða ég ekki egg á morgnanna, en á þessum árstíma er ósköp huggulegt að fá sér egg eftir góðan morgunmat. "Margur heldur mig sig" var málshátturinn minn.
Í dag fer ég í fermingarveislu hjá ungfrú Ingu Lind Bjarnadóttur, en mínir gömlu góðu grannar á Reynivöllunum komu heim frá Danmörku til að frumburðurinn gæti látið ferma sig í Egilsstaðakirkju.
Annars verð ég mest heima þessa daga og ætla að kíkja í einhverja kassa sem ég hef ekki opnað eftir að ég flutti. Taka til og þrífa Skógarkot. Njóta samvista við Kolgrímu og Klófríði. Skreppa á Seyðisfjörð og heimsækja mömmu.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að auk þess sem hún Klófríður mín er greindarskert þá er hún líka með athyglisbrest og ofvirkni. Hún getur aldrei verið kjurr og það er með ólíkindum hvað þessu litla skotti dettur í hug að gera.
Stundum hoppar hún og hoppar upp á einn stofuvegginn, eins og hún sé að reyna að komast að myndunum sem hanga á veggnum. Hún getur hlaupið hring eftir hring á eftir skottinu sínu og svo hefur hún afskaplega gaman af að príla á háu stólbökunum við borðstofuborðið.
En hún er einhver sá skemmtilegasti og yndislegasti köttur sem ég hef kynnst.
Kolgríma er svo virðuleg, horfir stundum á þetta litla skoffín með vandlætingu, samt hefur hún mjög gaman af að leika við hana og tuska hana til.
En stundum fær Kolgríma meira en nóg af látunum í Klófríði og þá fær hún að fara fram í bílskúr þar sem hún á lítið ból og þar getur hún hvílt sig í friði.

|