18 nóvember 2008

Sápukúlur

Þessa dagana lifi ég ljúfu lífi í sápukúlu.
Innan hennar er bara það sem ég vil hafa.
Ég svíf um í áhyggjuleysi, umvafin ást og vináttu. Ég rifja upp yndislega helgi þar sem vinir mínir og vandmenn glöddu mig með nærveru sinni.
Í sápukúlunni minni er ekki hlustað á fréttir, það er slökkt á útvarpi og sjónvarpi.
Æi, þetta er ágætt líf.
Í dag þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni var óvart kveikt á útvarpinu í bílnum og þá heyrði ég í manni sem líka lifir í sápukúlu og hefur greinilega dvalið lengi inni í sinni kúlu. Það hefur enginn heyrt í honum og nú hefur hann loksins sloppið út úr kúlunni og náð sambandi við umheiminn. Hann lýsti því í útvarpinu hvernig hann sem seðlabankastjóri hefði ítrekað varað við í hvað stefndi.
Enginn kannast við að hafa heyrt í honum.
Svona er lífið í sápukúlu einangrað.

|