13 nóvember 2008

Því skyldi ekki hlakka í Bretum?

Ég var á Höfn í Hornafirði í gær.
Þar hitti ég Hornfirðing sem sagði með bros á vör: Jæja, er hún þá hrunin spilaborgin ykkar þarna á Egilsstöðum?
Þetta stakk mig óneitanlega. Ég hafi að vísu heyrt að það hlakkaði í einhverjum niður á fjörðum yfir því að Egilsstaðabúar hefðu fengið þann stóra skell að Malarvinnslan fór á hausinni.
En því skyldu Bretar hafa samúð með okkur? Því skyldu þeir ekki gera það sem þeir geta til að beygja okkur í duftið? Ef þetta er samstaðan og samhugurinn innanlands að það hlakki í mönnum þegar heilt byggðarlag verður fyrir þeirri blóðtöku að einn stærsti vinnuveitandinn fer á hausinn. Það er ekki bara það að gamalgróið fyrirtæki heyrir sögunni til. Bak við þetta er sú harmsaga að fjöldi heimila hér á Egilsstöðum sér fram á stórskertar tekjur eða jafnvel tekjuleysi því það var nokkuð um það að hjón væru bæði að vinna hjá Malarvinnslunni.
Hvernig væri að snúa bökum saman á þessum erfiðu tímum og leggja þennan niðurdrepandi hrepparíg á hilluna. Ætla Austfirðingar aldrei að vaxa upp úr því að hafa horn í síðu Fljótsdalshéraðs?
Sýnum samstöðu, þó ekki væri nema að sýna andlegan stuðning.

|