19 janúar 2009

Nú held ég að afi heitinn brosi út í annað

... hvar sem hann er niður kominn. Gamli Framsóknarkappinn.
Að ég myndi hrífast af Framsókn, ekki hefði ég nú átt von á því.
Mér líst vel á nýja formann Framsóknarflokksins, það litla sem ég hef séð til hans. Hann stóð sig vel í Kastljósi hjá Sigmari og mér fannst flott ábending hjá honum að íslenskur fjármálamarkaður væri búinn að kosta þjóðina meira en allir ríkisstyrkir til landbúnaðar í gengum tíðina.
Auðvitað eigum við að hafa öfluga matvælaframleiðslu í landinu.
Ég vil bara fá mitt íslenska fjallalamb sem hefur fengið að leika sér upp til heiða, í bjartri sumarnóttu áður en það lendir í pottinn hjá mér. Íslenskt grænmeti hef ég alltaf valið hiklaust umfram innflutt, það er ferskara og ég trúi því að það sé hollara, þó það sé stundum dýrara.
Helst af öllu vil ég fá að kaupa landbúnaðarvörurnar milliliðalaust af bændum og ég vona að sá dagur renni upp að okkur verði gert það mögulegt, án þess að brjóta lög.
Ekki vil ég sjá innfluttan kjúkling, nei ó nei, allra síst eftir að ég las Tveir húsvagnar eftir Marina Lewycka.
Það var óneitanlega spaugilegt í upphafi íslensku kreppunnar að allt í einu fóru að heyrast ótrúlegustu raddir um það hversu dýrmætir íslenskir bændur væru - þeir sem hafa mátt hlusta á þann söng í áratugi að þeir væru svo þungur baggi á þjóðinni að réttast væri að skera þá niður.
Stöndum vörð um íslenska matvælaframleiðslu, um íslenskan landbúnað og sávarútveg. Dettur einhverjum í hug að kaupa innfluttan fisk? Mér finnst það næstum flokkast undir landráð.
Að afla þjóðinni fæðu eingöngu með innfluttum matvælum þykir mér álíka búmannlegt og að pannta alltaf pizzu í matinn, í hvert mál.

|