29 maí 2009

Fyrsta ferðahelgin

... á þjóðvegum landsins í sumar.
Kannski að það hafi verið af því tilefni sem bensín hækkaði upp úr öllu valdi.
En maður bítur á jaxlinn því við Maggi erum að leggja í jómfrúarferðina með hjólhýsið í kvöld. Allt er orðið klárt, ég er búin að raða glaðlegu hjólhýsa-búsáhöldunum á sinn stað og Maggi er búinn að læra allt varðandi rafmagnið, gasið og vatnið í dúkkuhúsinu.
Meira að segja aðgerðir ríkisstjórnarinnar ná ekki að taka af mér tilhlökkunina og gleðina í sálinni.
Í Selskógi hamast íbúar við að gera lóðir sínar fínar. Nágrannar mínir þurftu að höggva svolítinn skóg til að búa til grasflöt og ég naut góðs af því. Mér voru færðir nokkrir trjábolir, það er búið að saga niður eldivið og nú stendur búmannlegur eldiviðarstafli á pallinum við Skógarkot. Maggi hreinsaði sprek úr rjóðrinu og ég sló fyrsta slátt í gær.
Já lífið í Skógarkoti er eins og lítið ljúft ævintýri.

|

26 maí 2009

Sumar í sveitinni.

Þá er nú sumarið loksins komið.
Ég hef ekki trú á því að sumarið sé komið fyrir alvöru fyrr en ég er búin að sjá í það minnsta einn spóa og birkið er farið að springa út. Birkið lætur ekki plata sig enda þekkir það íslenska veðráttu.
Á uppstigningadag fór ég ásamt fjölda manns út í Húsey að heimsækja Örn bónda. Það var yndisleg ferð. Krakkar fengu að sitja á hestum, við gengum út að ósi Jökulsár á Dal og Lagarfljóts og það var mikið fuglalíf, kríur, skúmar og fleiri fuglar. Svo má nú ekki gleyma blessuðum selunum sem svömluðu um með kópana sína. Þetta var heilt ævintýri.
Að lokinni göngu beið okkar steikt selkjöt heima í húsi. Ég hef ekki smakkað selkjöt í meira en aldarfjórðung og það var gaman að rifja upp hvernig það bragðast. Minnir á sjófugl.
Á heimleiðinni sá ég nokkra spóa og þá sannfærðist ég um að sumarið væri komið austur á Fljótsdalshérað.
Ég held að þetta verði gott sumar. Alla vega er tilhlökkun í sálinni.

|

25 maí 2009

Hvers er hvað eða hvurs er hvað?

Hvað á þjóðin skilið? Hvers á hún að gjalda?
Alla vega finnst mér að hún eigi ekki að þurfa að hlusta á tilgerðarleg stílbrög úr ræðustól Alþingis á þessum síðustu og verstu tímum.
Fyrir margt löngu, meira en 25 árum, þá var það lenska hér á landi að forstöðumenn ríkisstofnana gerðu ekki svo mikinn greinarmun á fjölskyldu sinni, heimili og þeirri stofnun sem þeir höfðu umsjón með. Þeir virtust ekki skynja að annars vegar voru þeir embættismenn og hins vegar fjölskyldumenn. Starfsmenn ríkisstofnana voru meira að vinna hjá forstöðumanninum en hjá viðkomandi stofnun.
Satt að segja hélt ég að þessir tímar væru liðnir.
En nú þegar maður les um það hversu frjálslega Gunnar Birgisson virðist hafa túlkað línuna milli sín sem bæjarfulltrúa og síðar bæjarstjóra Kópavogs annars vegar og föðurs hins vegar og eins milli sín, LÍN og dótturinnar, þá fyllist ég svo miklum pirringi að ég þarf að gera öndunar- og slökunaræfingar til að forða sjálfri mér frá því að grípa til einhverra aðgerða.
Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn enn einu sinni að sitja og gera ekki neitt þegar þeirra maður er að sukka með almannafé? Halda menn á þeim bæ að þá hverfi vandinn? Og af öllum fjármunum ríkisins, fjármuni Lánasjóðs íslenskra námsmanna? Það rifjast upp fyrir manni hremmingarnar sem námsmenn lentu í sl. haust.
Þjóðin á það skilið að það verði tekið í lurkin á Gunnar og hans líkum og að það verði girt fyrir að svona sukk og svínarí þrífist.
Annars liggur bara ágætlega á Lötu Grétu. Sumarið er komið á Fljótsdalshéraði. Vorverkin langt komin í garðinum og framundan gott sumar. Alls konar skemmtun á dagskránni - ferðir og ferðalög, gestakomur og heimsóknir.
Eina sem spillir gleði minni er þessi endalausa og gengdarlausa spilling áhrifamanna í samfélaginu.

|