17. júní
Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru Íslendingar.
Er nokkuð í stöðunni annað en að fara í skrúðgöngur, blása í blöðrur og skjóta upp fánum?
Ég er búin að setja gul, rauð og hvít blóm í kerin mín. Það hafa aldrei verið svona mörg falleg blóm í garðinum mínum. Hvað sem efnahagsástandi þjóðarinnar líður þá ætla ég að rækta lífsgleðina með sjálfri mér og vona að þið gerið það líka. Maður er þá betur í stakk búinn til að takast á við það sem bíður okkar, hvað sem það verður.
Ég vona að íslensk börn fái að upplifa skemmtilega þjóðhátíð. Að þau eignist minningu um dag þar sem glaðlegir litir ráða ríkjum, allir eru í sínu fínasta pússi og menn brosa út að eyrum - þrátt fyrir allt.
Mín kynslóð á minningar um svona daga og vonandi fá börn dagsins í dag líka að eignast slíkar minningar.
Vona að þessi þjóðhátíðardagur verði góður um allt land og að sólin kíki niður til okkar allra. Nú ef hún er upptekin, þá er það bara pollagallinn og regnhlífin.