17 júní 2009

17. júní

Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru Íslendingar.
Er nokkuð í stöðunni annað en að fara í skrúðgöngur, blása í blöðrur og skjóta upp fánum?
Ég er búin að setja gul, rauð og hvít blóm í kerin mín. Það hafa aldrei verið svona mörg falleg blóm í garðinum mínum. Hvað sem efnahagsástandi þjóðarinnar líður þá ætla ég að rækta lífsgleðina með sjálfri mér og vona að þið gerið það líka. Maður er þá betur í stakk búinn til að takast á við það sem bíður okkar, hvað sem það verður.
Ég vona að íslensk börn fái að upplifa skemmtilega þjóðhátíð. Að þau eignist minningu um dag þar sem glaðlegir litir ráða ríkjum, allir eru í sínu fínasta pússi og menn brosa út að eyrum - þrátt fyrir allt.
Mín kynslóð á minningar um svona daga og vonandi fá börn dagsins í dag líka að eignast slíkar minningar.
Vona að þessi þjóðhátíðardagur verði góður um allt land og að sólin kíki niður til okkar allra. Nú ef hún er upptekin, þá er það bara pollagallinn og regnhlífin.

|

07 júní 2009

Glæpur og refsing

Ég er eiginlega öskureið.
Samt get ég ekki áttað mig á umfangi reiði minnar því hún er þarna einhvers staðar undirliggjandi. Sjálf er ég að reyna að njóta tilverunnar og bera skikkju lífsins létt á herðum mér.
Þessir Icesave-reikningar! Hvernig í ósköpunum getur íslenska þjóðin borið ábyrgð á þessu öllu saman? Hvað um þá sem fundu þetta skrímsli upp, komu því á koppinn og unnu því brautargengi í útlöndum? Er þeirra ábyrgð engin?
Þegar ég les greinar á borð við þessa þá fæ ég engan veginn skilið hvernig hægt er að binda venjulega launþega þessa lands á þann klafa að borga brúsann eftir þessa glæpamenn. Hver er munurinn á þessum glæpamönnum og þessum venjulegu sem við höfum þekkt í gegnum ár og aldir?
Það ætti að gera allar eignir þessara manna upptækar og nota þær til að styðja við mennta- og heilbrigðiskerfið á Íslandi. Sjálfir ættu þessir menn að fara í þegnskylduvinnu upp á vatn og brauð. Þar ættu þeir að vinna þar til skuldin er að fullu greidd. Þeir gætu unnið við að klára tónlistarhúsið í Reykjavík og önnur bákn sem standa hálfköruð um allt land sem minnisvarðar um þetta sukk og svínarí sem viðgekkst í þjóðfélaginu.
Að loknum vinnudegi væri hægt að láta þá standa í eina klukkustund í gapastokk á almannafæri, þar væru hrísvendir sem almenningur fengi að dangla í þá með. Eitt högg handa hverjum sem vildi, svona svo greyin verði ekki alveg húðlaus.

|

02 júní 2009

Lífið er snilld

Helgin er búin að vera meira en frábær.
Við Maggi fórum í jómfrúarferðina með hjólhýsið. Dvöldum á Húsavík í bongóblíðu alla helgina. Ja, eða það er að segja, við þurftum aðeins að fresta för vegna vindstrekkings á Biskupshálsi á föstudag - ekki vildum við að húsið fyki út í veður og vind.
Útgerðin bar þess merki að það voru nýgræðingar á ferð, þrátt fyrir mikinn undirbúning og mikil heilabrot um hvernig hjólhýsafólk hagar lífi sinu.
Við komum fyrst á tjaldstæðið á Húsavík og plöntuðum húsinu á mitt tjaldstæðið - þar var svona rafmagnskassi sem við töldum okkur geta haft not af. Svo fór fólk að tínast á svæðið og allir röðuðu sér pent á jaðar tjaldsvæðisins. Ætli við reynum ekki að gera það næst.
En við höfðum ekki mikið gagn af þessum rafmagnskassa fyrsta sólarhringinn því við fengum dótið ekki til að virka - en fundum það út að lokum.
Við eigum ekki ferðagrill svo það var steiktur ORA-fiskbúðingur í öll mál. Reyndar finnst mér það vera ekta útilegumatur - fæ nostalgíukast því þetta var vinsæll matur á fjöllum í gamla daga.
Við fengum góða gesti, en heiðursgesturinn var Magnús Atli Fannarsson, hann bræddi okkur afa sinn alveg hreint með sínu fallega brosi og skemmtilegu töktum.
Við brunuðum fyrir Tjörnes, í Ásbyrgi, skoðuðum Húsavíkukirkju og mældum bæinn á reiðskjótum postulanna.
Í gærkvöldi var tekin smá rassía í garðinum við Skógarkot og lambakjöti skellt á grillið.
Lífið er náttúrulega bara ljúft ef maður sökkvir sér ekki um of í fréttir af landsmálunum.

|