24 október 2009

Að moka flórinn

Stundum fæ ég kjánahroll þegar ég sé útsendingar frá Alþingi.
Þegar Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn fara með stór orð í ræðustól út af Icesave. Einhvern veginn finnst mér að þessir menn og konur ættu að hafa hægt um sig - það vita það allir að Icesave og bankaklúðrið er þeirra verk. Hinir eru bara að moka upp flórinn og það er aldrei vinsælt verk.
Stundum velti ég því fyrir mér hvernig fjölskyldur útrásavíkinganna hafa það. Foreldrar sem alið hafa upp unglinga þekkja áhyggjurnar af því að barnið lendi í eiturlyfjum, að það skaði aðra og eyðileggi líf sitt með því að velja ranga braut í lífinu.
Hvernig skyldi það vera að horfa upp á afkvæmi sitt eyðileggja framtíð heillar þjóðar? Fíknin sem hertók afkvæmið er kannski ekki áfengis- eða eiturlyfjafíkn heldur fjárglæfra- og neyslufíkn af verstu gerð sem heyrst hefur um á Íslandi.
Ég hef litið björtum augum til þess tíma að ljúka starfsævinni, eiga þá trygga fjármuni í formi séreignasparnaðar og lífeyrisgreiðslna. Kannski svolítinn sjóð á bankabók líka.
Þessi draumur er nú horfinn út í veður og vind. Séreignasparnaðurinn fer í að greiða niður lán svo ég geti tekist á við aðstæðurnar um áramótin þegar launalækkun tekur gildi hjá mér. En ég horfi nú samt á það að ég hef þó vinnu, meira en hægt er að segja um marga Íslendinga.
Svo verður mér flökurt í hvert skipti sem forseti vor birtist í fjölmiðlum. Ólafur Ragnar - ertu nokkuð til í að gefa þjóðinni svigrúm? Við þurfum að reyna að jafna okkur á því hvernig þú hefur erindað fyrir útrásarmenn, fleytandi rjómann af réttunum með þeim.
Einhvern veginn dettur mér svo oft í hug sagan um nýju fötin keisarans þegar forseti vor sýnir sig frammi fyrir þjóðinni

|

13 október 2009

Er óhreint mjöl í pokahorninu?

Hvað er nú að gerast á Bessastöðum?
Ég hef verið að velta því fyrir mér sl. ár af hverju forseti vor hefur aldrei stigið á stokk og mælt hvatningarorð til þjóðarinnar á erfiðum tímum. Stappað stálinu í lýðinn. Sameinaðir stöndum vér ... Snúum bökum saman ... Bráðum kemur betri tíð ...
En nei ó nei, allt sem hans hátign forseti vor hefur til málann að leggja er þetta. Og þá spyr maður sig - hvað hefur maðurinn að fela?

|

11 október 2009

Gamaldags kaupstaðaferð

Þessi ferð í höfuðstaðinn hefur gengið vel.
Ég hef náð að útrétta heil ósköp enda var ég með þéttskrifuð minnisblöð með mér.
Maður skyldi ætla að best væri að versla í sinni heimabyggð en á Egilsstöðum eru bara mjög fáar verslanir.
Margfeldisáhrifin sem virkjanasinnar boðuðu að yrðu vegna álversins á Reyðarfirði hafa einhvern veginn farið fyrir ofan garð og neðan hjá okkur Héraðsmönnum.
Fyrir 20 árum var hægt að kaupa allt sem maður þurfti á Egilsstöðum. Byggingarefni, heimilistæki, gólfefni, borðdúka, fatnað, álnavöru, gjafavöru, listmuni, skó, matvöru og bara allt sem mann hugsanlega gat vantað.
En nú eru aðrir tímar. Ég man að við sem vorum á móti þessum framkvæmdum fyrir austan fengum að heyra ásakanir eins og hvort að við vildum að Austurland yrði Strandir framtíðarinnar - ekkert yrði hægt að gera nema að stunda gönguferðir um eyðibyggðir. Hvort við vildum færa lifnaðarhætti á Austurlandi aftur til 19. aldar.
Ég held að við séum komin töluvert aftur fyrir þann tíma þrátt fyrir að búið sé að virkja og byggja álver - kannski bara aftur til 1250 þegar Íslendingar voru að fara að ganga Noregskonungi á hönd - en núna hefur Noregskonungur breyst í Evrópusambandið. Og þegar við verðum komin þangað þá getum við farið að selja gönguferðir um eyðibyggðir á Austurlandi.

|

08 október 2009

Slátur í höfuðstaðnum.

Ég er komin til borgarinnar.
Mamma úr sveitinni dvelur hjá dóttur og tengdasyni. Að gömlum íslenskum sveitasið hafði ég með mér slátur og við borðuðum heitt kreppuslátur, nýjar kartöflur og rófur í kvöld. Litli bróðir kom og borðaði með okkur og Íslendingarnir við borið voru afskaplega ánægðir með matinn. Enda átum við öll á okkur gat.
Pólski tengdasonur minn, hann Mirek, er með eindæmum jákvæður þegar íslenskur matur er á borð borinn. Hann byrjaði á að segja að þetta væri bara allt í lagi - ekkert vont. Hann setti vel af pipar yfir blóðmörinn og lifrapylsuna og smám saman lifnaði yfir Mirek og að lokum sagði hann að þetta væri bara góður matur.
Í Póllandi er líka búið til slátur en það er öðruvísi en okkar. Mirek er að fara til Póllands eftir nokkra daga og hann lofaði mér að hann myndi fá uppskrift að pólsku slátri hjá ömmu sinni. Ef slátur á að verða aðal fæða okkar næstu árin þá er eins gott að koma sér upp nokkrum uppskriftum.
Flugið suður var ljúft og gott þar til kom að því að lækka flugið. Þá fór að bera á ókyrrð. Síðustu kílómetarnir í aðfluginu voru frekar slæmir fyrir minn smekk. Mér fannst líka eins og við værum með smá hliðarvind. Flugstjórinn gaf vel í yfir Skerjafirðinum og við lentum heilu og höldnu á Reykjarvíkurflugvelli.
Við hlið mér sat kona og henni leið greinilega ekkert vel í lendingunni. Kreppti hendur um sætið fyrir framan svo hnúarnir hvítnuðu. Ég dró andann djúpt og gerði slökunaræfingar - þannig losnar maður líka við að finna hverja smáhreyfingu sem manni þykir frekar stór við þessar aðstæður.
Ég held að þetta sé líka leiðin til að komast af í þessu ástandi sem við búum við - draga andann djúpt og slaka á - þá verður lendingin mýkri.

|

05 október 2009

Allt í rusli

Hér á Fljótsdalshéraði hefur verið tekin upp flokkun sorps.
Nú eru liðnir þeir dagar að maður opni ruslaskápinn í eldhúsinu og láti allt gossa þangað inn án þess að hugsa sig um hvort það er bananhíði, kaffikorgur, tóm sultukrukka, niðursuðudós eða pakkning undan fersku grænmeti.
Fyrir utan húsið mitt standa nú þrjár ruslatunnur í staðinn fyrir eina og frá bæjarfélaginu fékk ég senda þrískipta ruslafötu til að nota innanhúss.
Þetta er búið að valda mér miklum heilabrotum eða kannski frekar kvíða. Í vor sendi bæjarstjórinn okkur bækling og kynnti fyrirhugaða sorpflokkun en síðan eru liðnir margir mánuðir og mikið sorp farið á haugana í millitíðinni, m.a. svona sorpflokkunarkennsluefni.
Fyrsta áfallið var að innanhús sorpflokkunarílátið passar ekki í ruslaskápinn í eldhúsinu. Ég var farin að sjá fyrir mér að ég yrði að skipta um eldhúsinnréttingu - það væri eina lausnin á þessu flókna vandamáli.
Meðan ég var að reyna að finna lausn á þessu máli safnaðsti óflokkað sorp fyrir á eldhúsbekknum í Skógarkoti. Ég þorði ekki með það út af því að ég vissi ekki í hvaða tunnu ég mátti láta það og enn síður vissi ég í hvers konar umbúðir ég gat safnað ruslinu í. Bæjarstjórinn hafði nefnilega líka sent mér nokkrar pakkningar af pokum sem ég átti að setja lífrænan úrgang í en svo átti ég að setja annað rusl í einhverja aðra poka.
Það var komið mikið óloft í húsið og haugurinn á eldhúsbekknum óx í sama hlutfalli og kvíðahnúturinn í maganum á mér.
Loksins tók ég mig til, dró andann djúpt, varð mér úti um nýtt kennsluefni og las allt sem ég komst yfir um sorpflokkun. Ég meira að segja fann það út að það var hægt að flokka í önnur ílát en þetta stóra þrískipta sem hafði valdið mér ómældum kvíða og óþægindum af því að það var ekki möguleiki að troða því undir eldhúsvaskinn. Ég gat meira að segja haldið áfram að nota ruslafötuna sem er föst í innréttingunni. Með því að bæta við minni ílátum sem ég valdi mér bara sjálf, þá gat ég loks hafið flokkun sorps á mínu heimili.
Nú er þetta allt farið að ganga betur. Ég hef meira að segja bara gaman af að flokka sorpið.
Afleiðingarnar eru að ég er farin að horfa mun betur á þær umbúðir sem neysluvarningi er pakkað í. Þegar ég kaupi í matinn í Bónus þá þarf ég, áður en ég tek ákvörðun um kaup, að horfa á innihaldslýsingu vörunnar - er maturinn hlaðinn aukaefnum, er nógu mikið af vítamínum og nógu lítið af hitaeiningum? Ræð ég við verðið? Og síðast en ekki síst - hvernig get ég svo losnað við umbúðirnar?

|