28 apríl 2006

Betri tíð með blóm í haga

Nú er allt að skána hjá mér.
Ég er búin að fara í tvo spinningtíma, eina stafagöngu og eina góða gönguferð í þessari viku. Kannski að tóbaksmörinn fari þá að bráðna.
Ég skrapp í sund í hádeginu á miðvikudag, fékk sérstakt leyfi hjá Steina sundlaugarverði til að fara bara í sólbað í heita pottinum, sleppa sundinu, af því að ég hafði verið í spinning um morguninn.
Tölvutátan var þarna í lauginni, en hún misskilur nú eitthvað til hvers maður fer í sund. Hún bara synti og synti í stað þess að blanda geði í heita pottinum.
Svo hef ég aðeins brugðið mér í ljós, tekið hálfan tíma í senn og það er allt annað líf að fá smá ljós og yl í kroppinn. Nú bara vakna ég eins og manneskja á morgnanna.
Ég hef ekki þorað í ljós í langan tíma, það er alltaf verið að tala um hvað þetta er hættulegt. En nú tala allir um fuglaflensu og hrakspár Den Danske bank svo ég held að það sé allt í lagi að skreppa í ljós á meðan enginn man hvað það er heilsuspillandi.
Í morgun vaknaði ég við að menntaskólakrakkarnir eru að dimmitera og komu kl. 6 að syngja fyrir hann Bjarna granna minn. Það var bara ágætt að vakna upp við fjörið í krökkunum.
Ég er búin að frétta af hrossagauk hér í bænum, það er allt fullt af álftum og gæsum á túnum Egilsstaðabænda og ég hef rekist á útsprunginn fífil. Vitið þið eitthvað fallegra blóm en túnfífil? Ég hef aldrei skilið af hverju fólk rífur þessa fallegu jurt úr görðunum sínum og plantar í staðinn einhverjum blómum sem hafa ekki nálægt því eins fallega blómkrónu og alls ekki fallegri lit.

|