06 maí 2006

Vor í lofti

Ég þykist vera að gera helgarhreingerninguna.
En í rauninni er ég úti að hjóla. Ég er nefnilega búin að fá nýtt rautt hjól. Ég gaf sjálfri mér það í tilefni gærdagsins en þá voru 4 ár síðan mikil straumhvörf urðu á lífi mínu, breytingar til hins betra.
Ég er búin að úthugsa alls konar smáerindi út um bæinn og fer á hjólinu að sinna þeim, einu erindi í einu svo ég geti farið margar ferðir.
Í morgun vantaði mig handsterkan mann til að losa upp tvær skrúfur á hjólinu af því ég þurfti að festa körfu framan á hjólið. Ég hjólaði til þeirra "feðga" Garps og Magga til að fá aðstoð. Garpur litil var nú bara í mesta sakleysi að njóta sólarinnar og klifra í 40 cm háum runnum í garðinum heima hjá sér þegar grimmur hundur kom hlaupandi og réðst á Garp. Þetta voru ljótu aðfarirnar. Hundurinn var skammaður heim til sín bölvaður óþokkinn. Hann hefði samt átt verra skilið.
Garpur greyið sem allt í einu var orðinn tvöfalldur að umfangi af því að hárin risu svo rosalega, var lengi að jafna sig og ég er viss um að hann dreymir þennan hundskratta næstu daga og nætur. Vita menn ekki að lausaganga hunda er bönnuð hér á Egilsstöðum.
Jæja en sólin skín og Kolgríma er búin að hjálpa mér að hengja út þvottinn. Hún var á flugnaveiðum úti í garði í morgun og hún er kát yfir að vorið skuli vera komið. Eins gott að hún láti fuglana í friði. Þeir sem ekki hafa þurft að þrauk af veturinn hér heima eru búnir að leggja á sig mikið erfiði að fljúga hingað til okkar svo það er fúlt að verða svo ketti að bráð.

|