23 desember 2006

Þorláksmessukvöld

Þá er hún hafin biðin eftir jólunum.
Hér í kotinu hjá okkur Kolgrímu er allt tilbúið fyrir aðfangadag. Ég hef meira að segja aðeins svindlað og þó ég sé vön að setja ekki dúkana á borðin fyrr en á aðfangadag hef ég verið að dunda mér við það í kvöld.
Ég fór í skötuveislu í hádeginu og þó ég kalli nú ekki allt ömmu mína þegar skata er annars vegar þá runnu tárin þegar ég var að borða þessa rosalega kæstu skötu.
Biðin eftir matnum var svo löng að við ræddum það við borðið að á næsta ári yrðum við bara með skötuveislu heim. Og þá var það spurningin hver væri til í að leggja það á heimilið sitt að hafa skötulykt.
Mér finnst það nú ekki mikið mál, ég hafði skötu í matinn á Þorláksmessu í 20 ár og það er í fyrsta lagi hægt að sjóða hana úti og svo hverfur lyktin endanlega þegar rjúpurnar fara að krauma. Ég er meira en til í að halda skötuveislu.

Kæru vinir og velunnarar Lötu Grétu,
við Kolgríma óskum ykkur gleðilegra jóla
og vonum að þið finnið öll frið í sálinni um hátíðarnar.

|