31 mars 2006

Reykbindindi

Ég er ekki fallin.
Það gengur bara ágætlega að hætta að reykja. Læknirinn minn lét mig hafa lyf sem á að hjálpa mér að komast yfir þetta erfiða tímabil.
Þetta er ótrúlegt lyf og ég hef heyrt margar sögur af því hvað fólki hafi gengið vel að hætta að reykja með hjálp þessa lyfs.
Lyfið var fundið upp sem þunglyndislyf en virkar ekki sem slíkt og í stað þess að henda því var ákveðið að pranga því inn á fólk sem í örvæntingu grábiður um hjálp til að hætta að reykja.
Lyfið virkar þannig á mig að ég hef haft stöðugan hausverk í viku, vakna meira að segja á nóttunni með hausverk, hef snert af þunglyndi, hef verið með kökk í hálsinum yfir smávægilegum hlutum, fengið kvíðatilfinningu út af engu, er stöðugt sunnan við mig, man ekki hvað einföldustu hlutir heita og vil helst fá að vera undir sænginni minni allan sólarhringinn.
Þess vegna hef ég ekki haft neitt til að blogga um undanfarið. Og þess vegna hef ég heldur ekki hugsað neitt um tóbak - mér hefur einfaldlega liðið of illa til þess að muna eftir því að ég er nikótínisti.
Ótrúlegt lyf.

|

25 mars 2006

Tölvur og tóbak

Tölvurnar í vinnunni hafa verið alvarlega veikar.
Í gær byrjaði aðgerð sem stýrt er frá Reykjavík og á að ljúka á mánudag með aðstoð tölvutrítils úr heimabyggð og þá eiga tölvurnar að vera alheilbrigðar.
Það hringdi einn tölvugúru úr borginni í mig í gær og spurði hvort ég myndi ekki treysta mér að gera það sem þyrfti að gera ef mér yrði fjarstýrt úr borginni. Verkið er unnið í Reykjavík en það verður einhver á staðnum að vera til taks þegar eitthvað óvænt kemur upp. Ég var nú ekki til í að taka þess áhættu. Það var nefnilega þannig að það átti að vera einhver tölvuglöggur sem myndi vinna verkið hér heima - þar til við fáum trítilinn úr Tölvusmiðjunni á mánudag.
En það datt af mér andlitið þegar viðmælandi minn nefndi nafn eins vinnunágranna míns og spurði hvort hann gæti ekki gert þetta. Ég sagði nú bara að þó þarna væri um karlmanna að ræða þá kynni hann ekki helminginn af því sem ég kann á tölvur og ég myndi ALDREI, hleypa honum í tölvuna mína. Karlmenn !!!!
Niðurstaðan var svo sú að ég var kölluð út tvisvar í gærkvöldi til að fremja einhverja tölvugaldra. Í fyrra skiptið sem ég var kölluð út var ég að setja upp matinn, ég fékk nefnilega óforvarendis nokkra gesti í mat. Seinna útkallið kom svo þegar við vorum að setjast að borðum og ég var rétt búin að bjóða mönnum að gjöra svo vel. Ég bað gestina bara að byrja að borða, ég þyrfti aðeins að skjótast og þegar ég kom aftur heim var borðhaldi lokið.
Ég hef ekki gáð til veðurs í 10 daga. Mér gengur bara vel, fæ stundum smá nikótínkast en það er ekki viðvarandi svo ég ætti að hafa þetta af. Góðu fréttirnar eru þær að ég hef ekkert þyngst neitt þessa daga.

|

17 mars 2006

Góður gestur

Þá er Garpur litil kominn aftur til okkar Kolgrímu.
Eigandinn er að leika sér norður í landi svo Garpur leikur sér hjá okkur Kolgrímu á meðan. Þau eru ótrúlega skemmtileg. Sjá þau borða saman, þau fara í kappát eins og þeim sé mikið í mun að bjarga sem mest af matnum frá hvort öðru. Kolgríma hefur varla litið við matnum sínum alla vikuna, snúið upp á sig og gert mér skiljanlegt að þetta sé ekki alveg það sem hún hafði óskað sér. En nú skal hún frekar éta matinn en láta þennan Garp gæða sér á honum. Svo eru þau alveg að springa.
Það hefur verið hræðilega mikið að gera í vinnunni þessa vikuna og ég er eins og undin tuska. Komandi helgi hefur ekki verið ráðstafað í glamor, glys og glingur heldur bara eins mikla vinnu og ég kemst yfir.
En eitt er víst, ég ætla að sofa frameftir á morgun, vakna kl. 7.30, færa mér kaffi í rúmið, hafa það virkilega huggulegt og njóta þess að þurfa ekki að fara strax á fætur. Teygja úr tánum og lesa góða bók.
Ég má til með að láta þess getið að ég hef ekki gáð til veðurs, viðrað köttinn, farið út að veiða, eða hvað sem menn vilja kalla það, í þrjá daga. Ég er dauðhrædd um að þetta verði til þess að ég þyngist um fleirihundruð og fimmtíu kíló svo ég verð að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir.
Ég ætla bara rétt að vona að ég verði ekki 100 ára úr því að það er búið að banna mér að gera allt sem er gott og skemmtilegt. Það er svo sem allt í lagi að sleppa því að reykja og drekka en að mega ekki borða, það er of mikið af því góða - hvar endar þetta??? Eins gott að læknirinn minn fatti ekki hvað mér þykir gott að liggja í heitu baði, hann myndi örugglega finna ástæðu til að banna mér það.

|

11 mars 2006

Nýir tímar

Ég rakst á góða fyrirsögn í Mogganum í gær:
"Það eru nýir tímar framundan". Guð hvað mér létti við að lesa þetta - hugsa sér ef það væru gamlir tímar framundan. Við ættum e.t.v. yfir höfði okkar svarta dauða eða stóru bólu en ekki fuglaflensuna. Ekki þar fyrir hún er örugglega ekkert skárri, við búum bara við betri kost en forfeður okkar. Eigum þess alla vega kost að fá að deyja í hreinum rúmum en ekki lúsugum fletum.
Þetta er örugglega fyrsta helgin á árinu sem ég hef ekki skipulagt neitt sérstakt. Engin mannamót, ekkert matarboð, ekkert sukk.
Þetta er ósköp notalegt, get gert bara það sem mér dettur í hug, hugað að öllu sem ég hef trassað. Kannski ég skúri í annað skiptið á árinu - ef ég verð í stuði til þess. Tek svolítið til hjá okkur Kolgrímu, ligg í leti, les í einhverjum af öllum þessum bókum sem liggja ólesnar á náttborðinu og hef það í einu og öllu afskaplega huggulegt.
Kolgríma fór út í morgun og eftir að vera búin að vera úti í roki og rigningu (smá vindi og örlítilli úrkomu) kom hún mjálmandi inn og hoppaði upp í fangið á mér, lét mig klappa sér, malaði og þvoði á sér táslurnar. Hún gengur um mjálmandi eins og hún sé að segja mér frá þessu óveðri sem hún var úti í. Hún er svo mikil dekurdúlla þessi elska, hún þolir ekki smá kulda og smá vætu.

|

05 mars 2006

Talsímatæki

Brá mér í borgina.
Aðalerindið var að fá lambið mitt til að stilla mjög svo flókið gsm-talsímatæki sem ég fjárfesti í um daginn. Hvað á það að þýða að selja miðaldra konu svona flókna græju? Mér finnst að þegar kona sem ber öll merki þess að vera fædd upp úr miðri síðustu öld kemur inn í verslun og ætlar að kaupa svona flókið tæki þá beri starfsmönnum að benda henni á eitthvað einfaldara tól.
Ég stóð eins og álfur út á flugvelli í gær og var að reyna að finna út hvernig ætti að slökkva á þessum bölvaða síma. Hélt að vélin færi í loftið án mín. Var svo heppin að Selma var á vakt á vellinum og hún benti mér á takka með rauðu merki sem ætlaður væri til að slökkva og kveikja með.
Af hverju eru ekki bara til gsm-símar með sveif? "Halló, miðstöð, ég þarf að senda eitt sms. Nú, hvað segir þú, hefur mér borist sms??? viltu lesa það fyrir mig."
Þegar við Finnur vorum ung og ástfangin þá var sveitasími á Gunnlaugsstöðum. Þá gat maður hringt í 02 og fengið símasamband upp í sveit, stutt, löng, stutt - eða hvernig sem hringingin var nú.
"Hæ..............blessuð.............hvað segir þú?...............svo sem ekkert............humm..............hvað ertu að gera?...........ekkert sérstakt..............ætlar þú á ball?................veit ekki, en þú?...............kannski."
Svona voru símtölin þrungin spennu og hlaðin orðum sem ekki voru sögð. Kannski að einn gamall bóndi lægi á línunni og við hlustuðum á þungan andardrátt hans. Einu sinni man ég að það kom óþolinmóð rödd sem sagði "Krakkar, vilji'ði leggja á ég þarf að ná í dýralækninn."
Svo fór ég til Reykjavíkur og þá gat maður hringt í 02 og beðið um collect samband við pabba og mömmu heima á Egilsstöðum og talað lengi á þeirra kostnað. Þau voru svo ánægð að heyra í örverpinu að það var ekki talið eftir. "Viðtalsbil" sagði talsímakonan með jöfn millibili og þegar hún var búin að segja það nokkrum sinnum var tími til að kveðja, dýrt að tala milli landshluta.
Í þá daga var Nokia bara merki fyrir græn eða svört vaðstígvél.
Við Kolgríma reyndumst eiga hauk í horni hér í heimbyggð. Henni var klappað og hún fékk mjólk í gærkvöldi áður en hún fór inn í mannlaust rúmið mitt og lagðist til svefns. Ég gat því sofið róleg í Reykjavík. Þetta var hinn besti túr og ég hitti ótrúlega marga ættingja miðað við að þetta var bara sólarhrings ferðalag.

|

03 mars 2006

Vinir hvað????

Hvar eruð þið þessir svokölluðu vinir mínir og vandamenn?
Ég þarf að breggða mér af bæ í einn sólarhring og er búin að leita til vina og vandamanna að kíkja til Kolgrímu, klappa henni meðan ég er að heiman og gefa henni að borða. Er einhver boðinn og búinn? Nei, ó nei, allir virðast þurfa að fara úr bænum á sama tíma og ég.
Ef ég hefði ekki fengið rosalega góðar fréttir í dag þá væri ég núna skælandi á koddanum mínum.
Við Kolgríma fengum sem sagt afar góðar fréttir og ákváðum að halda upp á daginn og matreiða okkur fisk. Kisa gat varla beðið og vildi helst stinga sér inn í ofninn með fiskinum, stóð vælandi og mjálmandi á eldhúsgólfinu þar til fiskurinn var tilbúinn.
Þetta var góð tilbreyting eftir allt þetta hræðilega kjötát undanfarið, 1. 2. og 3. í sprengidegi af því að ég eldaði svo stóran skammt. Kolgrímu fannst saltkjötið mjög gott en hún leit ekki við síðubitunum, vildi bara fá framhryggjarbita - afar vandlát kisa.
Garpur litli fór til síns heima og það var hálf tómlegt í kotinu þegar hann var farinn en Kolgríma er svoddan prímadonna að ég held að hún sakni hans ekki eins mikið og ég geri.
Lífið gengur bara sinn vana gang - vinna, sofa og eta - sem sagt allt í lukkunnar velstandi.

|