21 janúar 2007

Þorrinn

Þá er þorrinn genginn í garð.
Þorrablót okkar hér á Egilsstöðum var haldið á bóndadaginn og tókst afar vel eða það erum við í nefndinni alla vega sammála um.
Það var heldur ekki annað að sjá og heyra en að allir blótsgestir væru hæstánægðir.
Umgjörðin voru sögurnar um Kardimommubæinn, Dýrin í Hálsaskógi og Karíus og Baktus. Bæði skreytingarnar og skemmtiatriðin voru sett í þann ramma.
Síðustu vikur hefur hvert kvöld og allar helgar farið í undirbúning og á bóndadaginn sjálfan vorum við mætt í íþróttahúsið kl. 9 um morguninn og við yfirgáfum það kl. 7 morguninn eftir og þá var búið að taka allt saman og þrífa húsið svo menn gætu aftur farið að æfa þar íþróttir.
Þetta hefur verið einstakur tími og þessi hópur hefur verið einstaklega jákvæður og samtaka í öllu sem gera þurfti til að koma þessu þorrablóti á koppinn.
Mér líður álíka í dag og mér leið hér fyrir margt löngu þegar ég sat í kvöldsólinni á Illakambi að lokinni göngu frá Snæfelli yfir í Lón. Við vorum 12 sama og höfðum varið saman viku á fjöllum án þess að heyra eða sjá nokkrar aðrar manneskjur. Þegar við sátum á Illakambi og biðum þess að verða sótt þá fylltist ég söknuði við tilhugsina um að kannski ætti ég aldrei eftir að hitta suma úr hópnum aftur.
Ég á nú eftir að hitta þorrablótsnefndina aftur sem betur fer, við eigum í það minnsta eftir að halda litla blótið og þá verður fjör. Nú og svo vona ég að enginn úr nefndinni fari að asnast til að flytja héðan.

|

12 janúar 2007

Lífið er þorrablót

Það er ekki bara gott að búa á Egilsstöðum,
það er líka rosalega skemmtilegt.

Nú er vika fram að þorrablóti og ástæðan fyrir því hversu langt líður á milli að ég blogga er sú að ég er að skemmta mér í þorrablótnefnd. Þetta er ótrúlega mikið fjör, við erum öll kvöld að spá og spekúlera í hvaða grín er hægt að gera að samborgurunum. Ég held að við sem erum að undirbúa blótið fáum margfalt meiri skemmtun út úr þessu en þeir sem borga sig inn í íþróttahúsið á bóndadag.

Svo er ég svo treg að ég hélt að auglýsingin Enn er Von með harmonikku, væri grín, en þetta er bara fúlasta alvara.

|

08 janúar 2007

Það er gott að búa á Egilsstöðum

Mikið er gott að búa á Egilsstöðum.
Í sumar var lagður hjólastígur út og suður, upp í skóg og norður fyrir Fljót. Það fannst mér mikil samgöngubót og ég hef mjög gaman af að hjóla upp í skóg, undir Eyvindarárbrúna. Mér finnst að það mætti malbika meira í skóginum - þetta er ekki grín, það er svo gaman að hjóla á malbikuðum stígum.
Í morgun sá ég á msn-inu hjá Grétu Aðalsteins að hún hafði misst af strætó. Ég auðvitað setti mig í samband við hana og spurði hana hvort hún væri í Reykjavík. Nei, aldeilis ekki, hún hafði misst af strætó úr Fellabæ í Egilsstaði. Ég hélt að þetta væri eitthvert grín hjá henni, en svo sá ég bara með eigin augum skilti fyrir framan löggustöðina, strætóbiðstöð.
Ja, hérna hér. Ég fylgist ekki nógu vel með.
Hefur eitthvað fleira markvert gerst í bænum án þess að ég hafi tekið eftir því?

|

07 janúar 2007

Jólasukki lokið

Jæja, þá eru jólin á enda runnin.
Við Kolgríma erum búnar að taka niður jólaskrautið og nú stendur þetta fallega tré nakið í stofunni. Þetta er sérstaklega fallegt tré, það er þakið könglum sem uxu á það í skóginum. Toppurinn er hjúpaður kóngulóarvef sem lítil kónguló sem fylgdi trénu úr Brekkugerðisskógi hefur dundað sér við að spinna um jólin. Þessi fíngerði vefnaður er miklu fallegra en englahár og annað sem jólatré eru sveipuð. Synd að þurfa að henda þessu út.
Þau undur og stórmerki áttu sér stað í lífi mínu á föstudaginn að ég hafði mig í íþróttahúsið. Steini sundlaugarvörður kom alveg fram að útidyrum til að heilsa mér, bjóða mig sérstaklega velkomna og kynna fyrir mér hvaða starfsemi færi fram í þessu húsi.
Ég fór í þreksalinn og tók vel á. Þetta var svo sterk upplifun að ég hef ekki svo mikið sem gangsett bílinn í dag eða gær, bara ferðast um á hjólinu. Reyndar kannski heldur kalt úti til að vera að hjóla, en ég var komin langleiðina niður í kaupfélag þegar ég gerði mér það ljóst.
Ástæða þess hversu langt er liðið frá síðasta bloggi eru tæknileg vandræði hjá blogger.com en ekki leti í mér. Ekki einu sinni sú staðreynd að ég er í þorrablótsnefnd hefur komið í veg fyrir að ég hef reynt að blogga en ég hef ekki náð sambandi við þennan blogger.com fyrr en núna.

|

01 janúar 2007

Gleðilegt nýtt ár.

Lata Gréta og Kolgríma
senda nýárskveðjur til allra vina og vandamanna til sjávar og sveita.
Megi nýtt ár færa ykkur öllum frið í hjarta, farsæld og gleði.
Þakka ykkur öllum sem heimsóttuð síðuna á árinu 2006 og sérstaklega ykkur sem glödduð mitt litla hjarta með því að skilja eftir komment eða kveðju.
Góðar stundir.

|