24 febrúar 2007

Hvers kyns eru húsmæður?

Ég var að hugsa um íslenskar húsmæður.
Fór þá að velta fyrir mér hvort karlmenn gætu ekki verið húsmæður eins og konur eru ráðherrar.
Okkur hættir svo til að leggja góðum og gildum orðum yfir starfstéttir af því að þau eru kvenkyns. T.d. þegar karlar fóru að læra hjúkrun var hætt að tala um hjúkrunarkonur og í staðinn kom karlkynsorðið hjúkrunarfræðingur. Mamma sem var hjúkrunarkona af gamla skólanum, neitað að taka upp nýtt starfsheiti og starfaði sem hjúkrunarkona þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir 1991. Mér fannst það gott hjá henni að halda sínu gamla og fallega starfsheiti.
Konur eru líka menn, þess vegna er hægt að sættast á að karlkenna starfsheit, en ég vona að húsmæður verði alltaf húsmæður, hvers kyns sem þær eru, þetta er svo fallegt orð.

|

22 febrúar 2007

Hótel Saga lengi lifi

Svona eiga bændur að bregðast við.
Ég var að sjá það á mbl.is að forráðamenn Hótel Sögu hefðu úthýst væntanlegum klámiðnaðarráðstefnugestum af hótelinu. Húrra fyrir Hótel Sögu.
Svo var ég að sjá það að skipuleggjendur ráðstefnunnar segðu að þetta yrði til þess að hætt yrði við ráðstefnuna á Íslandi. Húrra fyrir Hótel Sögu.

|

20 febrúar 2007

Hreindýralottóið

Þá er búið að draga í hreindýralottóinu.
Ég óska henni Grétu Aðalsteins til lukku, en hún fer á fjöll í sumar og veiðir sér eitt dýr til matar. Maður ætti kannski að fara að æfa skotfimi, ég held að svona veiðar séu rosalega skemmtilegar.
En hvað um það, ég heyrði í hreindýraveiðimanninum mínum í dag og mér til mikilla vonbrigða og sárrar hneykslunar þá fékk hann ekki veiðileyfi.
Veiðimaðurinn minn á miklar lendur á veiðisvæði 7 og þarna sér maður svo oft og iðulega hreindýrahópa, í síðustu viku voru þó nokkur dýr að spóka sig við þjóðveg 1 í Álftafirðinum. Hvaða réttlæti er í því að landeigendur sem mega þola ágang dýranna fá ekki leyfi til að veiða þau???
Ef ég fengi að ráða þá væri hreindýrakvótanum úthlutað í tveimur hollum, annars vegar til landeigenda og hins vegar til annarra veiðimanna. Að sjálfsögðu þyrftu báðir að uppfylla öll skilyrði sem þarf í dag, skotveiðileyfi o.s.frv.

|

17 febrúar 2007

Gamall skítur

Það er margt undarlegt í kýrhausnum.
Nú heyrir maður að Jónína nokkur Ben sé farin að bjóða Íslendingum upp á sérstakar heilsuferðir til Póllands og að aðal tilgangur ferðarinnar og helsta skemmtun þáttakenda sé að ganga örna sinna í því fróma landi.
Ég hef lengi látið mig dreyma um að komast til Póllands og skoða m.a. Warsjá, fallega þjóðgarða, heimsækja Kraká, en ekki hef ég neitt sérstaklega verið að hugleiða að fara þangað til að ganga örna minna, það get ég svo vel gert hér heima. Vonandi kemst ég samt einhvern tíma til Póllands og stoppa svo lengi að ég þurfi að sinna þessu kalli náttúrunnar þar.
En það ku víst vera þannig að í þörmum okkar safnist fyrir margra ára byrgðir af skít sem þurfi að gera alveg sérstakar ráðstafanir til að losna við og það sé hægt að gera það í Póllandi.
En það er annars konar skítur sem mér finnst ekki síður hvimleiður, en það er fortíðarskítur sem safnast stundum fyrir í höfðinu á fólki. Þá festast menn í leiðinlegum tímabilum eða atburðum fortíðarinnar og geta varla litið glaðan dag því þeir eru fastir í skítinum.
Kannski að Jónína eigi eftir að finna út hvernig hægt er að losna undan því að sitja föst í fortíðinni og geti þá kennt okkur að hreinsa til í hugarfylgsnum okkar.

|

12 febrúar 2007

Hin krónísku fimm kíló

Allar konur sem ég þekki dreymir um að losna við 5 kíló.
Mig dreymir um að losna við 15 kíló en ég á líka yfirleitt stóra drauma og mig dreymir um að losna við stóra keppi.
Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér lífsgleði og lífsánægju hennar Dandýjar sem kennir mér spinning. Þetta er einhver skemmtilegasta kona sem ég hef hitt á lífsleiðinni, ein af þessum sem fær mann til að brosa bara með því að bjóða góðan daginn.
Þetta er alveg frábær stelpa og ég er að reyna að taka hana mér til fyrirmyndar. Allar konur ættu að taka Dandý sér til fyrirmyndar.
Þið sem voruð á þorrablótinu hér á Egilsstöðum sáuð hvernig Dandý kom sá og sigraði. Hún var ekkert feimin við að koma frekar fáklædd fram, þó hún sé ekki nein horgrind. Hún er nefnilega mjög fitt og flott og afar kvenlega vaxin. Og þegar við vorum að skoða myndir af þorrablótinu þá hikaði Dandý ekkert við að segja "ógeðslega er ég flott" og hún er það og ég held að við séum það bara allar.
ÉG ER ÓGEÐSLEGA FLOTT.

|

08 febrúar 2007

Of gömul????????

Mér hefur næstum alltaf fundist ég vera á allra, allra besta aldri.
Alltaf á rétta aldrinum til að njóta lífins og gera allt það sem mig langar til.
Nema í dag.
Mér finnst ég allt í einu vera orðin eitthvað hræðilega miðaldra. Ég var að lesa það á ruv.is að The Who yrðu á Hróarskelduhátíðinni í sumar og ég uppveðraðist, gaman, gaman, ég á Hróarskeldu. Og maður minn, Red hot chili peppers líka. Æði, ég var næstu búin að panta flug þegar ég fattaði að ég myndi ekkert passa vel í hópi 20 ára krakka og gamalla hippa sem dressuðu sig síðast upp í Karnabæ, hafa ekki enn fattað að það er komin 21. öldin og það er það allra hallærislegasta af öllu hallærislegu að ganga með síðar gráar hárlufsur og ég tala nú ekki um þegar þær eru bundnar upp í tagl.
Ég gæti auðvitað verið í túristafíling og skoðað konunglegar líkamsleyfar í dómkirkjunni og kíkt á víkingasafnið og svona eins og fyrir tilviljun slæðst inn á hátíðarsvæðið.
Æi, ég held ég verði bara að sætta mig við að þetta er einhvern veginn ekki alveg staður og stund fyrir mig.

|

06 febrúar 2007

Aftur til fortíðar

Nú erum við í vondum málum.
Í öllum uppganginum hér á Egilsstöðum er þjónustu að fara aftur. Það er að vísu hægt að fá nóg að borða og kaupa byggingaefni í stórum einingum, ef maður ætlar að byggja sér blokk eða eitthvað slíkt.
En ef manni vanhagar eitthvað smálegt eins og tvær skrúfur þá versnar málið. Ég sé fram á að hafa jólaeldhúsgardínurnar uppi fram á vor eða þar til ég kemst næst í kaupstað því það er ekki nein álnavöruverslun hér lengur og gömlu gardínurnar mínar sem verða 40 ára á þessu ári voru orðnar nokkuð lúnar. Ef rennilás fer eða tala dettur þá er flíkin ónothæf fram að næstu kaupstaðaferð.
Ég er búin að heyra um alls konar fínar sérverslanir sem hyggjast opna hér eins og Rúmfatalagerinn, Blómaval og eitthvað fleira fínerí, en manni er bara bent á einhverjar holur í jörðinni og sagt að þarna verði opnuð verslun. Mér sýnist bið á að maður fái að berja vöruúrvalið augum.
Svo sá ég nú fram á betri tíð með blóm í haga því Iceland Express ætlaði í samkeppni við Flugfélagið á flugleiðinni Reykjavík - Egilsstaðir. En hvað kemur þá upp? Flugfélagið á kofaskriflið í Reykjavík þar sem flugafgreiðslan er og neitar Iceland Express um aðstöðu.
Það er urgur í mér.

|

04 febrúar 2007

Lokadagur

Þá er blótsvertíðinni lokið hjá mér þó þorrinn sé ekki búinn.
Ég kem undan þorranum með þreytta fætur og úttroðinn maga en gleði í hjarta. Og þá er tilganginum náð.
Vallablótið lukkaðist að venju vel og ég náði ekki að klára danskortið þrátt fyrir að Bergur á Ketilsstöðum hafi svikið mig og flutt suður á land. Í fyrra reyndu faðir hans og sonur að fylla í skarð Bergs og dansa við mig á blótinu en nú liggur Jón á sjúkrahúsi og Guðmundur mætti ekki á blótið.
Þegar ég var að kveðja og halda heim á leið eftir frábæra kvöldskemmtun á Iðavöllum, þá uppgötvaði ég semsagt að það voru nokkrir gamlir sveitungar sem mér hafði ekki unnist tími til að dansa við. En ég mæti alveg örugglega á Vallablótið 2008 því ég verð í næstu nefnd og þá get ég reynt að vinna upp danstapið frá þessu ári.
Á Litla blótinu hér á Egilsstöðum í gær, var einhver að halda því fram að hann hlyti að eiga nefndametið af viðstöddum, taldist svo til að þetta hafi verið fjórða þorrablótsnefndin sín. Vallamenn taka allt með trukki og sem gömlum Vallamanni þá taldist mér til að þetta hafi verið í það minnst áttunda nefndin mín og sú níunda á næsta ári. En Vallamenn voru nú líka að halda sitt 111. þorrablót eftir því sem talning leiddi í ljós hjá veislustjóra og það var lengi til siðs að hálfur hreppurinn væri í hverri nefnd.
Góðar stundir.

|

02 febrúar 2007

Ammæli

Áður en ég veit af verð ég orðin fimmtug.
Ég var að spjalla við æskuvinkonu mína, hana Önnu Stellu, fyrir ekki löngu síðan og þá barst talið að því að síðari hluta næsta árs verðum við fimmtugar, hún í ágúst en ég í nóvember.
FIMMTUGAR, Jesús, Pétur og Jóhannes, við sem erum alltaf 16.
Anna Stella er með smá gyðingablóð í æðum sínum og hún sagði mér að hún væri byrjuð að leggja fyrir til að eiga fyrir afmælisveislunni. Alltaf fyrirhyggjusöm. Nema hvað ég ákvað að fara að hennar dæmi og tók aftur í notkun bankareikninginn minn sem einu sinni hét Púður og pjatt en nú heitir hann Ammæli. Ég legg fyrir ákveðna upphæð á mánuði og nú er ég búin að safna mér fyrir efni í nokkrar hnallþórur.
Ég hafði bara hugsað mér svona venjulegt afmæli, vinir, vandamenn og veitingar. En svo er maður að lesa um hvernig fimmtugsafmæli eru nú til dags. Forstjóri Samskipa fékk Elton John til að taka lagið og Árni Matthíasson á Mogganum fékk seytján hljómsveitir til að taka lagið í sínu fimmtugsafmæli.
Jamm og já, ég er nú ekki svona stöndug, hafði séð fyrir mér að Konni kynlegi mætti með hljóðfærasafnið sitt og Eymundur hennar Ragnheiðar myndi halda uppi fjöri við gítarundirleik.
En þetta er náttúrlega bara lummó og ég þarf að endurskoða planið.
Ég þekki reyndar nokkra fræga tónlistarmenn, eða öllu heldur foreldra þeirra og gæti kannski samið við einhverjar, sérstaklega ef ég geri það tímanlega.
En svo mundi ég eftir honum Brjáni frænda mínum. Hann er alger stuðbolti og hann og reyndar nokkrir aðrir ættingjar mínir, eru saman í hljómsveit. Ég fæ auðvitað bara Brján til mæta með með sína hljómsveit svo þetta verði nú boðlegt afmælissamsæti.
Spurningin er bara hvar ég get komið þeim fyrir, þessi hljómsveit er nefnilega frekar fjölmenn og kallast Sinfóníuhljómsveit Íslands.

|