28 febrúar 2009

Til fyrri lifnaðarhátta

Alveg var það yndislegt veðrið á Egilsstöðum í dag.
Það var ekki skýhnoðri á himni, lítið frost og logn. Í svona veðri er ómögulegt að hanga inn í húsi allan daginn svo ég ákvað að fá mér göngutúr niður í þorp.
Klófríði leist greinilega vel á uppátæki mitt að fara fótgangandi að heiman og ákvað að slást í för. Hún hoppaði á sínum fjórum loppum í kringum mig á göngustígnum niður í gegnum skóginn en sem betur fer ákvað hún loks að fara frekar út í skóg að leika sér heldur en að fylgja mér alla leið. Ég ætlaði nefnilega í kaupfélagið okkar og þar er ég ekki viss um að kisur séu velkomnar.
Þegar ég kom að Valaskjálf ákvað ég að kíkja aðeins á einhvern farandsölumarkað sem þar hefur verið settur upp og auglýsti úrval af pússluspilum fyrir krakka úr krossviði. Kannski að Gosi væri þar að kaupa sér pússl. En nei, engir krakkar úr krossviði sjáanlegir. Ég keypti mér hins vegar fílt til að setja undir stóla og borð.
Ég hélt áfram för minni, spjallaði við nokkra vini og kunningja sem á vegi mínu urðu. Kíkti í Te og kaffi og þá fékk ég svona aðkenning að verslunargleði. Eitthvað sem hefur lagst í dvala í kreppunni. Keypti m.a. teketil sem er eins og gulbröndóttur köttur. Afskaplega glaðlegur ketill. Svo keypti ég auðvitað fínt te.
Mér leið bara eins og ég væri komin hálft ár aftur í tímann. Tríttlandi um bæinn að kaupa fáfengilega hluti, bara eins og kreppan væri víðsfjarri.
Í kaupfélaginu keypti ég algerlega óþarfar servéttur, litlar og sætar með eplamynstri. Svei mér þá, ég var bara alveg að sleppa mér í kaupæðinu.
Í fyrramálið koma nokkrar vinkonur í sunnudagsstelpumorgunmat og þær ætla allar að mæta á náttfötunum. Við skemmtum okkur við þetta í fyrravetur, en stelpumorgunmatur á sunnudögum er eitt af því fjölmarga sem þessi kreppa hefur reynt að koma fyrir kattarnef.
Svei mér þá, lífið getur verið ótrúlega ljúft og gott þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu.

|

36 ára kraftaverk

Veturinn 1973 var viðburðaríkur.
23. janúar var ég vakin upp við þær furðufréttir að gos væri hafið í Vestmannaeyjum. Einhver hafði gleymt að slökkva á útvarpinu sínu og vaknaði svo við að hafin var útsending með fréttum af gosinu.
Í þá daga var bara gamla Gufan og útsendingum lauk kl. 1 á nóttunni með veðurfréttum og svo þagði útvarpið til klukkan 7 að Jón Múli hóf upp sína dimmu og fallegu rödd og yfir landsmenn hljómaði "Útvarp Reykjavík. Útvarp Reykjavík. Klukkan er 7."
Sá sem gleymdi að slökkva á útvarpinu sínu vakti alla fjölskylduna og ég man að við söfnuðumst saman við útvarpið í bókaherberginu og hlustuðum með skelfingu á þessar ótrúlegu fréttir.
28. febrúar var ég aftur vakin upp síðla nætur og nú var mér sagt að Guðlaug mágkona hefði fætt barn í næsta herbergi við mig.
Þessu átti ég nú erfitt með að trúa, hún átti ekkert að fæða barnið fyrr en í apríl. Ég man að ég sagði bræðrum mínum að láta mig í friði, snéri mér á hina hliðina og reyndi að sofa áfram.
En þeir gáfu sig ekki og sögðu að ég gæti farið inn á bað og séð verksumerkin. Þar var baðkarið fullt af blóðugum handklæðum svo ég varð að trú því að eitthvað hafði gengið á um nóttina.
Það var komin í heiminn pínulítil stepuögn löngu á undan áætlun. Hún fékk nafnið hennar mömmu, því mamma tók á móti henni.
Það leit ekki vel út með að þetta litla barn myndi lifa það af að hafa fæðst við svona frumstæðar aðstæður og þegar sjúkrabíllinn kom með nýbakaða móður og pínulítið barn niður á fæðingardeild var ekkert tilbúið til að taka á móti þeim. Það þurftu að græja allt þegar þær voru mættar.
En þessi litla stúlka gerði meira en að tóra, hún óx og dafnaði og í dag er hún hjúkrunarfræðingur á Akureyri, móðir þriggja myndarlegra barna.
Til hamingju með daginn Kristín mín.

|

25 febrúar 2009

Öskudagur í vetarveðri

Börnin hér á Egilsstöðum láta ekki smá byl slá sig út af laginu.
Það eru margir söngfuglar í furðufötum búin að heimsækja mig. Ég keypti nammi fyrir 150 börn en það hafa oftast komið 120 til 140 börn til að syngja fyrir okkur á öskudaginn.
Sem betur fer eru minnstu söngfuglarnir keyrðir milli stofnana, annars myndu þeir týnast í sköflum.
Nei, nú er bara mættur hópur með gítar og ætlar að syngja um Bjarnastaðabeljurnar og Ó mamma gefðu mér rósir í mig. Ég heyri í þeim frammi hjá Elvu.
Gaman hjá mér í dag.

|

24 febrúar 2009

Ég er eins og stjórnmálamaður

Ég veit ekkert í hvorn fótinn ég á að stíga.
Eftir að vera búin að marg afþakka boð um að mæta á þorrablót 4x4 klúbbins í Kverkfjöllum þá fann ég það í hádeginu að mig langar kannski pínulítið að fara.
Veðurspáin er alveg ágæt og það gæti orðið gott veður á fjöllum.
En á hinn bóginn þá langar mig að vera heima að dunda mér og fá vinkonur í sunnudagsbröns.
Kannski ég bara kasti krónu.

|

21 febrúar 2009

Að taka ákvörðun og standa við hana

Á nú að fara að hringla með kosningadaginn?
Hvernig ætla stjórnvöld að hafa okkur út úr kreppunni með þessu vinnulagi?
Ef menn vita ekki í hvorn fótinn á að stíga varðandi eina dagsetningu, hvernig verða þá aðrar ákvarðanir? Eitt í dag og annað á morgun.
Flokkarnir hafa áður undirbúið kosningar og það ætti að vera vinna sem menn þekkja. Hvernig á þjóðin að reikna með markvissum aðgerðum í efnahagsmálum ef ekki er hægt að halda sig við einföldustu ákvarðanir.

|

17 febrúar 2009

Ég er stolt af þér Nína!

Jónína Rós í 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi!
Þetta líst mér vel á. Jafnvel þótt ég hafi nú aldrei verið Samfylkingarkona þá veit ég að hún Nína hefur krafta, kjark og þor sem þarf til að vinna landi og þjóð til hagsældar á Alþingi.
Samt verð ég að viðurkenna að ég er svolítið eigingjörn og vil helst að hún noti krafta sína áfram í bæjarstjórninni á Fljótsdalshéraði því okkur veitir sannarlega ekki af góðu fólki heima í héraði.
Það er oft kvartað yfir misjöfnu vægi atkvæða landsbyggðarmanna annars vegar og höfuðborgarbúa hins vegar. Það væri fróðlegt að taka það saman hversu margir Alþingismenn eru í raun landsbyggðarþingmenn því það hefur verið lenska að menn af höfuðborgarsvæðinu bjóði sig fram á listum úti á landi, e.t.v. af því að þeir búast við minni baráttu um öruggu sætin þar en fyrir sunnan. Fara svona bakdyramegin inn á þing.
Fjölmiðlarnir eru langt því frá að hafa staðið sig fyrir bankahrunið. Þeir eiga líka sinn þátt í því hvernig fór. Þeir mærðu útrásarvíkingana og slógu ryki í augu landsmanna, þeir brugðust þegar þeir áttu að standa vaktina og fylgjast með hvað var að gerast. Í stað þess að benda okkur á að keisarinn væri nakinn dásömuðu þeir klæði hans.
Nú hefur einn úr hópi fjölmiðlamanna, Sigmundur Ernir, ákveðið að gera áhlaup á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og komast þannig inn á þing.
En ég vona að þeir sem koma til með að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar hér fyrir austan láti ekki svona skrautfjaðrir slá ryki í augu sín heldur kjósi til forustu þá sem hafa sýnt það að þeir eiga erindi í pólitík.
Áfram Jónína Rós.

|

15 febrúar 2009

Frábær helgi

Þrátt fyrir kreppu og vindgnauð úti.
Það er eins og það hafi loksins kviknað einhver löngu gleymd framkvæmdagleði í mér.
Ég tók mér frí í vinnunni eftir hádegi á föstudag, gerði helgarhreingerninguna, hélt vel lukkað kvöldverðarboð og svo var ánægjulegt hvað lið Fljótsdalshéraðs stóð sig vel í Útsvari. Stefán Bogi er náttúrulega bara vindhani af guðsnáð, enda Framsóknarmaður með meiru.
Það eru ár og dagar síðan mig hefur langað til að sauma eitthvað en þar sem það kviknaði þessi óviðráðanlega framkvæmdagleði hjá mér þá fór ég til Láru saumakonu fyrir helgi og fékk lánaða bunka af sniðblöðum. Nú á að reyna að sauma sér kreppuflíkur.
Svo bakaði ég brauð og í gær fundum við Maggi okkur loksins tíma til að gera slátur úr sláturefninu sem við fengum sent frá Vopnafirði í haust. Kannski ekki besta slátur sem ég hef smakkað en það hlýtur að bragðast af ást svona Valentínusarslátur.
Núna hlusta ég á vindinn leika í trjánum. Í kvöld á ég von á góðum vinum í mat.
Já, þetta er bara besta helgi sem ég hef átt á þessu ári.

|

14 febrúar 2009

Kattalíf í kreppunni

Afskaplega hlýtur að vera áhyggjulaust líf að vera heimilisköttur.
Í þessu þjóðfélagsumróti sem nú er, þegar mannskepnan veit varla í hvorn fótinn á að stíga, er afslappandi að fylgjast með köttunum á heimilinu.
Ekki hafa þeir miklar áhyggjur. Gera sér enga grein fyrir því hvað kattamaturinn hefur hækkað í verði undanfarnar vikur og enn síður að þeir hafi áhyggjur af húsnæðismálum.
Kisurnar halda áfram að sleikja feldinn sinn og mala, milli þess sem þær kíkja í matardallana eða bregða sér stutta stund út í vetrarkuldann eða hringa sig niður og vilja fá smá klapp og klór hjá manni.
Það er gott fyrir sálina að eiga svona vini sem láta sig engu varða hvort Davíð er eða fer. Hvort það er vinstri stjórn, hægri stjórn eða bara engin stjórn.
Vinkona mín er með hundaræktun. Ég spurði hana hvort það minnkaði ekki að fólk fengi sér dýra hunda í þessu efnahagsástandi. Hún taldi svo ekki vera því eitt af því sem menn líta til núna er að sinna heimilinu og fjölskyldunni betur og e.t.v. að fá sér gæludýr. Menn sjá fram á að hafa meiri tíma til að hugsa um gæludýr þegar utanlandsferðirnar detta upp fyrir.
Gæludýr eru miklir gleðigjafar og það er örugglega betra fyrir fjölskyldulífið að sameinst um góðan vin eins og hund eða kött en óvin eins og Davíð og útrásarvíkingana.

|

12 febrúar 2009

Til hvers að horfa á Aðþrengdar eiginkonur

þegar við getum fylgst með lífinu á Bessastöðum?
Ég hlakka til að fá að fylgjsta með Sámi þroskast og dafna. Sérstaklega hlakka ég til að fá að frétta af því þegar Ólafur Ragnar og Sámur fara saman á hlýðninámskeið.

|

09 febrúar 2009

Arabafrúin á Bessastöðum

Enn koma upp óvænt atriði í hinnum íslenska raunveruleika.
Raunveruleika sem er ótrúverðugri en nokkur revía.
Geir og Ingibjörg faðmast og kyssast fram í skilnaðinn. Jóhanna leitar logandi ljósi að aðferð til að koma Davíð fyrir kattarnef.
Stjórnmálamenn sem reyna að tala um allt nema það sem skiptir máli. Stjórnlagaþing, stjórnarskrárbreytingar og guðmávita hvað sem ekki er alveg það allra nauðsynlegasta hjá þjóð sem er að komin algerlega og gersamlega á hausinn og guðmávita hvort á til hnífs og skeiðar næsta vetur.
Bætist þá ekki við svona líka yndislegar heimilserjur á Bessastöðum. Akkúrat það sem þjóðin þurfti á að halda frá dekurdúllunum á Bessastöðum.
Æi, getið þið ekki gefið íslensku þjóðinni svigrúm? Svigrúm til að halda heimilunum gangandi, til að halda fjöskyldunum saman, til að fá að lifa áfram í þessu landi.
Mér þykir það skjóta skökku við að hin gyðingættaða forsetafrú vor líki stöðu sinni á Bessastöðum við stöðu arabafrúar.
Er hún að vísa til stöðu Palestínuarabakvenna?

|

08 febrúar 2009

Þorrablót

Gærdagurinn var afskaplega skemmtilegur.
Nína vinkona kom til mín í glamúrbröns þar sem við gæddum okkur á steiktum grísakviðvöðvum, spældum eggjum, ávöxtum og öllu sem tilheyrir góðum bröns.
Svo yfirfórum við skart og skrautklæði því þorrablót Vallamanna var haldið á Iðavöllum í gærkvöldi og við glys- og gleðikonurnar þurftum að undirbúa okkur vel.
Veðrið var svo fallegt í gær þannig að eftir brönsinn renndi ég á Seyðisfjörð að heimsækja mömmu. Í Fjarðarheiði var fjöldi manns að leika sér á snjósleðum og gönguskíðum. Ekki skýhnoðri á lofti. Í Stafdal iðaði allt af lífi og menn brunuðu í skíðabrekkunum.
Hjá mömmu hélt ég áfram að undirbúa mig fyrir kvöldið. Ég setti á mig gerfineglur og mömmu þótti ég rosa flott með langar og glansandi neglur.
Svo kom loks að því að halda inn á Velli og við Maggi, Nína og Edda Egils, öll í okkar fínasta pússi, mættum á svæðið stuttu áður en húsið átti að opna, en samt var allt orðið fullt og vandræði að fá gott sæti. En það leystist farsællega.
Maturinn var allur alveg 1. flokks og skemmtiatriðin góð. Ekki spillti fyrir að við Nína vorum teknar fyrir í lokaatriðinu því það er nú þannig í sveitinni að það er enginn maður með mönnum nema að það sé gert smá grín að honum á þorrablótinu.
Kannski spurning af hverju karlmenn voru látnir leika okkur.

|

02 febrúar 2009

Nú er frost á Fróni

frýs í æðum blóð.
Birrrrrr kalt, - 11 °C. Það verður sko heitur matur í hádeginu - hafragrautur.
Nú væri gott ef bæjarstarfsmenn hefðu látið það vera að fjarlægja eldiviðinn sem við Maggi vorum búin að draga að Skógarkoti sl. sumar. Ótrúleg framkvæmd hjá þeim annars góðu mönnum.
En hvað sem öllum kulda líður þá er landið okkar örugglega mjög fallegt úr lofti séð í dag, sbr. veðurkortið á mbl.is

|

01 febrúar 2009

Heilög Jóhanna

Ekki veitir okkur af henni núna.
Ég er nú svo sem ekkert yfir mig hrifin af nýju ríkisstjórninni, satt að segja hefur hún á að skipa fólki sem ég hef ekki neina trú á, en ég hef mikla trú á Jóhönnu Sigurðardóttur. Hennar tími er kominn.
Það er vonandi að Jóhönnu dugi 80 dagar til góðra verka eins og Fileas Fogg þegar hann fór umhverfis jörðina á 80 dögum.

|