30 nóvember 2005

30. nóvember

Afmælisdagur Finns.

|

29 nóvember 2005

Framkvæmdaleysi

Er haldin illkynja frestunaráráttu.
Samt er mesta furða hverju ég hef komið í verk í dag svona ef ég rifja það upp í huganum. Hef mig ekki í að byrja á neinu merkilegu. Ja, nema ég er búin að sníða mér nýjar jólagardínur í eldhúsið - þessar gömlu eru svo sem ágætar en allt í lagi að breyta til á 20 ára fresti.
Nágrannar mínir eru farnir að minna mig á að það sé kominn tími til að koma upp jólaljósunum. Ég er nú svo heppinn að það flutti maður í götuna í haust og hann hefur ekki enn fattað í hvers konar götu hann býr svo það er eitt annað hús í götunni, fyrir utan mitt, þar sem ekki er komið upp svo mikið sem eitt jólaljós. Ég er samt búin að hugsa út hvaða jólaseríu ég hengi á hvern stað, hvaða sería fer í þakskeggið, hvaða sería fer í tréið o.s.frv. Nenni bara ekki að príla upp á þak í þessari vetrarhörku, ég gæti frosið föst við strompinn.
Á morgun, 30. nóvember, finnst mér vel við hæfi að kveikja fyrstu jólaljósin, þessi sem ég get verið innandyra við að festa upp - inniseríur, stjörnur og aðventuljós.
Góður dagur til að hleypa ljósi inn í lífið.

|

27 nóvember 2005

Menningarhelgi

Frábær helgi.
Ja, kannski fyrir utan það að ég var ekki eins dugleg og ég hafði ætlað mér, en það er nú ekki í fyrsta skipti sem ég held full af dugnaðarfyrirheitum inn í helgina en læt svo eftir mér að vera löt. Reyndar vann ég smávegis í verkefni sem ég tók að mér til að hafa aðeins upp í sukkið okkar Vísu vinkonu um síðustu helgi.
Fór til mömmu í gær og við tvær áttum ljúfa stund saman. Allt annað líf eftir að ég fékk Subarúinn, nú get ég skotist á Seyðisfjörð og heimsótt mömmu þegar mér hentar en þarf ekki að grenja utan í systkinum mínum um það hvenær þau komi til byggða og hvenær ég geti fengið far með þeim niður eftir.
Í dag brunaði ég inn í Skriðuklaustur og hlustaði á 5 rithöfunda lesa úr verkum sínum. Það var nú aðallega Gunnar Hersveinn sem dró mig á svæðið. Ég er búin að bíða eftir bókinni hans síðan í sumar og ég keypti mér hana í Reykjavík um daginn. Mæli með Gæfusporum á hvert heimili, þetta er alveg frábær bók. Gunnar Hersveinn var samferða mér út í Egilsstaði og ég skutlaði honum á flugvöllinn. Fékk þarna gott tækifæri til að spjalla lítillega við hann um bókina.
Hinir höfundarnir voru mjög athyglisverðir, sérstaklega kom Jón Kalman mér á óvart. Bækur Yrsu og Gerðar Kristnýjar eru báðar áhugaverðar. Svo var Guðlaugur Arason stórskemmtilegur með Kaupmannahafnarbókina. Hann sagðist hafa fengið nokkrar kvartanir yfir þyngdinni á henni, þ.e.a.s. pappírinn er svo þungur. Enda nennti ég ekki að taka bókina með til Köben um daginn þó ég hafi verið búin að eignast hana áður en ég fór.
Það var stutt stopp heima því við Guðlaug mágkona fórum saman út í kirkju að hlusta á Messías eftir Handel. Það var náttúrulega bara himneskt. Erla Dóra Vogler og Steinrún Ótta Stefánsdóttir sungu einsöng, ásamt fleirum, en þær eru alveg guðdómlegar að hlusta á. Merkilegt hvað margir góðir söngvarar hafa vaxið úr grasi hér á Héraði undanfarin ár. Erla Dóra hefur svo fágaða og glæsilega framkomu og fallega rödd - ég ætla sko ekki að missa af því ef hún heldur tónleika hér.
Ég hef ekki frétt af neinum sem bakaði Góðu nágrannakökuna meðan ég brá mér að heiman um daginn. Bakaði virkilega enginn köku?

|

22 nóvember 2005

Dekurdúlluferð

Þá er ég komin heim aftur.
Þetta var í alla staði yndisleg ferð. Dekrið byrjaði strax og ég kom til Reykjavíkur á afmælinu mínu. Fór að heimsækja Ingu vinkonu mína á leirverkstæðið og var auðvitað leyst út með gjöfum. Ég má aldrei segja við Ingu að eitthvað sé sérstaklega fallegt hjá henni, þá vill hún bara gefa mér það. Þess vegna verð ég helst að hafa sem fæst orð um alla hennar fallegu hluti.
Þá lá leið mín á snyrtistofuna til Kristrúnar og eftir að hún hafði plokkað á mér augabrúnirnar færðist svo mikil værð yfir mig að ég steinsofnaði og svaf í næstum tvo tíma. Kristrún varð að segja mér áður en ég fór hvað hún hafði gert við mig því það fór allt fram hjá mér. Þetta var alls konar andlitshúðdekur og ég fór frá henni með nýtt andlit.
Daginn eftir flugum við frumburðurinn og ég til Kaupmannahafnar og hittum lambið mitt. Ég átti fjóra dásamlega daga með dætrum mínum. Við fórum í búðir, í Tívolí, Nýhöfnina, í bíó og út að borða. Lambið mitt sýndi mér skólann sinn sem er langt út í sveit og það var gaman að koma þangað.
En kuldinn í Kaupmannahöfn - ég var rétt orðin úti í Tívolí. Það er lang hentugast að gera öll innkaup á Fiskitorginu því þar er hellingur af búðum og maður er bara inni. En auðvitað tilheyrir að kíkja í búðir á Strikinu.
Indíánarnir mínir hafa ekki allir farið til síns heima í haust. Það voru nokkrir eftir og voru þeir að spila á Ráðhústorginu. Þeir hefðu samt betur farið heim með hinum því þeir voru ekkert sérstaklega skemmtilegir. Alla vega finnst mér meira gaman að heyra tónlist frá Andersfjöllum en Abba í Andersfjöllum. Þetta var frekar þunnur þrettándi.
Við mæðgur fundum alveg frábæran ítalskan veitingastað í gamla háskólahverfinu. Staðurinn var huggulegur og kósí, maturinn góður og rúsínan í pylsuendanum, þjónarnir voru hver öðrum fallegri - nema kannski einn sem var svolítið nördalegur, en það gerði ekkert til hann var ekki að uppvarta við okkar borð. Gegn vægu gjaldi get ég upplýst konur á leið til Köben um nánari staðsetningu á þessum gullfallegu ítölsku þjónum.
Lappirnar mínar verða í marga daga að jafna sig eftir allt þetta plamp á steinstrætum. Þær eru svo bólgnar, þær minna mest á súlurnar á Akrapolis.
Lenti í þeirri óvenjulegu uppákomu í Reykjavík í dag að þurfa að segja leigubílstjóra til vegar. Hann rataði ekki frá BSÍ og út á Fálkagötu og vildi helst fara einhverja bölvaða vitleysu. En það tókst að hafa stjórn á honum og ég náði fluginu heim á Hérað í kvöld.
Kolgríma var auðvitað kát að sjá mig en kæti hennar var mest yfir að fá loksins að fara út að leika sér eftir að hafa verið lokuð inni í 5 daga.

|

16 nóvember 2005

Bloggfrí

Tek mér nokkra daga frí frá blogginu.
Við mæðgur erum að fara að leggja af stað til Kaupmannahafnar svo það verður nú ekki verið að blogga næstu dagana.
Allir svokallaðir vinir mínir hér á Héraði eru að fara eitthvað að heiman um helgina - hvort sem það er sannleikanum samkvæmt eða átylla til að losna við að passa kisu fyrir mig. Endaði með að fá öryggiseftirlitsmann ofan af Kárahnjúkum til að koma til byggða og passa kisu fyrir mig.
Meðan ég verð í Köben að gæða mér á kakói og rjómavöfflum, spóka mig á Strikinu með dætrum mínum, skoða jóladýrðina í Tívolí og fer hamförum í magasínunum, þá getið þið bakað súkkulaðiköku.
Hér er sem sagt uppskriftin að Góðu nágrannakökunni sem ég minntist á í upphafi bloggferils míns. Þessa köku bakaði hann Bjarni granni minn handa okkur mæðgum þegar við komum heim um verslunarmannahelgina 2004 og skildi eftir í kassa við útidyrnar. Þegar ég opnaði kassann gaus upp þessi líka eðalfína súkkulaðilykt.
En hér er uppskriftin, eins og ég fékk hana hjá Bjarna. Verði ykkur að góðu.

Botn
2 dl sykur
200 gr smjör
200 gr súkkulaði
1 dl hveiti
4 stk egg

Þeyta saman egg og sykur, bræða saman smjör og súkkulaði
Blanda hveiti við egg og sykur, bæta súkkulaði og smjöri þetta verður samt allt að gerast á rólegu nótunum.
Baka við 170° í 30-35 mín

Súkkulaði
150 gr súkkulaði
70 gr smjör
2 msk síróp

Bræða saman súkkulaði og smjör við lágan hita og hugsa eitthvað fallegt á meðan þessi kaka á að vera með sál.
Bæta svo sírópi við.

Það kemur reyndar ekki fram hér í uppskriftinni en það á að hella súkkulaðinu yfir kökuna!!!!!

|

12 nóvember 2005

Herbalife

Ég er alltaf að taka mikilvægar ákvaðanir.
Nú er ég búin að ákveða að skella mér á Herbalife-kúr þegar ég kem frá Köben. Maður getur nú ekki flætt út um allt og tekið allt plássið í stofunni þegar dætur og tengdasynir koma um jólin. Svo náttúrulega er Súbarúinn ekkert rosalega flottur á götunni með slagsíðu.
Bara kýla á það og skafa af sér smá mör. Hélt upp á þessa ákvörðun með því að fara í kaffi til Guðlaugar mágkonu og raða í mig bakkelsinu hennar. Hún bauð upp á heimabakaða súkkulaðirúllutertu og þessar líka gómsætu rjómavöfflur með hrútaberjahlaupi. Maður slær náttúrulega ekki hendi á móti svona kræsingum. Svo græddi ég eina krukku af hrútaberjahlaupi til að hafa með hreindýrahryggnum um hátíðarnar. Ég er alltaf svo heppin.
Ég er búin að var í taugaáfalli í gær og í dag. Vegabréfið mitt var svoleiðis gersamlega týnt. Ég fann útrunnin vegabréf og annarra manna vegabréf en gildandi vegabréfið mitt var algerlega horfið. Fann það loksins núna áðan í dóti sem ég hafði gengið svona pent frá í sumartiltektinni.
Þarna græddi ég rúmar 10.000 kr. (sem kostar að fá vegabréf með svona stuttum fyrirvara) svo þá er bara að finna út hvað ég get notað þær í Köben, auðvitað kaupi ég mér eitthvað fallegt fyrir þennan óvænta gróða.

|

10 nóvember 2005

Subaru

Jæja, þá er maður kominn á almennilegan vetrarbíl.
Fór og keypti mér þennan líka fína rauða Subaru legasy station. Við Kolgríma ættum því að hafa rúmt um okkur á ferðum okkar um landið næsta sumar. Ég ætti líka að komast allra minna ferða um nærsveitir í vetrarfærðinni.
Ég er afar ánægð með nýja farkostinn, næstum að ég kalli í fólk við kaupfélagið og segi þeim að koma og dáðst að honum með mér.
Verið er að gera Benza kláran fyrir vetrardvalann og hann er búin að fá gott heimili út í sveit. Í vor flytur hann svo til Reykjavíkur eins og allir sem ekki þrífast á landsbyggðinni.
Brá mér á Höfn, alltaf gaman að koma þangað. Fór Öxi suður og það var fínt en við þorðum ekki öðru en að fara firðina heim, það var svo mikil hálka og ausandi rigning, örugglega snjókoma á Öxi. Tek ekki áhættuna á annari næturdvöl þar eftir að hafa setið föst í skafli í 13 eða 14 klukkutíma og enginn saknaði okkar ferðalanganna. Ekki einu sinni Hornfirðingarnir sem áttu von á okkur.
Það eru miklar annir hér á þessum bæ. Fullt af gestum um helgina og svo þarf ég að fara að huga að því að pakka niður fyrir Kaupmannahafnarferðina í næstu viku. Mér gengur hálf illa að fá pössun fyrir kisu, það kemur mér á óvart, ég hélt að það væri eftirsótt starf.
Frumburðurinn kom í heimsókn og það var afskaplega notalegt.
Lífið er ósköp ljúft og ég hlakka obbolítið til að fara til Köben með frumburðinum og kíkja á lambið mitt.

|

06 nóvember 2005

Heilabrot

Ég er mikið að brjóta heilann.
Mér datt í hug þegar ég heyrði fréttir af málaferlum Bubba út af fyrirsögninni "Bubbi fallinn" hvort ég gæti ekki líka farið í mál við útgáfuna, ef ég hefði keypt blaðið sem skartaði þessari fyrirsögn á forsíðu. Ég gæti örugglega gert kröfu um miska- og þjáningabætur, en til vara að kaupunum yrði rift.
Ég myndi ber því við í málinu að fyrirsögnin hefði vakið hjá mér mikinn þorsta í slúður- og hrakfallasögur af fræga fólkinu, en ég hefði liðið ómældar þjáningar þegar ég uppgötvaði að ég hefði keypt köttinn í sekknum, látið hafa mig að fífli og að slúðurþorsta mínum hefði ekki verið svalað. Látið vekja upp hjá mér miður góðar illmælgisfýsnir sem síðan hefði ekki verið fullnægt.
Blaðamenn eru alltaf að segja að við almenningur eigum rétt á að vita hvað fram fer nánast á baðherbergjum fræga fólksins og það er þá lágmarks krafa að þeir flytji okkur réttar fréttir en séu ekki að gefa eitthvað í skyn á forsíðu sem síðan er ekki inn í blaðinu sem maður hefur hætt mannorði sínu við að kaupa.
En því miður keypti ég ekki þetta blað svo ég get ekki látið reyna á þetta fyrir dómi.
En annars eru góðir dagar framundan hjá mér. Frumburðurinn flýgur sem engill austur á Fljótsdalshérað í dag og dvelur nokkra daga hjá aldraðri móður sinni. Það er önnur Hafnarferð framunda hjá mér og svo bara eitthvað meira af spennandi hlutum sem gera lífið ljúft og skemmtilegt.
Lambið mitt kom heilt á húfi frá Instanbul til Kaupmannahafnar með Turkish airlines í fyrradag og ég get ekki neitað því að mér finnst öruggara að vita af þessari elsku í Danmörku en í Tyrklandi.
Barnabarnið hennar Nínu vinkonu minnar verður skírt í dag og ég fæ að vera kaffikonan í veislunni.

|

04 nóvember 2005

Óvissuferð

Komin heim úr mikilli ævintýraferð.
Fór suður á Hornafjörð í rauðabítið í gær og var komin í Freysnes fyrir hádegi. Þar beið ljúffeng máltíð og síðan var haldið niður á Skeiðarársand undir leiðsögn þjóðgarðsvarðar. Þetta var hin mesta skemmtun.
Var á Höfn í dag og hitti fullt af skemmtilegu og áhugaverðu fólki. M.a. mann sem hefur það sjaldgæfa starfsheiti gullleitarmaður. Mér finnst felast svo ótrúleg bjartsýni í að vera gullleitarmaður á Íslandi að maðurinn ætti að fá bjartsýnisverðlaunin. Það hljóta að vera frekar stopular launagreiðslur í þessum geira.
Heyrði margar góðar sögur sem því miður er ekki hægt að hafa eftir á veraldarvefnum, enda verður Lata Grétar að gæta fyllstu siðsemi.
Að loknum vinnudegi fórum við nokkrar saman að stelpast í búðunum. Litum aðeins í mollið og fórum í uppáhalds búðina mína utan Héraðs, en það er Lónið á Höfn. Mæli eindregið með að menn kíki þangað ef þeir eiga leið um Höfn. Í Lóninu dressuðum við okkur allar upp og ég keypti mér m.a. nýtt pils. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögu færandi nema af því að ég hef ekki keypt pils í mörg ár og svo keypti ég númer sem ég hef ekki keypt í 6 ár. Ég var því að vonum kát á leiðinni heim.
Að vísu skyggði það töluvert á heimferðina að ég varð lítilli mús að bana. Litla greyinu entist ekki aldur til að læra umferðarreglurnar.
Fór Fáskrúðsfjarðargöngnin í fyrsta skipti. Þetta er virkilega flott mannvirki. Manni opnast reynar ekki eins stórfenglegt útsýni eins og þegar ekið er suður úr Almannaskarðsgöngunum, enda ekki hægt að toppa þá himnaríkisfegurð. Þetta er svo sem að hluta til ágisku því það var ekki orðið mjög bjart þegar ég kom suður úr Fáskrúðsfjarðargöngunum.
Kolgríma var bara kát yfir heimkomu minni. Hún var svo góð við mig að setja uppáhalds músina sína í töskuna mína þegar ég var að pakka niður í fyrrakvöld . Ég veit ekki alveg hvort hún hefur staðið í þeirri meiningu að hún væri líka að fara í ferðalag eða hvort hún vildi bara að mér leiddist ekki meðan ég væri að heiman. Það verður spennandi að vita hverju hún pakkar niður þegar ég fer innan tíðar til Kaupmannahafnar. Það er nú bara alveg að koma að því.

|