30 janúar 2006

Þrefallt húrra

Húrra fyrir Nínu, húrra fyrir Þórveigu og húrra fyrir mér.
Ég sem sagt mætti loksins í ræktina í morgun, eftir eins og hálfsmánaðar hlé. Ég er búin að hafa ótal afsakanir. Það voru að koma jól, jólin voru komin, það komu áramót, það kom nýtt ár, Nína var í þorrablótsnefnd svo ég gat ekki mætt, það var þorrablót o.s.frv.
Þórveigu þótti afsökunin "Nína er í þorrablótsnefnd" ekki löggilt afsökun til að skrópa í spinning, sérstaklega ekki eftir að Nína var sjálf mætt en ekki ég.
Hitti Þórveigu í Bónus á laugardaginn og fékk heiftarlegt samviskubit. Nína tók af skarið og lét skrá mig í spinning í morgun. Þetta eru nefnilega svo gríðarlega vinsælir tímar að maður verður að skrá sig, annars fær maður ekki hjól.
Ég var búin að heyra margar sögur af nýjum konum sem væru búnar að stela hjólunum okkar Nínu og plássinu okkar á gólfinu en svo voru þessar nýju konur bara félagar í Gleðikvennafélagi Vallahrepps og einhverra hluta vegna fengum við Nína plássin okkar sem við höfum haft í rúmt ár. Þorir sennilega enginn að vera þarna þegar við mætum á svæðið.
Nema hvað í tilefni af endurkomu minni var sérstaklega leikið lagið I'm a barbie girl, sem er helgað okkur Nínu í spinningtímunum af því að við erum af barbie-árgerðinni.
Merkilegt hvað hundleiðinleg lög eru æðisleg þegar maður situr á spinninghjóli kl. 6.30 á morgnanna, eins og Ruslana t.d. alveg magnað spinninglag.
En svona í tilefni af því að við barbie-stúlkurnar erum báðar mættar í spinning þá læt ég fylgja hér þennan heimspekilega texta (bara byrjunina) á hinu gríðarlega tónverki I'm a barbie girl. Gjörið þið svo vel:

"Barbie Girl"
Hi Barbie! Hi Ken! Do you wanna go for a ride? Sure Ken! Jump In...
I'm a barbie girl,
in the barbie world. Life in plastic, it's fantastic!
you can brush my hair, undress me everywhere
Imagination, life is your creation.
Come on Barbie,
let's go party!

|

27 janúar 2006

Ráðskona óskast í sveit

Eitthvað hafa örlagadísirnar verið sunnan við sig þegar þær voru að úthluta mér vöggugjöfum.
Til hvers að úthluta manni ánægju af að elda mat og láta mann svo sitja uppi með það að búa ein með matvöndum ketti. Annars hefur kisa stórlega lagast eftir að hún fór aftur að fara út að leika og borðar nú bara það sem henni er boðið - hún var orðin alveg ferlega kröfuhörð með matgæði í inniverunni.
En sem sagt, mér þykir gaman að elda, en kisa lifir á tilbúnum kattamat sem ekkert þarf að gera við nema taka úr umbúðunum. Þess vegna er það alger himnasending að fá lambið heim og nú kraumar í pottum í eldhúsinu.
Ég ætti e.t.v. að hafa það eins og hún amma mín sem ég fékk nafnið frá og taka að mér kostgangara. Kannski ekki alveg í takt við tímann.
Látið mig endilega vita ef þið rekist á svofellda auglýsingu: Ráðskona óskast í sveit, ekki langt frá Bónus og Kaupfélaginu, má hafa með sér kött.

|

26 janúar 2006

Kátur köttur og krakkinn heim

Þá er Kolgríma laus við saumana af mallanum.

Hún var hjá dýralækninum sem skoðaði hana vandlega, vigtaði hana og svo þurfti að ormahreinsa hana. Heilsufarsbókin hennar var fyllt út svo nú er kisa alveg með allt sitt á þurru.

Kisa vegur 2,7 kg og gæti átt eftir að þreknast svolítið, en hún er nánast fullvaxin. Læknirinn skoðaði á henni skottið sem hefur orðið fyrir einhverju slysi en er ekki brotið. Annað hvort hefur eitthvert óargadýr bitið hana í skottið eða hún hefur klemmst. Þetta gerðist um það leyti sem hún fór í aðgerðina.

Þið sem gerið grín að lífinu hjá okkur kisu hefðuð átt að heyra dýralækninn tala við hana Kolgrímu Högnadóttur. Þessi stóri og stæðilegi karlmaður talaði svo blíðlega og krúsindúllulega við kisu að jafnvel ég tala aldrei svona við hana, eða ég held ekki alla vega. Þið ættuð bara að hætta að skopast að mér.

En Kolgríma var alla vega fegin að komast heim eftir þessa læknisheimsókn og enn glaðari varð hún þegar ég hleypti henn út að leika. Hún hefur ekki fengið að fara út í hálfan mánuð og hefur síðustu dagana skælt við garðdyrnar, en ég hef ekki þorað að láta hana út í kuldann með svona bera bumbuna. Hún þurfti aldeilis að nusa af öllu, komst varla úr sporunum því hún þurfti að þefa af pallinum, af snjónum, af jörðinni þar sem enginn snjór er og af steinunum. Svo hvarf hún fyrir húshornið og er núna einhvers staðar úti í myrkinu að leika sér. Kannski að segja vinkonum sínum frá aðgerðinni og sýna þeim örið, svona eins og við mannfólkið gerum.

Var rétt í þessu að fá alveg glimmrandi góðar fréttir. Lambið mitt er að koma heim með næstu vél og ætlar að dvelja hjá aldraðri móður sinni um óákveðinn tíma.

|

23 janúar 2006

Ömurlegasti dagur ársins

Það er sem sagt búið að reikna það vísindalega út að mánudagurinn 23. janúar sé ömurlegasti dagur ársins. Þetta var hins vegar góður dagur hjá mér. Menn eiga víst að vera voðalega mikið niðurdregnir yfir að þurfa að mæta í vinnuna eftir jólin. Ég er bara mjög ánægð með að vera loksins komin þokkalega á skrið í vinnunni eftir jólin.

Svo þetta með jólakortareikninginn. Ég er nú búin að vera að vinna aukavinnu og taka að mér verkefni sem gefa eitthvað í aðra hönd svona til að eiga fyrir visareikningnum um mánaðmótin. En svo í dag á þessum svokallaða ömurlegasta degi ársins þá bara byrjar að snjóa peningum inn á tékkareikninginn minn. M.a. hefur maðurinn sem dregur í HHÍ ákveðið að leggja lítið lóð á vogarskálina varðandi visareikninginn minn. Þetta er svo sem varla upp í nös á ketti og gerir ekki útslagið en ég þakka viðleitnina. Vona bara að hann dragi handa mér obbolítið hærri vinning næst ef hann er hvort sem er að draga mitt númer.

Þetta var bara fínn dagur og ef þetta er ömurlegasti dagur ársins þá á ég rosalega gott ár í vændum.

|

21 janúar 2006

Þorrablót

Þá er árshátíð bæjarins yfirstaðin.
Þetta var afbragðs blót. Maturinn góður, skemmtiatriðin fín, hljómsveitin góð og öll umgjörðin flott. Allir kátir og glaðir, ja, eða alla vega næstum allir.
Þemað var Danmerkurferðir Héraðsmanna sl. ár og voru borðin látin heita götunöfnum í Kaupmannahöfn. Ég sat við Vesterbrogade 29 sem reyndist vera alveg upp við sviðið svo ég sat eiginlega bara í stúku.
Ævar í Bílamálun krúnurakaði bæjarstjórann svo nú er hausinn á bæjarstjóranum á að líta eins og kviðurinn á henni kisu minni. Ævar þyrfti eiginlega að semja við Völu systur sína að snyrta þetta ögn betur, svolítið ójafn rakstur.
Stjarna kvöldsins var Steini Óla í hlutverki hins íslenska piparsveins - hann fór alveg á kostum.
Ég var eins og ég hafði ætlað mér, gangandi glimmerdós. Meira að segja var ég ávörpuð "glitrandi mær". Aftur á móti gekk ekki eins vel með barbie-skóna. Ég var náttúrulega rosa flott á þessum skóm, en þegar ég var búin að fara nokkrum sinnum út og gá til veðurs þá voru böndin sem lágu yfir ristina, aðallega þessi sem eru næst tánum, farin að meiða mig. Ég var farin að hafa það að tilfinningunni að önnur stóratáin væri að skerast af mér. Svo að þegar borðhaldi lauk þá varð ég að draga fram varaskóna. Annars var mesta furða hvað ég entist á barbie-skónum því það er töluverð vegalengd frá sviðinu, meðfram öllum borðunum, eftir rauða dreglinum sem var fyrir framan borðsalinn og út um aðaldyrnar. Svo til baka aftur með viðkomu í kjallaranum til að þvo mér um hendurnar.
Ég var sett í næstu þorrablótsnefnd ásamt næstum 40 öðrum. Nú sem sagt verður maður að fylgjast vel með því hvað gerist hér í bæ næsta árið.
Ætlaði ekki að nenna á lappir í morgun. Kolgríma kom og hringaði sig á maganum á mér og lá þar lengi og malaði. Örugglega svipað fyrir kisu að liggja þarna eins og fyrir mig að kúra í vatnsrúmi. Ég svaf einu sinni í vatnsrúmi og ég var með sjóriðu þegar ég fór á fætur.
En kisa gerðist svöng og rak mig á lappir til að sjóða handa sér fisk. Hún er svoddan matgæðingur og krefst þess að fá fjölbreytt fæði. Ég keypti um daginn handa henni eitthvað voðalega fínt kattafóður út í Blómabæ og henni þótti það gott en hún er strax búin að fá leið á því.
Svo náttúrulega fréttir dagsins. Litli danski prinsinn er búinn að fá nafn eða öllu heldur nöfn. Þetta litla kríli þarf að bera 4 nöfn, Kristjan Valdimar Henri John.

|

18 janúar 2006

Lystitúr

Hann Þórhallur vinur minn Þorsteinsson er mikill bjartsýnismaður.
Nú hefur hann enn eina ferðina boðið mér í lystitúr. Hér á árum áður lét ég glepjast af hans gylliboðum og fór með honum nokkra lystitúra til fjalla. Nauðsynlegasti búnaðurinn í slíkar ferðir voru gúmmíhanskar og skúringagræjur og svo voru skálar Ferðafélagsins hreingerðir hátt og lágt. Ekki þar fyrir þetta voru skemmtilegustu ferðir og hann átti það til að bæta fyrir með því að skreppa upp á Vatnajökul eða í íshellinn í Eyjabakkajökli, meira að segja fórum við mæðgur einu sinni með honum í Hveragil. Þá var ég reyndar rétt dauð af áhyggjum yfir að við kæmumst aldrei aftur til byggða því skyggnið var lélegt og Þórhallur eitthvað fátækur af gps-punktum. En þetta var samt fínasta ferð og þegar við vorum að klöngrast niður í gilið fór sólin að skína.
Nú hef ég grun um að í þessum lystitúr verði skóflur helsti búnaður því samkvæmt fréttum eru jeppar á víð og dreif eins og hráviður fastir í snjó inn um öll Snæfellsörævi.
Í þeirri frómu bók Orðabók skógarmanna er orðið lystitúr útskýrt svo: Ökuferðir sem ekki eru farnar í neinum göfugri tilgangi en að skemmta sér eru kallaðar lystitúrar. Þetta mun komið frá Páli á Hallormsstað. Hann kom tvisvar til Eiríks frá Dagverðargerði (sem þá vann á Hallormsstað) og bauð honum í lystitúra. Eiríkur tók þessum kostaboðum fegins hendi í bæði skiptin og bjó sig upp á í sparifötin. Í fyrra skiptið fóru þeir út í Egilsstaði og virtist Páll ekki eiga þangað nokkurt erindi en á leiðinni heim þá kom hann við á Eyjólfsstöðum og lét Eirík bera með sér túnþokur lengi kvölds þannig að sparifötin urðu lítið til spari eftir það. Í hitt skiptið þvældi Páll honum um allan skóg til að leita að kúm í ausandi rigningu. Engum sögum fer af sparifötunum hans Eiríks eftir það en hitt er víst að hann neitaði þaðan í frá öllum tilboðum frá Páli um lystitúra.
Lystitúr, ekki nema það þó, ég held ég haldi mig í byggð, enda búin að skipuleggja alla helgina í gleðskap og mannamót - frá föstudagskvöldi fram á sunnudagskvöld.
Nína vinkona mín kemur á eftir og við ætlum að fara að máta glys og glingur. Ég hef ákveðið að verða eins og gangandi glimmerdós í barbieskóm á föstudagskvöld en ekki vera innpökkuð í föðurland í fjallaskóm.

|

16 janúar 2006

Guðrún frá Lundi

Byrjað aftur að lesa á spítalanum í dag.
Það var virkilega notalegt að koma aftur og hitta vini mína á spítalanum. Ég fékk hlýjar og góðar móttökur bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Það hefur fjölgað í áheyrendahópnum og virtust allir vera sáttir við ég myndi lesa Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Það hafa samt aldrei eins margir forðað sér úr salnum meðan ég hef verið að lesa. Ég þurfti meira að segja að sækja hjálp fyrir einn sjúklinginn sem ekki gat forðað sér aðstoðarlaust. Svo voru náttúrulega nokkrir sem komust hvorki lönd né strönd og létu sig hafa það að hlusta á lesturinn til enda en sem betur fer voru flestir ánægðir. Obbolítið væmin saga, en allt í lagi. Bókin virðist öll vera einn kafli svo ég verð bara að hætta einhvers staðar í miðjum söguþræði.
En svo gerðust undur og stórmerki. Ég ákvað að kíkja í apótekið fyrst ég var nú hvort sem er þarna í nágrenninu - alltaf gaman að skoða snyrtidót og hrukkukrem. Reyndar þori ég ekki að kaupa mér hrukkukrem eftir að hrukkóttasta kona Íslandssögunnar reyndi að selja mér svoleiðis og sagði að árangurinn væri óviðjafnanlegur.
Ingibjörg apótekari fór að sýna mér alls konar fínerí sem ég gæti smurt á andlitið á mér fyrir þorrablótið svo það sæist nú sem allra, allra minnst af mér á þeirri samkomu. Nema hvað, hún seldi mér þennan líka fína varalit. Ég á svo sem nóg af varalitum, örugglega 10 stykki, en ég spæni líka heil ósköp upp af þeim á ári hverju - þó held ég að enginn minnist þess að hafa séð mig með varalit. Ástæðan er sú að ég set litinn á varirna og sleiki hann svo jafnóðum af, hann tollir aldrei nema í 2 mínútur. En þessi sem Ingibjörg seldi mér í dag er búinn að tolla á vörunum á mér í eina og hálfa klukkustund. Samt hef ég á þessum tíma fengið mér kók, farið og gert veðurathuganir (þ.e.a.s. farið út að reykja) og það sem er ótrúlegast, ég fór í bað. Kannski ekkert rosalega ótrúlegt að ég skyldi fara í bað en það sem er ótrúlegt er að það sér enn móta fyrir varalitnum. Eins gott að vanda sig og lita ekki útfyrir, það næst aldrei af. Þetta hlýtur að vera gömul málning úr Slippstöðinni - eitthvað sem ég verð að lokum að hreinsa af með terpentínu.

|

15 janúar 2006

Lífið er leikur

- alla vega hjá okkur Kolgrímu.
Mér varð það á að missa vínber í gólfið og það var ekki að sjá að það væri sundurskorinn köttur sem greip það og brá sér á leik. Hún var eins og færasti fótboltakappi og ef ég hefði eitthvað vit á fótbolta gæti ég lýst fimlegum tilburðum hennar með fagorðum, en ég hef aldrei skilið það sem fram fer á fótboltavelli - síst af öllu þegar karlarnir fara að faðmast og kyssast í einni hrúgu - svo ég verð að sleppa nákvæmum lýsingum.
Ég þurfti að skreppa upp í vinnu - já, ég er að vinna þótt að sé sunnudagur. Nema hvað, í götunni minni er allt á kafi í snjó, alveg upp á miðjar hliðar á Súbbanum. Nú eins og segir í æviminningum Stefáns í Flögu þá er Súbarú góður bíll, svo ég lét bara vaða og sýndi ótrúlega hæfileika í snjókrossakstri. Komst alla leið upp í vinnu, rúnt um bæinn og heim aftur. Mig langar eiginlega mest að fara út aftur og finna mér dýpri snjó til að æfa vetrarakstur í.

|

14 janúar 2006

Rafmagnsleysi

Dauði og djöfull.
Hvaða bévítans deli og dóni tók rafmagnið af á Egilsstöðum um hádegi í dag? Ég hef ekki hugsað fallega til hans. Ég sem var búin að vélrita margar blaðsíður og svo bara - púff - allt farið. Ekkert öryggisafrit, klukkutíma vinna ekki til neins. Og ég sem er að reyna að afla tekna til að eiga fyrir jóla-visakortareikningnum.
Annars hef ég svo sem séð það svartara í rafmagnsleysi - þá var ég í krabbameinsskoðun með eldgamlan lækni frá Norðfirði milli fóta mér, en förum ekki nánar út í það. Sú saga er ekki við hæfi barna.
Kisa mín fór að mala í gær. Mikið varð ég glöð að heyra að kvörnin var í lagi. Hún hefur malað heil ósköp fyrir mig bæði í gærkvöldi og svo í dag. Hún Kolgríma mín er alger engill. Svo er hún farin að borða eins og almennilegur köttur. Hún er samt enn hálf þróttlaus.
Fattaði í morgun þegar ég var að skoða á henni mallann að ég veit ekkert hvenær á að taka þennan rúllupylsusaum úr henni. Hún kemur til með að fá ljótt ör, eins gott að það hverfur inn í hárin sem vonandi vaxa aftur á mallakútinn hennar.
Nú fer klukkan að verða fimm og ég ætla að skunda út í skóla og kaupa nokkra miða á þorrablót Egilsstaðamanna. Það jafnast ekkert á við gott þorrablót. Ég á samt ekki von á að Egilsstaðablótið komist í hálfkvist við Vallablótið, það eru sko blót í lagi - alla vega ef vel tekst til. Jæja, þetta er kannski ekki fallega sagt, en það er alla vega annar stíll á sveitblótunum.

|

12 janúar 2006

Skorinn köttur

Ég vona að kisa eigi einhvern tíma eftir að fyrirgefa mér.
Þessi litla vinkona liggur uppdópuð í búrinu sínu og er rétt að rumska eftir rúmlega 6 tíma svæfingu. Ég er búin að fara oft og athuga hvort að hjartað slái, hvort hún andi, hvort allt sé í lagi. Það hefur verið skelfilegt að horfa á þetta grey liggja þarna hreyfingarlaus með galopin augun, alveg eins og hún væri bara dáin. Ég hef ekki komið neinu í verk af því sem ég ætlaði.
Ég á örugglega ekki eftir að sofa mikið í nótt. Ætli ég verði ekki bara að taka frí í vinnunni á morgun. Hvernig er það, á maður ekki rétt á að vera heima hjá veikum kisum eins og veikum krökkum? Best að lesa kjarasamninginn, aðallega smáa letrið. Annars hef ég voðalega lítið kynnt mér kjarasamninginn, samt hef ég unnið á sama stað í bráðum 14 ár.
Einu sinni þegar ég fékk nýjan yfirmann kynnti ég honum að ég hefði samið um það við forvera hans að ég mætti ekki í vinnu á aðfangadag og ekki á gamlársdag og það væri ekki dregið af laununum mínum. Svo kynnti ég honum mjög sérstakt yfirvinnukerfi sem ég hafði samið um. Hann bara sagði já og amen og samstarfsmaður minn spurði mig hvers vegna ég héldi því bara ekki líka fram að ég þyrfti aldrei að vinna á mánudögum og það myndi ekki skerða launin mín. Ég hafði bara ekki hugmyndaflug í það.
En Kolgríma mín er hárlaus á mallanum með langan skurð. Dýralæknirinn var búinn að segja mér að koma kl. 17.00 og sækja hana, en svo hringdi hann á slaginu 16.00 og sagði að kisan væri tilbúin, bara eins og hún væri bíll sem hefði farið í viðgerð. Ég yrði að koma strax og sækja hana því hann væri að fara í áríðandi útkall út í sveit - eins og eitthvað sé meira áríðandi en hún kisa mín.
En hvað um það, ég rauk niður á spítala og sótti kisu en gleymdi að fá svona grunnupplýsingar eins og það hvað hún myndi sofa lengi. Þess vegna hef ég verið hálf óróleg út af öllum þessum þyrnirósarsvefni hennar.

|

11 janúar 2006

Deiglan og kisa

Ég er afar sparsöm á nafnið mitt þegar undirskriftir eru í gangi en í dag gat ég ekki setið hjá.
DV er auðvitað oft búið að fara langt út fyrir öll velsæmismörk í skrifum sínum en það er kominn tími til að þetta sorprit fari að virða þá grunnreglu í siðuðu samfélagi að maður telst saklaus uns sekt hans er sönnuð. Auk þess er það dómstóla að skera úr um sekt eða sakleysi, það er ekki verk sorpritsins, enda hefur sorpritið aldrei reynt að rétta hlut eins eða neins. Þess vegna vil ég minna ykkur á undirskrifasöfnun Deiglunnar á þessari netslóð http://www.deiglan.com/askorun/
En að því sem hæst ber hér á heimilinu. Ég vil biðja ykkur öll um að hugsa fallega til hennar Kolgrímu minnar kl. 15.00 á morgun en þá leggst þessi elska undir hnífinn og það verður fjarlægt úr henni móðurlífið. Ég veit ég á að skammast mín fyrir að fara svona með hana kisu mína og ég geri það líka. Þegar hún vaknar eftir aðgerðina þá ætla ég að leyfa henni að hafa besta hlutann af rúminu, ég ætla að kaupa handa henni bitafisk frá Sporði, túnfisk frá Ora og bara gera allt til að friða samvisku mína og reyna að láta kisu líða ögn skárr.

|

10 janúar 2006

Blogg, blogg, blogg

Í fréttum er þetta helst.
Lífið hjá okkur Kolgrímu gengur ljómandi vel og er svona að komast í eðlilegt horf.
Það upphófst hjá okkur valdabarátta um hvor okkar ætti að hafa besta staðinn í rúminu og þar sem sá vægir sem vitið hefur meira þá flutti Kolgríma sig yfir í gestaherbergið með tvíbreiða rúminu. Þar hefur hún það afskaplega huggulegt ofan á bútasaumsteppi með allar gestasængurnar undir sér. Síðla nætur, eða þegar hún heldur að ég sé örugglega steinsofandi, á hún það til að koma og hlamma sér ofan á mig og sofa þar til morguns, þ.e.a.s. svo framarlega sem ég hreyfi mig ekki mikið.
Ég hef hræðilegt samviskubit gagnvart kisu því á fimmtudaginn fer hún upp á dýraspítala í ófrjósemisaðgerð. En svona er lífið, ég vil ekki fylla húsið af kettlingum og ég get ekki hugsað mér að standa í að vera alltaf að losa mig við svoleiðis kríli.
Ég fór í leikhús að Iðavöllum að sjá Sex í sveit - það var ótrúlega skemmtilegt og leikararnir frábærir - takk fyrir góða skemmtun.
Ég skrapp norður að Mývatni í gær og skellti mér í jarðböðin seint í gærkvöldi. Það var auðvitað ljúft, nema að vatnið var svolítið misheitt - þegar það var heitt og notalegt við yfirborðið þá var frekar svalt á táslunum. Svo kom þjónn með tvo bakka af bjórglösum handa hópnum sem ég var með, en við sem ekki vildum bjór fengum ekki neitt - svona er óréttlæti heimsins.
Þegar ég kom úr Mývatnsleiðangrinum í dag var hellingur af pósti sem beið mín, m.a. pakki sem í voru 4 doðrantar handa mér að lesa í bókmenntasögukúrsinum sem ég er að byrja í. Þetta er spennandi kúrs, en mér féllust eiginlega hendur þegar ég sá allt þetta lesefni. Svo er ég skráð í annan kúrs - goðsögur, hetjur og dulúð - þar verður endalaust lesið úr Eddukvæðum. Ég efast um að ég höndli þetta allt - en það kemur í ljós.
Næsta mánudag byrja ég aftur að lesa á spítalanum. Ég ætla að lesa Guðrúnu frá Lundi. Dúrra á bókasafninu ráðlagði mér eindregið að lesa hana og sagði að bækur Guðrúnar ættu að vera skyldulesning í öllum menntaskólum. Ég hálf sammaðist mín fyrir að hafa aldrei lesið stafkrók eftir Guðrúnu, en nú stendur það til bóta.
Framundan eru tvö þorrablót, fyrst á Egilsstöðum og svo í minni gömlu heimasveit á Völlum þannig að það er svo mikið meira en nóg framundan hjá mér.
Nenni ekki að þreyta ykkur meira á öllu sem ég er að gera eða að fara að gera eða er að hugsa um að gera eða hætti e.t.v. við að gera.
Vona að þetta svali lesþörf þinni Tóta mín.

|

01 janúar 2006

2006

Þá er enn eitt árið runnið upp.
Lata Gréta óskar öllum gleðilegs nýs árs og vonar að þetta verði gott ár hjá öllum.
Það varð enginn stokkur á vegi mínum um áramótin svo það er allt við það sama hjá mér - held áfram að reykja í laumi enn um sinn - en það rennur einhvern tíma upp sá dagur að ég tek upp nikótíntyggjóið sem ég keypti mér.
Vegna mikilla anna hjá mér á næstunni hef ég ákveðið að taka bloggfrí um óákveðinn tíma. Ég þarf að koma lífi mínu í fastar skorður eftir að vera búin að vera kærulaus á ýmsum sviðum og það verður töluverð vinna. Skólinn fer að byrja og það eru heilu verkefnabunkarnir sem bíða mín í vinnunni. Næstu vikur verða því bara vinna, sofa, eta og læra.
Ég vona að þið hafið það öll huggulegt á nýju ári, að þeir sem stigu á stokk standi við heit sín og að hamingjan og ástin verði á vegi sem flestra. Munið bara að taka hamingjunni fagnandi ef hún bankar upp á í lífi ykkar því sorgin kemur óboðin.
Lifið heil.

|