Garpur
Garpur skal barnið heita.
Takk fyrir góðar nafnaábendingar en eftir að vera búin að máta nöfnin á hann kisa litla og fylgjast með tilburðum hans hefur komið í ljós að Garpsnafnið passar akkúrat á hann.
Þegar Garpur kom í heimsókn með eiganda sínum leitaði hann skjóls í skálinni á stofuborðinu og lagði litlu eyrun sína alveg aftur þegar Kolgríma nálgaðist.
Nú hefur hann sótt í sig veðrið og gerir dirfskufull áhlaup á Kolgrímu og virðist stefna á heimilisyfirráð, ja, gott ef ekki bara heimsyfirráð.
Hann hefur ekki litið ofan í stofuskálina, hvað þá farið ofan í hana. Hann urrar við matardallana ef honum finnst Kolgríma sýna yfirgang þar og í morgun réðst hann á matinn og Kolgríma stóð álengdar og virti fyrir sér þennan undarlega gest sem er að reyna að ná yfirráðum á hennar svæði.
Ekki þar fyrir að Kolgríma getur alveg tuskað hann til ef hún vill því hann er bara tveggja og hálfsmánaða en hún að verða eins árs. Samkomulagið á milli þeirra virðist bara vera með ágætum og hún Kolgríma mín virðist bara kunna að hegað sér gagnvart gestum.
Það er gaman að fylgjast með Garpi og Kolgrímu í endalausum eltingaleik og sjá tilburðina hjá þeim þegar annað er að laumast að felustað hins. En þau leggjast á bakið og bera á sér mallann hvort fyrir öðru og það er merki um að þetta er allt í góðu því köttur berar ekki mallann á sér nema er hann telur sig öruggan.
Ég var með fögur fyrirheit um að þessi helgi yrði bara upp á vatn og brauð hjá mér eftir allar matarhelgarnar á undan. En svo bregðast krosstré og ég er á leiðinni á uppskeruhátíð hestamanna með Nínu vinkonu minni. Þar verður þrírétta matseðill, skemmtiatriði, verðlaunaafhendingar (sem taka vonandi ekki mjög langan tíma) og svo Papaball.
Vatns- og brauðhelginni er því frestað um óákveðinn tíma, veit ekki hvenær hún kemst að því um næstu helgi á ég von á vinkonu minni úr Kópavoginum og ekki fer ég að láta hana búa við slíkan kost.