25 febrúar 2006

Garpur

Garpur skal barnið heita.
Takk fyrir góðar nafnaábendingar en eftir að vera búin að máta nöfnin á hann kisa litla og fylgjast með tilburðum hans hefur komið í ljós að Garpsnafnið passar akkúrat á hann.
Þegar Garpur kom í heimsókn með eiganda sínum leitaði hann skjóls í skálinni á stofuborðinu og lagði litlu eyrun sína alveg aftur þegar Kolgríma nálgaðist.
Nú hefur hann sótt í sig veðrið og gerir dirfskufull áhlaup á Kolgrímu og virðist stefna á heimilisyfirráð, ja, gott ef ekki bara heimsyfirráð.
Hann hefur ekki litið ofan í stofuskálina, hvað þá farið ofan í hana. Hann urrar við matardallana ef honum finnst Kolgríma sýna yfirgang þar og í morgun réðst hann á matinn og Kolgríma stóð álengdar og virti fyrir sér þennan undarlega gest sem er að reyna að ná yfirráðum á hennar svæði.
Ekki þar fyrir að Kolgríma getur alveg tuskað hann til ef hún vill því hann er bara tveggja og hálfsmánaða en hún að verða eins árs. Samkomulagið á milli þeirra virðist bara vera með ágætum og hún Kolgríma mín virðist bara kunna að hegað sér gagnvart gestum.
Það er gaman að fylgjast með Garpi og Kolgrímu í endalausum eltingaleik og sjá tilburðina hjá þeim þegar annað er að laumast að felustað hins. En þau leggjast á bakið og bera á sér mallann hvort fyrir öðru og það er merki um að þetta er allt í góðu því köttur berar ekki mallann á sér nema er hann telur sig öruggan.
Ég var með fögur fyrirheit um að þessi helgi yrði bara upp á vatn og brauð hjá mér eftir allar matarhelgarnar á undan. En svo bregðast krosstré og ég er á leiðinni á uppskeruhátíð hestamanna með Nínu vinkonu minni. Þar verður þrírétta matseðill, skemmtiatriði, verðlaunaafhendingar (sem taka vonandi ekki mjög langan tíma) og svo Papaball.
Vatns- og brauðhelginni er því frestað um óákveðinn tíma, veit ekki hvenær hún kemst að því um næstu helgi á ég von á vinkonu minni úr Kópavoginum og ekki fer ég að láta hana búa við slíkan kost.

|

22 febrúar 2006

Skoðanakönnun

Litli kisi sem ég nefndi hér fyrr á blogginu á ekkert nafn.
Mér finnst það nú alveg ótækt og hef ákveðið að gera smá skoðanakönnun. Hvað finnst ykkur að lítill fressköttur, gulbröndóttur með hringmynstri, hvíta bringu og hvítar loppur ætti að heita?
Hann er kraftalegur og mikill malari. Finnst best að vera í skálinni á sófaborðinu. Hann virðist finna fyrir mestu öryggi gagnvart Kolgrímu þar.
Ég átti nokkra svona litaða kisa þegar ég var lítil og þeir hétu allir Bangsi en mér finnst það ekki passa nógu vel á þennan litla töffara.
Hann kom í heimsókn í dag og það fór ögn betur á með honum og Kolgrímu en um daginn. Þau meira að segja borðuðu saman.

|

21 febrúar 2006

Gýpa litla

Og enn er ég að borða.
Það var ekki að ástæðulausu að hann pápi minn nefndi mig oft Gýpu þegar ég var lítil. "Ertu enn svöng Gýpa mín?" sagði hann stundum við mig. Þetta skilja þeir sem þekkja ævintýrið um hana Gýpu sem var svo matgráðug að hún át karlinn og kerlinguna og kotið með.
Helgarnar snúast um að sukka í mat og virku dagarnir snúast um að halda í við mig og þykjast vera dugleg á herbalife.
Um síðustu helgi var ég í einu stórafmæli, einu matarboði og hélt eitt matarboð sjálf. Allt lukkaðist mjög vel.
Af Kolgrímu er allt gott að frétta. Hún blæs út og er orðin óttaleg fitubolla. Hún hefur fundið upp á skemmtilegum leik, eða þ.e.a.s. henni finnst hann rosalega skemmtilegur. Hún treður sér undir lakið á rúminu mínu og er þar í einhverjum veiðileik sem hefur þær afleiðingar að nú þarf ég ekki að þvo lökin mín, þau fara bara rifin og tætt í ruslið. Auðvitað ákveðinn vinnusparnaður en svolítil aukning á heimilisútgjöldum. Eins gott að maður kemst af og til í Rúmfatalagerinn til hans Jakúps.
Um næstu helgi ætlum við Kolgríma að passa einstaklega fallegan lítinn kettling. Hann kom til okkar í heimsókn um daginn og það er nú ekki hægt að segja að Kolgríma hafi tekið honum sérstaklega vel, hún lamdi hann í hausinn - var samt dálítið fyndið á að líta. Ég er viss um að Kolgríma verður voðalega góð við litla krílið þegar hún fær að kynnast honum betur.
Það stefnir sem sagt í matarlitla helgi hjá mér, kattadekur og sennilega eitt Papaball.

|

16 febrúar 2006

Ríkissjónvarpið

Það er af sem áður var.
Í gamla daga var fimmtudagurinn sjónvarpslaus en nú sé ég fram á að sá vikudagur verði minn uppáhalds sjónvarpsdagur. Bara að ég muni eftir að kveikja á sjónvarpinu. Ég er er sko búin að kveikja á því fyrir kvöldið.
Nú á sem sagt að fara að byrja ný syrpa í einum af mínum uppáhalds sjónvarpsþáttum, Without a Trace eða Sporlaust eins og RÚV kýs að kalla þáttinn. Ég verð sem sagt límd við skerminn næstu 23 fimmtudagskvöld. Ef einhver ætlar að heimsækja mig á þessum kvöldum verður sá hinn sami að horfa með mér á þáttinn og fær ekkert kaffi meðan á útsendingunni stendur.
Lendi reyndar í obbolitlum vandræðum næsta fimmtudagskvöld því ríkisútvarpið mun þá sýna þann höfðingsskap að útvarpa beint tónleikum Sinfó og rokkara sem ætla að flytja War of the Worlds. Reyndar verða tónleikarnir líka fluttir í útvarpinu um páskana en það er svo langt þangað til páskarnir eru, ég get ekki beðið svo lengi.
Ég átti War of the Worlds, eða Innrásin frá Mars á okkar ylhýra, á vínil og ég spilaði hann í tættlur. Ég keypti mér svo diskinn en hef ekki hlustað mikið á hann. Það verður samt spennandi að heyra þessa tónleika, helst hefði ég vilja fara suður en eyðsluklóin ég er að reyna að kæla niður visakortið.

|

15 febrúar 2006

Hvítar tennur

Fór í tannhvítingu í dag.
Þetta er sársaukafull aðgerð eins og eflaust allar fegrunaraðgerðir. Hef verið að fá pílur í tennurnar í kvöld en þar sem tennurnar hvítnuðu um mörg númer sé ég ekki eftir að hafa lagt þetta á mig.
Það runnu á mig tvær grímur þegar stúlkan á tannlæknastofunni lét mig gapa eins og ég ætti að gleypa allan heiminn og setti einhverjar þvílíkar græjur upp í mig til að halda munninum nú vel opnum. Svo var farið að þvo og bursta og ég var spurð hvort þetta væru ekki örugglega allt mínar tennur. Humm, ég er nú ekki vön að mæta með annarra manna tennur til tannlæknisins, það er nú nógu dýrt að láta gera eitthvað við þær þó maður sé ekki að splæsa því á ókunnugar tennur.
Svo var smurt einhverju eitri á tennurnar og sterkt ljós látið skína á þær í heila klukkustund. En eins og ég segi, sársaukans og óþægindanna virði því núna ég get næstum leikið í tannkremsauglýsingu.
Loksins, loksins sé ég fram á að geta haft Jón Kalman með mér í bólið. Ég fékk hann lánaðan fyrir viku en hef ekki haft tíma til að kíkja á hann.
Jón Kalman var á bókmenntakynningunni sem ég fór á fyrir jólin á Skriðuklaustri og las úr Sumarljós og svo kemur nóttin. Ég alveg heilaðist af þessari bók og nú ætla ég sem sagt að skríða undir sæng og njóta þess að lesa.

|

12 febrúar 2006

Gestaboð Babette

... eða veisla Brynjars meistarakokks og félaga.
Helgin hefur liðið í algerum munaði. Ég komst næst því sem ég á nokkurn tímann eftir komast að því að njóta matarboðs í líkingu við það sem segir frá í sögu Karen Blixen.
Við vorum saman komin 17 manns í Veiðihúsinu að Eyjum í Breiðdal og þar var sest að borðum kl. 19.30 í gærkvöldi og staðið upp kl. 2 í nótt eftir að við höfðum snætt 17 rétti, hvern annan ljúffengari.
4 karlkokkar voru í hópnum og þeir, ásamt hinum körlunum, sáu um að töfra fram hvern réttinn af öðrum en við konurnar sátum, höfðum það mjög huggulegt og karlarnir þjónuðu okkur lipurlega til borðs.
Lambapaté, kalkúnalundir, lambalundir, grísalundir, kjúklingalundir, hreindýralundir, nautalundir, risahörpuskel, humar matreiddur á 5 mismunandi vegu, áll, andapaté, kampavínskrapi í millirétt og svo í lokin kaffi og himnesk súkkulaðikaka með hindberjasósu og rjóma.
Ef eitthvert hlé varð á borðhaldinu þar sem maturinn var eldaður jafnóðum, fluttu tveir til þrír af körlunum okkur tónlist. Söngur við gítarspil.
Við fórum í actionari og ég sat með hnút í maganum yfir hvaða hlutverk ég fengi. Við Ragnheiður drógum tvo síðustu miðana úr skálinni og ég var sko heppin. Hún þurfti að leika kálf á súlfalyfjum en ég lék Árna Johnsen.
Í morgun sáum við nokkrar kvensur um dögurð og hann lukkaðist mjög vel. Amerísku pönnukökurnar fengu góða dóma, jafnt hjá kokkunum sem leikmönnum.
Þegar ég sest niður, gömul kona, og skrifa ævisögu mína í átta bindum, þá verður einn kafli helgaður þessari yndislegu helgi.

|

10 febrúar 2006

Ég heppin

... eða fram úr hófi kölkuð.
Í morgun þegar ég var að klæða mig fálmaði ég eitthvað inn í fataskáp eftir svartri peysu sem ég hafði hugsað mér að klæðast í vinnunni. Greip í eitthvað sem gat verið peysa og dró út, viti menn, í höndunum hafði ég þessa líka fínu kvenlegu peysu með gatamynstri og perlusaumi. Ég var töluverðan tíma að átta mig á þessu fíneríi, en mundi svo að ég hafði keypt þessa flík fyrir jólin. Síðan hef ég bara hengt hana pent inn í skáp og steingleymt henni. Nú, en þetta var nú of fín flík til að nota í vinnunni í dag - að því er ég taldi. Þegar ég loksins mætti í vinnuna fékk ég að vita það hjá yfirmanninum að í dag væri akkrúat dagur þar sem ég ætti að vera sómasamlega til fara en ekki eins og hottintotti - eins og ég var. Nú voru góð ráð dýr. Ég opnaði fataskápinn upp í vinnu í einhverju bjartsýniskasti og hvað haldið þið - þarna hékk þessi líka fíni svarti flauelsjakki sem ég keypti sl. haust og hef einhvern tíma gleymt í vinnunni.
Ég veit ekki hvað er að gerast - vona alla vega að ég fari ekki að sjást hálfklædd í kaupfélginu af því að ég hef gleymt fötunum mínum.
Í morgun hélt ég bakstursæfingu og bakaði amerískar pönnukökur eftir uppskrift frá Ragnhildi Ben. Þær lukkuðst svona líka vel. Ég var með morgunmatinn í föstudagsmorgunverðarklúbbnum á Lyngásnum svo mér fannst alveg upplagt að nota klúbbfélagana sem tilraunadýr. Það voru meira að segja aðkomukonur og það leit út fyrir að þeim líkaði baksturinn. Ein bað meira að segja um uppskriftina - kannski bara fyrir siðasakir. Alla vega, ég get verið nokkuð róleg út af væntanlegum pönnukökubakstri á sunnudaginn. Bendi ykkur á kommentin sem ég fékk við amerísku pönnunkökufærslunni, þar eru fínar uppskriftir og ein mjög áhugaverð pönnukökuslóð. Þakkir til ykkar sem settuð inn uppskriftir.
Af Kolgrímu minni er það helst að frétta að hún er að verða eins og ég í laginu. Eftir að hún fór í ófrjósemisaðgerðina finnst henn mun huggulegra að vera inni og eta og eta og eta en að fara út að leika sér - við eigum þá alla vega sameiginlegt áhugamál. Hún hefur fitnað heil ósköp. Við verðum sennilega báðar að taka okkur nokkra daga á herbalife eftir helgina - þ.e.a.s. ef ég kem nokkuð aftur heim úr þessari lúxusútilegu þar sem verður byrjað að borða kl. 15.00 á morgun og áti ekki hætt fyrr en eftir hádegi á sunnudag. Spurning hvort maður kemst inn í venjulegan fólksflutningabíl.
Talandi um það. Ég fór á Höfn sl. miðvikudag og ég veit ekki hvar þetta endar með alla þessa flutningabíla. Einn keyrði á undan mér í Lóninu, hann var með tengivagn, ók á miðjum vegi og á næstum 100 km hraða. Ég bara bið Guð og gæfuna að gefa að strandsiglingar verði teknar upp aftur. Það var líka svo huggulegt að hlusta á skipafréttir í útvarpinu, vona að þær verði líka teknar upp. "Hekla er á Ísafirði, er væntanleg til Reykjavíkur um hádegisbil á fimmtudag. Esjan er á Reyðarfirði á leið til Vopnafjarðar." Svo væri hægt að taka upp óskalög sjómanna og snúa dagatalið niður í 1972 og ég væri þá að fara að fermast eftir rúman mánuð.

|

09 febrúar 2006

Afmæli

Í dag eiga í það minnsta 6 konur sem ég þekki afmæli.
Þrjár verða fimmtugar, ein 53, ein 32 og svo hún Margrét Anna Friðbjörnsdóttir sem á sinn fyrsta afmælisdag og ég sendi henni extra kossa og knús.
Til hamingju með daginn stelpur.

|

08 febrúar 2006

Amerískar pönnukökur

Fyrir helgina þarf ég að vera búin að læra að baka amerískar pönnukökur.
Það getur ekki verið flóknara en að baka venjulegar íslenskar pönnukökur, lummur eða skonsur og það hefur mér tekist á lífsleiðinni.
Ég hef tekið að mér að baka amerískar pönnukökur í seytján manns á sunnudagsmorgun, en það er hluti af bröns sem við nokkrir Héraðsmenn tekið að okkur að sjá um í lúxusútilegu. Eins gott að vanda sig því það verða 4 kokkar í hópnum.
Ég fór að leita að góðri uppskrift á netinu og ég fann eina svo ógeðslega holla að það er ekki hægt að bjóða fólki sem ætlar að njóta lífsins að borða slíkt. Í þeirri uppskrift var lífrænt ræktað hveit, bóghveiti, vistvæn egg og einhverjir líkamspartar af nýtíndri hvönn. Hljómar ekki sérlega amerískt. Hljóta að vera sænskar vandræðapönnukökur, alla vega allt of hollar.
Hr. Þingólfur bakaði einu sinni þvílíkt djúsí amerískar pönnukökur með föstudagsmorgunmatnum í vinnunni. Þær voru auðvitað hlaðnar hitaeiningum en alveg ógleymanlega góðar. Verst að Þingólfur er stud. jur. við Kaupmannahafnarháskóla um þessar mundir svo ég get ekki fengið skyndnámskeið hjá honum.

|

04 febrúar 2006

Blót blótanna

Obboslega er ég orðin gömul.
Ég er með strengi í fótleggjunum, og hvernig sem á því stendur, líka í handleggjunum eftir þorrablót Valla og Skóga.
Fór í galagreiðslu strax eftir vinnu í gær, þessa sem nú er í tísku - straujað hár, og svo í samkvæmi á Hallormsstað. Þar var mætt Reykjavíkurdeild Gleðikvennafélags Vallahrepps og fáeinir karlar. Að loknum fagnaðarfundum og nokkrum gamansögum var liðinu pakkað í alla tiltæka bíla og brunað í Iðavelli á þorrablót allra þorrablóta.
Jón Guðmundsson listmálari, fyrrum barnakennari og brottfluttur Skógamaður var fenginn frá höfuðborginni til að stjórna fjöldasöng og af því tilefni mætti hann í sérsaumaðri Hensonpeysu með titlinum "söngstjóri" á bakinu. Söngstjórinn fór á kostum og aðeins yfir velsæmisstrikið -veislustjórinn stoppaði hann af með gamanmálin sem hann vildi flytja því eins og allir vita eru Vallamenn mjög viðkvæmir og þola illa brandara neðan axla. Jón var samt ráðinn til að stjórna söng að ári enda ófært annað en að nota þennan sérsaumaða einkennisbúning.
Ekki gátu menn stillt sig um að skopast að okkur Nínu en Nína er í næstu nefnd svo hún borgar vonandi fyrir okkur.
Eftir mikið át, mikinn hlátur, mikinn söng og mikið gaman var salurinn rýmdur og stiginn dans.
Tóta varð við óskum okkar Nínu og lánaði okkur Ruminn til frjálsra afnota á dansgólfinu. Það er örugglega eftir að hafa dansað nokkra dansa við hann og nokkra við nýkrýnt kyntröll Vallamanna sem ég er með þessa strengi í handleggjunum. Þeir þeyttu mér nefnilega eins og skopparakringlu um dansgólfið. Í einum dansinum var ég sannfærð um að Rumurinn myndi slengja mér upp á sviðið. Við komum á 45 snúninga hraða frá inngöngudyrunum í áttina að sviðinu þegar Rumurinn linar takið sem hann hafði á mér og ég fann að ég var að takast á flug þegar hann snögglega herti takið aftur og bjargaði mér frá bráðum háska. Það var samt ekki fyrr en eftir síðasta dansinn sem ég náði að laga kjólinn sem var búinn að snúast hálfhring á kroppnum á mér og perlusaumurinn sem á að vera á kviðnum var kominn aftur á bak.
En hárgreiðslan haggaðist ekki enda var ég viðbúin þessum dansförum og hafði beðið hárgreiðslukonuna mína að setja extra mikið af styrktarefni, lími og lakki í hárið á mér. Ég gleymi því nefnilega aldrei sem gerðist á balli hér í Valaskjálf fyrir aldarfjórðungi. Ég var í svörtu pilsi sem var slegið um mittið, var tvöfallt að aftan og bundið saman. Rumurinn bauð mér upp í dans, við fórum hring eftir hring á gólfinu og Rummsi í gríðarlegu dansstuði. Eftir þetta ball fékk pilsið mitt uppnefnið "svarta svuntan".
Ég náði ekki að dansa alla dansana sem búið var að leggja drög að á þorrablótinu en það kemur blót eftir þetta blót og þá byrja ég bara á danskortinu þar sem frá var horfið í nótt. Náði samt að fá mér skemmtilegan snúning með lambinu mínu.
Ég þorði ekki öðru en að drífa mig heim kl. 3 þó svo að þá væri allt í fullu fjöri og nokkrir dansherrar enn ónýttir. Ég þurfti að vakna í eldsnemma í morgun og mæta á þorrablótsfund í rauðabítið kl. 10.30. Já, þetta er ekki prentvilla eða mislestur. Þorrablótsnefnd á Egilsstöðum 2007 hélt sinn fyrsta fund í dag.
Pelli og Sigga, formenn nefndarinnar, skipuðu í hlutverk og lögðu fram æfingaáætlun. Pelli ætlar að vera tilbúinn með annálinn um næstu helgi og Sigga mun stjórna músastiga- og klippimyndagerð sem skreytinganefndin mun byrja á strax á mánudagskvöld. Síðasta þorrablótsnefnd er búin að vara við hvað það sé rosalega mikið verk að halda þorrablótið í íþróttahúsinu svo við byrjum bara stax að undirbúa til að lenda ekki í tímahraki. Ég held að það standi ekki til að halda þorrablótið núna um páskana heldur bara á bóndadag 2007, en það hlýtur að vera auglýst nánar þegar að því kemur.

|