Þjónusta á vegum sveitarfélagsins er nokkuð mismunandi.
Í dag þurfti ég að hringja í hitaveituna okkar til að fá afrit af tveimur reikningum sem ég hafði greitt í vinnunni. Fjóla er sennilega í fríi því Guðmundur hitaveitustjóri varð fyrir svörum. Hann brást auðvitað vel við erindi mínu eins og hans var von og vísa og lofaðist til að senda mér þetta á myndsendi.
Sendingin kom reyndar ekki og ég fór bara heim á venjulegum tíma en viti menn, þegar ég beygði frá húsinu kom hitaveitustjórinn á blússandi ferð og veifaði mér. Ég brosti til hans veifaði á móti, en þá kom hann akandi á eftir mér og hætti ekkert að veifa mér. Ég stoppaði til að athuga hvort ekki væri allt í lagi, jú, jú, allt í sómanum, hann var bara að færa mér reikningana því faxtækið á hitaveitunni virkaði ekki eins og skyldi.
En á sjálfri bæjarstjóraskrifstofunni þar sem reikningar vegna álagðra gjalda eru skrifaðir út, þar er ekki svona mikil þjónustugleði.
Um daginn fékk ég gíróseðil þar sem mér var gert að greiða kr. 5.100 v/Kolgrímu. Nú, við Kolgríma mín Högnadóttir teljum ekki eftir okkur að greiða okkar skatta og skyldur, jafnvel þótt við vitum ekkert hvað er innifalið í því sem við erum að greiða eins og framangreinum 5.100 kr. sem heita kattagjald eða eitthvað þess háttar. Guð má vita hvaða þjónustu við erum að greiða fyrir.
Það sem okkur hér á þessu heimili sárnar, þ.e.a.s. mér og Kolgrímu er að þótt hann pabbi hennar sé aðeins útlifaður bryggjuköttur á Seyðisfirði þá er hún feðruð og í kattatali sveitarfélagsins er hún skráð Högnadóttir og mér þykir það bara helv..... hart ef ekki er einu sinni hægt að eyða bleki í fullt nafn á álagningarseðlinum.
Ég held að hvaða Jón sem er hér í bæ, hvort heldur hann er bara Jónsson eða Sveinsson fái ekki greiðslutilkynningu þar sem hann er sviftur faðerninu.
Spurning hvort maður er nokkuð að greiða þetta.