31 júlí 2006

31. júlí

Dánardagur Finns.
Ég gæti sett hér Deyr fé.
Eða bara eitthvað sem minnir á Finn;
Jón í Hækilsdal - Finnur og Skúli á Jónsmessu á Hallormsstað.
Bláfjólu má í birkiskógnum líta - sumarið 75.
REM - Kaupmannahöfn 92.
Erik Clapton - lagið okkar Finns.
Eða bara Doors - Jim Morrison, uppáhaldið hans Finns.

|

27 júlí 2006

Slúðurblöðin

Ég átti yndislegan tíma á hárgreiðslustofunni í dag.
Anna Alexanders dedúaði við hausinn á mér, nuddaði hársvörðinn, klippti og litaði hárið. Nú er ég orðin almennileg ljóska.
Það sem m.a. gerir ferð á hárgreiðslustofuna gagnlega er að á sex vikna fresti fæ ég tækifæri til að skanna Hér og nú og önnur slúðurblöð sem ég myndi aldrei láta sjást í innkaupakörfunni minni. Ef ég fengi ekki tækifæri til að kíkja í þessi blöð þá myndi ég ekki vita hvaða fólk er frægt á Íslandi.
Eins og t.d. Fjölnir. Ég man reyndar ekkert af hverju hann varð frægur, nema þá fyrir það að vera að slá sér upp með konum sem voru frægar fyrir að gera eitthvað annað en að slá sér upp með honum.
Kannski fær hann Fálkaorðuna einn daginn fyrir það hvað hann er frægur og vinsæll meðal fagurra kvenna - það er alla vega ekki verri ástæða til að veita slíka orðu en þegar ríkisstarfsmönnum er veitt hún fyrir það eitt að mæta daglega í vinnuna og vinna fyrir laununum sínum. Það gerist í hvert skipti sem Fálkaorðan er veitt að einhver stundvís ríkisstarfsmaður hreppir hana. Kannski ég fari að bæta mig í mætingunni og fari fram á það að það verði sett upp stimpilklukka á Lyngásnum, þá kannski fæ ég boð um að mæta í Bessastaði árið 2028 þegar ég hætti störfum hjá ríkinu.
Maður verður að hafa takmark til að stefna að í lífinu.

|

25 júlí 2006

Fjör framundan

Það er búin að vera bongó blíða í marga daga síðan ég bloggaði síðast.
Hef bara ekki mátt vera að því að blogga, er að undirbúa stanslaust dekur og fjör. Það fer að streyma til mín fullt af skemmtilegu fólki sem ætlar með mér á tónleikana á Borgarfirði á laugardaginn.
Báðar dæturnar og tendasynirnir. Einn vinur þeirra og tvær eldhressar Kópavogsvinkonur mínar.
Nú er bara verið að slátra kálfum og rifja upp mataruppskriftir því ég hef fengið óskir um rétti af ðe menjú: matur a la mamma.
Svo byrja ég að mæta á dekurstofur bæjarins á morgun, en ég á tíma í ljósum (nenni ekki að liggja í sólbaði í garðinum), klipp og stríp, fótsnyrtingu og dekurdúllerí á snyrtistofunni Brá.
Þið sjáið því að ég hef öðrum hnöppum að hneppa en að blogga.

|

21 júlí 2006

Rigningartíð

Ég elska rigninguna.
Ég var upp á Hallormsstað í fyrradag og fór í skógargöngu ásamt nokkrum gleðikonum. Það var yndislegt, léttur regnúði, logn og skógurinn ferskur og fínn. Við allar endurnærðar þegar komið var í hús.
Í gær fór ég aðeins út að hjóla í rigningunni. Það er eins og að hreinsa sálina.
Það er enn einn mildur og fallegur regndagur runninn upp hér á Héraði.

|

18 júlí 2006

Opinber þjónusta

Þjónusta á vegum sveitarfélagsins er nokkuð mismunandi.
Í dag þurfti ég að hringja í hitaveituna okkar til að fá afrit af tveimur reikningum sem ég hafði greitt í vinnunni. Fjóla er sennilega í fríi því Guðmundur hitaveitustjóri varð fyrir svörum. Hann brást auðvitað vel við erindi mínu eins og hans var von og vísa og lofaðist til að senda mér þetta á myndsendi.
Sendingin kom reyndar ekki og ég fór bara heim á venjulegum tíma en viti menn, þegar ég beygði frá húsinu kom hitaveitustjórinn á blússandi ferð og veifaði mér. Ég brosti til hans veifaði á móti, en þá kom hann akandi á eftir mér og hætti ekkert að veifa mér. Ég stoppaði til að athuga hvort ekki væri allt í lagi, jú, jú, allt í sómanum, hann var bara að færa mér reikningana því faxtækið á hitaveitunni virkaði ekki eins og skyldi.
En á sjálfri bæjarstjóraskrifstofunni þar sem reikningar vegna álagðra gjalda eru skrifaðir út, þar er ekki svona mikil þjónustugleði.
Um daginn fékk ég gíróseðil þar sem mér var gert að greiða kr. 5.100 v/Kolgrímu. Nú, við Kolgríma mín Högnadóttir teljum ekki eftir okkur að greiða okkar skatta og skyldur, jafnvel þótt við vitum ekkert hvað er innifalið í því sem við erum að greiða eins og framangreinum 5.100 kr. sem heita kattagjald eða eitthvað þess háttar. Guð má vita hvaða þjónustu við erum að greiða fyrir.
Það sem okkur hér á þessu heimili sárnar, þ.e.a.s. mér og Kolgrímu er að þótt hann pabbi hennar sé aðeins útlifaður bryggjuköttur á Seyðisfirði þá er hún feðruð og í kattatali sveitarfélagsins er hún skráð Högnadóttir og mér þykir það bara helv..... hart ef ekki er einu sinni hægt að eyða bleki í fullt nafn á álagningarseðlinum.
Ég held að hvaða Jón sem er hér í bæ, hvort heldur hann er bara Jónsson eða Sveinsson fái ekki greiðslutilkynningu þar sem hann er sviftur faðerninu.
Spurning hvort maður er nokkuð að greiða þetta.

|

13 júlí 2006

Barbie

Nú vorum við Nína vinkona heldur betur óheppnar.
Ég var að lesa Fréttablaðið frá því í gær og þar les ég bara að á e-bay var til sölu íslensk Barbie. Íslensk Barbie, ég hélt að það værum bara við Nína í spinningtímum sem hefðum þennan titil, I'm a barbie girl..., en svo er mynd af Barbie-dúkku í Fréttablaðinu, hún er innpökkuð í kassa, klædd einhvers konar eftirlíkingu af íslenskum búningi, það er mynd af víkingaskipi á kassanum og allt þetta var selt á uppboði í gær. Uppboðið rann út kl. 18.30 að íslenskum tíma.
Dandý og Þórveig, hvar voruð þið??? Lesið þið ekki blöðin eða hvað???

|

11 júlí 2006

Þættinum hefur enn borist bréf

Nú er bent á að hér sé of mikið bloggað um ketti.
Humm, Kolgríma er nafli alheimsins. Hvað á ég svo sem að blogga um?
Jú, ég fór í ræktina í dag, í gær og fimm sinnum í síðustu viku. Smá átak í gangi. Það virkar samt ekkert því ég er svo dugleg í ræktinni að ég borða bara það sem mig langar í svona til að verðlauna mig fyrir dugnaðinn.
Svo hjólaði ég í vinnuna í dag og í gær. Það gerir heldur ekkert gagn því ég þarf að sjálfsögðu líka að verðlauna sjálfa mig fyrir það, fór út að borða á Nielsen í hádeginu.
Ef ég á að halda jafnvægi milli þess sem ég borða og þess sem ég þarf að brenna verð ég að fá mér vinnu sem skógarhöggsmaður nyrst í Kanada, en þeir munu víst brenna um 5.000 hitaeiningum á dag.
Man ekki eftir fleiri fréttum sem ekki snúast um Kolgrímu.

|

09 júlí 2006

Garpur Laufás

Það verða allir að hafa föður- eða ættarnafn.
Kolgríma mín er t.d. Högnadóttir. Garpur greyið á ekkert föðurnafn svo mér datt í hug að gefa honum ættarnafnið Laufás af því að hann kemur frá Laufási í Hjaltastaðaþinghá.
Er þetta ekki bara fínt nafn handa töffaranum honum Garpi?
Hann kom til okkar í gærkvöldi til dvalar næstu dagana. Hann er vaxinn Kolgrímu yfir höfuð og er massaður og flottur með mjúkan og fallegan feld. Eini gallinn við Garp er að hann gengur ekki nógu vel um klósettið, hann "sturtar ekki niður" þ.e.a.s. hann hoppar út úr kassanum án þess að moka yfir. Þetta er náttúrulega afar hvimleitt fyrir lady Kolgrímu sem þarf að nota sama klósett.
Ég þekki ekki neina skepnu, hvorki af tegundinni homo sapiens né nokkuri annarri tegund, sem er eins gaman að gefa mat og honum Garpi. Hann var enn urrandi ánægður á 3. rétti í gærkvöldi.

|

06 júlí 2006

Svei mér þá ...

... ætli ég neyðist til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn framvegis?
Sturla Böðvarsson er sko minn maður eftir þessa ræðu í tilefni af því að Íslendingar hafa séð um Reykjavíkurflugvöll í 60 ár.
Hvernig væri nú að fara að koma upp mannsæmandi húsakynnum fyrir innanlandsflugið, biðsal með hreinum sætum, kaffiteríu sem selur drykkjarhæft kaffi og fyrir framan húsið væri gott að fá bílastæði sem rúmar meira en 10 bíla.

|

05 júlí 2006

Skógarkot

Jæja, þá er ég komin með bindandi kauptilboð í Skógarkot.
Það er reyndar með fyrirvara um að húsið mitt seljist. Við Kolgríma eigum að fá húsið í skóginum afhent fullfrágengið 1. maí nk. og e.t.v. fyrr.
Ég skrapp í dag að skoða væntanlegar lendur mínar. Garðurinn er mjög fínn þótt það vanti húsið sjálft. Það vaxa þarna sóleyjar, blágresi, hrútaber, elfting og svo þessi birkitré frá landnámstíð. Því miður sá ég enga fífla en það eru uppáhalds garðblómin mín.
Við Kolgríma fengum í gær nýtt tilboð um heimili í vetur þegar búast má við að við lendum á vergang. Það verður nú þægilegt að geta bara flakkað á milli eftir því sem vinir og vandmenn verða þreyttir á að hafa okkur.
Ég gleymdi að hafa það í samningnum sem fasteinasalinn var búinn að lofa mér en það er að það yrði búið að laga gott kaffi í Skógarkoti áður en ég fæ það afhent.

|

01 júlí 2006

Sigrún Ólafsdóttir og msn

Ég sagði ykkur frá því um daginn að ég eignaðist obbolitla frænku.
Hún nafna mín Rannsa hans Þórhalls bróður og hann Óli þau eignuðust þetta pínulitla hörkutól sem kallar ekki allt ömmu sína og sannar að margur er knár þótt hann sé smár.
Litla daman var skírð Sigrún í höfuðið á föðurömmu sinni og er alnafna hennar.
Sigrún litla sem sagt er farin að dafna eftir nokkrar hremmingar. Búin að ná sinni litlu fæðingarþyngd og hefur lengst um hálfan cm.
Hún kemur til með að verða aðal stjarnan í jólaboðunum í ár.
Ég er alltaf að nálgast nútímann meira og meira. Nú er ég komin með msn. Tölvutóta vill meina að ég sé hálfri öld á eftir öðrum núlifandi mönnum hvað alla tækni snertir en ég hef frétt að vinnufélögum dóttur minnar þykir hún eiga mjög tæknvædda mömmu. Alla vega fékk ég fullt af skemmtilegum skeytum í gær og m.a. frá uppáhalds frænda mínum í Vestmannaeyjum honum Gunnari Karli.

|