27 september 2006

Klámsíðan LG

Það hafa ekki margir vilja kannast við að lesa Lötu Grétu.
Samt veit ég um fólk sem les hana reglulega. Ég veit t.d. um einn miðaldra karlmann, konu vestur á fjörðum, húsmóður í Vesturbænum. En þetta er eins og með Bleikt og blátt, það kannast enginn við að lesa það heldur.
Jæja en alla vega, þið sem kvittuðuð í vikunni eða undanfarið ár - þið eruð huguð og ykkur er sama um mannorð ykkar - takk fyrir að kvitta.
Ég sé það í slúðurdálkum dagblaðanna að Anna nokkur Smith (þær eru örugglega ekki margar í veröldinni) ól barn fyrir ekki löngu síðan. Það stendur á mbl.is að lögfræðingur Önnu hafi gefið út þá yfirlýsingu að hann eigi barnið.
Blessaður maðurinn, þetta er greinilega góðhjartaður lögmaður - kannski hanga einhverjir aurar á spítunni, maður náttúrulega veit það ekki.
Alla vega, ég veit ekki hver þessi blessaða Anna Nicole Smithe, einstæða móðir, er. Ég kannski kemst að því næst þegar ég fer í klippingu og kemst í alvöru slúðurblöð.

|

24 september 2006

Góður gestur

Það kom nú aldeilis óvæntur gestur í gærkvöldi.
Ég var bara inni í eldhúsi að tína til þessar tvær gulrætur, salatblaðið, hálfa tómatinn og eina og hálfa sardínu sem ég mátti borða í gærkvöld, þegar mér varð litið út um gluggann. Var ekki bara herra Garpur von Laufás mættur í kvöldmatinn. Ekki hefur nú minn matseðill freistað hans, en hann fór beint í matardallana hennar Kolgrímu og hreinsaði þá vel og vandlega. Kolríma var bara hin ánægðasta að fá Garp til sín og meðan hann hreinsaði úr matardöllunum, þá nusaði hún af honum hátt og lágt, sleikti á honum skottið og hausinn.
Garpur var hjá okkur í nótt og hafði það bara virkilega huggulegt.
Við Guðný Rós, sem er hjá mér í fóstri um þessar mundir, fórum svo með hann yfir í Stekkjartröð í hádeginu.
Maggi Garpseigandi fann að því við mig að ég hefði ekki gert meira úr afmæli Lötu Grétu en ég gerði, en ég var bara svo miður mín út af kisunni hans Kidda að ég hafði ekki rænu á því.
Þess vegna vil ég bæta ráð mitt og þakka öllum sem hafa heimsótt Lötu Grétu á þessu fyrsta ári hennar kærlega fyrir. Svo þakka ég þeim sem hafa skrifað athugasemdir enn betur.
En af því að ég sé það á teljaranum að það eru einhverjir sem lesa bloggið mitt þá langar mig að biðja ykkur sem aldrei hafið sett nafnið ykkar á síðuna að bregða nú út af vana ykkar og gera vart við ykkur.
Enn og aftur takk fyrir að lesa bullið mitt.

|

22 september 2006

Lata Gréta eins árs

Í gær var ár síðan Lata Gréta leit dagsins ljós.
Ég hafði ekki rænu á að fatta það í gær, enda var ég svo miður mín í allan gærdag út af fréttunum af kisunni hans Kidda í Vídeóflugunni.
En að einhver skuli geta verið svona grimmur að fara með riffil og skjóta köttinn - hitta hann ekki einu sinni svo vel að hann dytti niður dauður heldur dróst kisa greyið helsærð inn til sín og þar blæddi henni út.
Kattarmorðinginn ber því við að hann hafi vilja vernda fuglalíf - en ég bara spyr; hvað er svona rosalega mikill "dýravinur" að gera með riffil? Borðar þessi maður kannski ekki fuglakjöt?
Veiðieðlið er kettinum meðfætt og fuglarnir tína orma og þannig er nú bara lífsins gangur.
Svo verð ég að viðurkenna að það er alveg sama hvernig ég lít á þetta mál, ég er sárhneiksluð á þessu framferði að draga upp riffil og skjóta af honum í miðri íbúðabyggð. Ég held að svona menn ættu ekki að hafa skotvopnaleyfi.
Þetta er bara ljótur gamall karl sem gerir svona lagað.

Svo verð ég bara að segja að ef einhverjir kettir eiga að njóta friðhelgi hér í bæ þá eru það kettirnir hans Kidda. Svo auðvitað Kolgríma og Garpur, já og auðvitað Grislingur og Tinni og auðvitað öll önnur gæludýr.

|

19 september 2006

Haust

Það eru góðglaðir skógarþrestir um allan bæ.
Í gærmorgun og í morgun þegar ég kom út fylltu þeir loftið með drykkjusöngvum. Reyniberin hjóta að vera komin á rétt gerjunarstig og nú má fara að reikna með einum og einum þresti fljúga á glugga og slasa sig eða binda enda á líf sitt.
Mér finnst ekki hægt að skamma kisu þótt hún láti eftir sér að gæða sér aðeins á áfengum fugli.
Ég finn til með þrastamæðrunum sem hafa lagt alla sína vinnu og ást í það í sumar að koma upp ungunum sínum og mega nú horfa upp á þá sauðdrukkna og syngjandi. Þetta er rétt eins og við mæður í mannheimum þurfum að ganga í gegnum á hverju sumri meðan börnin okkar eru unglingar sem vita ekkert skemmtilegra en að fara á útihátíð um verslunarmannahelgi.
Ég þori varla að segja frá því sem ég er að bardúsa þessa dagana því Inga Rósa gerir bara grín að mér. Ég sem sagt er búin að kaupa mér ferð til Tenerife í mars. Svo byrjaði ég á danska kúrnum í morgun og ræktinni í gær þannig að það eru svona obbolítil umframútgjöld. En ég er samt að gæta ítrasta aðhalds og sparnaðar.
Það má líta á þetta sem fjárfestingar en ekki eyðslu.
Þett er eiginlega bara spurning um bókhaldsfærslur.

|

15 september 2006

Skógarkot vex og dafnar

Skrapp upp í skóg í dag að kíkja á kotið.
Tóta kom með mér, en við vorum að koma úr hádegismat á Nielsen.
Það gaf nú aldeilis á að líta í Skógarkoti, þrír myndarlegir menn að störfum (Tóta sagði að þeir hefðu verið miklu fleiri á laugardaginn). Búið að slá upp fyrir grunninum og nú eru sem sagt útlínurnar komnar. Þetta verður alveg rosalega fínt.
Gott að ég valdi ekki lóð nr. 17 eins og ég var fyrst að hugsa um, ja, nema kannski ef ég hefði haft kjallara með innisundlaug.
Nú er bara framundan að velja hótel og þess háttar fyrir Kanaríferðina í mars. Birna granni minn var búin að benda mér á voðalega fínt hótel en Tóta vill meina að það séu ekki eins manns herbergi á þessu fína hóteli. Þá er bara um tvennt að ræða, finna annað hótel eða finna sér ferðafélaga. Auðvitað get ég líka bara breitt úr mér í tveggja manna lúxusherbergi.

|

14 september 2006

Rannveig lætur eitthvað á móti sér

Hér á þessu heimili er viðamikið átak í gangi.
Það ber yfirskriftina Rannveig lætur eitthvað á móti sér. Tilgangurinn er að ná niður útgjöldum heimilisins. Kolgríma þarf ekki að taka þátt í þessu átaki - hún fær allt sem hún getur komið mér í skilning um að hana langi í.
Um daginn þá var ég í Bónus og þetta var mjög venjuleg innkaupaferð. Ég tíndi allt sem ég sá sniðugt í hillunum ofan í innkaupakerruna. Alls konar hlutir sem glöddu augað eða kitluðu bragðlaukana, nú eða bara fóru vel í kerrunni. Venjulega ek ég að kassanum og tíni þetta allt upp á borðið og dreg svo upp vísakortið. En þar sem nú er þetta átak í gangi þá varð ég að ganga til baka og setja allan óþarfa aftur á sinn stað í hillunum og fór með næstum tóma körfu að kassanum.
Svo í gær þá fór ég á Hornafjörð og ég fer nú ekki á þann stað án þess að fara í Lónið og kaupa mér nokkrar flíkur. En Rannveig lætur eitthvað á móti sér og ég leit ekki einu sinni í áttina að Lóninu.
Ég er mjög ánægð með sjálfa mig þessa dagana.

|

12 september 2006

Danski kúrinn

Ég er að spá í að fara á danska kúrinn.
Ég er búin að hitta svo margar sem segjast hafa losnað við X mörg kíló á þeim danska að ég verð að prufa líka.
Fór á fasteignasöluna og fann að því að ekki væri búið að selja húsið mitt - mér var bara svarað fullum hálsi og sagt að mæta í spinning á mánudaginn. Bíddu nú, tek ég of mikið pláss hér??? Skyggi ég á húsið eða hvað???
Enginn hlustar á mig nema kisa - og henni er slétt sama hvað ég segi bara ef hún fær að borða.

|

10 september 2006

Gengið til góðs

Ég gerði eins og forseti vor og gekk til góðs í gær.
Mér sýndist reyndar í sjónvarpinu að hann stæði bara inn í Kringlunni, þurr og strokinn. Ég gekk á Hallormsstað og það kom úrhellisrigning og hvassviðri þessa stuttu stund sem það tók að ganga staðinn á enda.
En það var gaman að skoða nýju húsin og sjá nýju íbúana í skóginum. Skemmtilegast var að heimsækja Baldur og Braga. Þar komst ég heldur betur í feitt. Það er allt svo myndarlegt hjá þeim bræðrum og meðan Baldur fyllti Rauðakrossbaukinn sýndi Bragi mér eitt og annað sem þeir bræður hafa verið að fást við. Renndar bjöllur úr lerki, skálar, servéttuhringir og pennar úr ýmsum viðartegundum og hreindýrahorni. Ég fjárfesti fyrir eins mikinn pening og þeir þorðu að lána mér því ég var ekki með neinn aur á mér. Meiningin var nefnilega að ég myndi safna peningum en ekki eyða peningum.
Í bakaleiðinni kom ég við á Gunnlaugsstöðum og skoðaði alla litlu sætu hvolpana sem urðu 7 áður en yfir lauk. Ohhh þeir eru svo fallegir.
Ég var alveg búin eftir þetta flandur, háttaði upp í rúm og svaf í 3 tíma. Það á einhvern veginn ekki við mig að vera lasarus og ég mygla bara ef ég á að liggja margar vikur í bælinu - ekki til að tala um að ég geri það.
Skrapp út að hjóla smá í morgun til að anda að mér haustblíðunni og uppskar matarboð í kvöld. Uppskeruhátíð með hreindýrasteik, alls konar sultum og hlaupi, saft og guðmávitahvað.

|

08 september 2006

Krabbameinsskoðun

Ég fór í krabbameinsskoðun í morgun.
Allt gekk vel. Rafmagnið hékk inni allan tímann, ég gat svarað flestum spurningum eins og t.d. hvað ég ætti mörg börn og svoleiðis. Svo voru aðrar sem ég gat ekki munað svarið við eins og hvenær Rósa frænka var síðast í heimsókn - æi, bara einhvern tíma í ágúst - eins og mér sé ekki sama. Af hverju ég hefði komið í skoðun??? - nú, ég fékk bréf og mér var sagt að koma, annars hefði ég ekki fattað að mæta.
Svo voru brjóstin klesst og pressuð, fyrst upp og niður og svo út og suður og teknar myndir.
Ég er nú farin að hafa áhyggjur af starfsöryggi Jobba - það kemur fólk að sunnan í þessar myndatökur og svo er sýslumaður farinn að dunda við passamyndatökur og þá missti nú Jobbi spón úr aski sínum. Svo er rannsóknarlögreglan að reyna að koma sér upp aðstöðu til að taka myndir af Bjarnarbófunum.
Nema hvað, það sem er fréttnæmt við þessa krabbameinsskoðun er að nú voru komin alveg ný dress. Búið að leggja gömlu grænu sloppunum sem maður vissi eiginlega aldrei hvernig áttu að snúa. Í staðinn eru komin græn og bleik pils. Græn fyrir litlar, bleik fyrir stórar konur. Sniðugt að hafa litina svona því það vildu allar konurnar frekar vera í bleikum pilsum heldur en grænum.
Nú, pilsin voru ekki með teygjuna um mittið heldur fyrir ofan brjóstin. Þetta var mjög hentugt án þess að ég ætli að lýsa því nánar.

|

06 september 2006

Hundalíf

Ég hef verið í sambandi við spennta hundaeigendur síðdegis.
Á Gunnlaugsstöðum fæddist Siberian Husky parinu Rómu og Eldi 6 hvolpar í dag. Þjár tíkur og þrír hundar. Hvað færir maður hundum í sængurgjöf???
Í Aratúninu er Perla að koma hvolpunum sínum í heiminn. Þegar ég heyrði í húsráðendum í kvöld voru komnir tveir hvolpar og tveir voru ófæddir.
Nú til dags er sko farið með tíkur í sónar og allir vita fyrirfram hvað hvolparnir verða margir.
Svo var yfirmaður minn að segja mér þær fréttir að merin hennar er fylfull.
Það er fjör á öllum bæjum nema hér hjá okkur Kolgrímu og Garpi endar er Garpur ekki lengur á númerunum og Kolgríma var tekin úr sambandi í fyrra.
Hér á þessum bæ þrífast því eingöngu platónskar ástir.

|

02 september 2006

Hnerri og hlátur ...

... er það versta sem ég veit.
Alla vega þessa dagana, meðan mallinn er svona samansaumaður.
Ég hnerraði tvisvar í gær og hélt ég myndi slitna eða rifna í sundur - ógeðslega sárt, fór næstum að skæla.
Svo var ég svo kát þegar ég sá að Baggalútur er kominn úr sumarfríi og fór að lesa hann. Það endaði með að ég veltist hér um í sárum og holum draugahlátri.
Alveg hreint að rifna úr hlátri, gersamlega í orðsins fyllstu.
Garpur von Laufás er í vikudvöl hjá okkur Kolgrímu - hann lá og svaf á stól hér við hliðina á mér þegar ég byrjaði að lesa Baggalút en þar sem ég var í þessu drepsára hláturkasti þá verður mér litið á hann og sé að hann starir á mig í forundran.
Aumingja Garpur, skelfingin skein úr fallegu brúnu augunum hans.

|