30 apríl 2009

Löng helgi framundan

Gott að 1. maí lenti á föstudegi.
Apríl er búinn að vera mjög hagstæður fyrir okkur launþega, fullur af lögboðnum frídögum.
Það er auðvitað gott að hafa vinnu og það er eitthvað sem maður má víst þakka fyrir að hafa í dag. En það er líka voðalega gott að eiga frí og geta sinnt áhugamálum.
Á morgun vonast ég til að geta tekið til í garðinum og nánasta umhverfi. Skógarrjóðrið sem ég tók í fóstur hér neðan við húsið mitt er fullt af rusli eftir veturinn og þar þarf að taka til hendinni.
Það eru engin 1. maí hátíðahöld á Egilsstöðum svo það er upplagt að nota daginn í vorverkin í garðinum.
Svo verður stefnan tekin á Húsavík á sunnudag og Akureyri á mánudag.
Góðir dagar í vændum.

|

28 apríl 2009

Viltu kúka eða kjósa?

Klósettpappír eða kjörseðil?
Mér hefur mikið orðið hugsað til baráttu formæðra okkar fyrir um hundrað árum. Þegar þær börðust fyrir kosningarétti konum til handa.
Þær hafa nú tæplega séð þetta fyrir.
Á hverjum bitnar svona hegðun? Á frambjóðendum? Á ráðamönnum þjóðarinnar?
Nei, á þeim sem þurfa að tæma kjörkassana og telja atkvæðin.
Framvegis verða menn sennilega að hafa gúmmíhanska og maska þegar kjörkassar verða tæmdir og atkvæði talin ef menn ætla að vera með svona lágkúrulegan subbuskap á kjörstað.

|

Er allt að fara til andskotans

Fyrst kreppa og nú svínafár.
Ég las um svínafárið á netinu í gær og flensueinkenninn helltustu yfir mig. Dreif mig undir sæng þegar ég kom heim og skellti í mig Panodil hot. Og nú sit ég og reyni að gera það upp við mig hvort ég á að mæta í vinnu í dag eður ei. Beinverkirnir og stíflaða nefið eru enn til staðar.
Til viðbótar við heimshörmungarnar þá las ég á netinu í morgun að yfirborð sjávar muni hækka og hækka á þessari öld vegna hlýnunar jarðar. Samt var í fréttum um daginn að sólin væri í kaldara lagi.
Jæja, en Lóan er komin að kveða burt snjóinn - kveða burt leiðindin það getur hún.
Maður treystir því og vonar allt það besta. Lítið annað að gera í stöðunni.

|

27 apríl 2009

Sumarið er komið

... og kosningar afstaðnar.
Jónína Rós komin á þing og farin suður á fyrsta þingflokksfundinn sinn.
Ég óska Jónínu Rós til hamingju með þingsætið og okkur Austfirðingum með nýjan og öflugan þingmann. Ég veit að Nína á eftir að standa sig vel á Alþingi sem annars staðar.
Á kosningadaginn var ég úti í menntaskóla að vinna við kosningarnar. Mér þykir nú bara gaman að taka þátt í því og fá tækifæri til að sjá hverjir eru búsettir í sveitafélaginu. Það er alltaf að verða fleira og fleira fólk sem ég þekki ekki hér á Egilsstöðum. Spurning hvort það sé af því að nýtt fólk flytur í þorpið eða að ég er að eldast og verð ómanngleggri með hverju árinu.
En hvað um það, ég þekkti alla vega fuglana sem ég sá á Egilsstaðatúninu um helgina. Það var stærðarinnar lóuhópur mættur á svæðið. Ég lagði út í kanti og virti þessar elskur fyrir mér. Það er fátt skemmtilegra en að sjá lóukarlana gera sig til fyrir lóukerlingunum. Ólíkt tilkomumeiri sjón en að sjá karlmenn fara á fjörurnar við konur á böllum.
Spurning hvort að atferli lóukarla virki fyrir karlmenn.

|

19 apríl 2009

Ísland

Mikið er landið okkar fallegt.
Hvort heldur er að sumri eða vetri.
Ég var að koma heim eftir fjóra yndislega daga á fjöllum. Krepputunga, Askja, Dettifoss og fleiri fallegir staðir voru heimsóttir.
Ég hef ekki komið í Öskju síðan sumarið 1968 og mér þótti afskaplega gaman koma þangað aftur eftir rúm 40 ár. Forðum daga var það ekki landslagið sem vakti mesta athygli mína - auðvitað var forvitnilegt að sjá stað sem héti Víti, en gestabók í trékassa á vörðu þótti mér merkileg. Nú heyrir hún víst sögunni til.
Svo þóttu mér líka merkilegir tveir Frakkar sem voru þar og annar var að moka í sig gulum kúlum úr dós. Mér varð starsýnt á hann og ég hugsaði að þetta hlyti að vera rosalega gott því maðurinn mokaði kúlunum upp í sig af svo mikilli ánægju. Mörgum árum seinna fékk ég að smakka þessar gulu kúlur og þá kölluðust þær maísbaunir.
En aftur til nútímans. Herðubreið skartaði sínum allra fegursta vetrarbúningi, hvar sem á hana var litið.
Ég gæti skrifað langa ritgerð um þessa yndislegu daga á fjöllum í frábæru veðri með góðum ferðafélögum. En ég held ég eigi bara ekki nógu góð orð til að lýsa ævintýrinu.
Nú er ég komin heim í Skógarkot og hef notfært mér þann mesta lúxus sem heimili mitt hefur að bjóða - vantssalerni og gott bað. Það verður ekki slæmt að hátta í hreint og fínt rúm, þægilega þreytt, með hugann fullan af fallegum myndum af íslenskri náttúru.

|

13 apríl 2009

12 spora kerfi fyrir fjármálamenn

AA samtökin á Íslandi fögnuðu 55 ára afmæli sínu á föstudeginum langa.
Samtökin eiga gott kerfi til að byggja menn upp til að takast á við nýtt og heilbrigt líf.
Það er 12 spora kerfið.
Það hafa margir nýtt sér þetta kerfi, matarfíklar, spilafíklar, eiturlyfjafíklar og fólk sem á ekki við fíknir að stríða heldur vill bara ná betri tökum á tilverunni.
Fjármálamenn þjóðarinnar eiga margt sameiginlegt með alkóhólistum. Þeir hafa stjórnast af gróðafíkn og eru nú komnir í þrot. Þeir hafa náð botninum eins og alkóhólistar sem hafa drukkið frá sér fjölskyldur sínar, heimili og vini.
Er ekki hægt að skikka þessa menn á kröftugt 12 spora námskeið?
Hvernig væri að þeir viðurkenndu vanmátt sinn gagnvart fjármagni og að þeim var orðið um megn að hafa stjórn á hlutunum?
Hvernig væri að þeir finndu sér sinn æðri mátt í stað Mammons?
Hvernig væri að þeir gerður rækileg siðferðisleg reikningsskil?
Hvernig væri að þeir bæðu Guð í auðmýkt að losa sig við brestina?
Hvernig væri að þeir bættu fyrir brot sín milliliðalaust?
Hvernig væri að þeir yrðu fyrir andlegri vakningu og flyttu öðrum gróðafíklum þennan boðskap?
Ef allir þeir sem á einhvern hátt hafa sólundað almannafé eða stundað hafa óheiðarleg pappírsviðskipti, myndu fara í slíka sjálfsskoðun á ég von á að bæði fjármálafíklunum og þjóðinni gengi betur að skapa gott þjóðfélag þar sem góð og mannbætandi gildi yrðu sett í öndvegi í stað gróðafíknarinnar

|

05 apríl 2009

Bankar í Bretlandi

Ég er mikið að brjóta heilann um breska banka.
Hvernig stendur á því að lögreglan í Lundúnum, líknarfélög, sveitarfélög og breskur almenningur lagði spariféð sitt á reikninga hjá þessu Icesave-kompaníi?
Eru breskir bankar ekki gamalgrónir og vel treystandi fyrir spariféi Breta?
Mér finnst að ef ég ákveð að leggja allt mitt sparifé á reikninga í einhverjum banka í Langtíburtustan þá sé það á mína eigin ábyrgð að gera slíkt. Ef ég fell fyrir gylliboðum um háa vexti þá geti ég ekki gert kröfu á íbúa Langtíburtustan um að greiða mér það sem ég tapa á viðskiptunum. Íbúarnir í Langítburtustan hafa ekki haft hugmynd um þessi viðskipti mín við gylliboðabankann og vita kannski ekkert að þessi banki er til og enn síður að ég er til.
Æi, ég skil ekki þessa bankastarfsemi og hef aldrei gert.

|

04 apríl 2009

Löt og ekki löt

Ég er búin að vera þokkalega dugleg í dag, en núna er ég ferlega löt.
Í morgun var loftið fullt af fuglasöng og gæsagargi. Gæsagarg er vorhljóð hér á Fljótsdalshéraði enda er gæsin farfugl hér.
Veðrið var yndislegt og vor í lofti svo ég tók af rúmunum og allar sængur hafa fengið að vera úti að viðra sig í dag, enda er von á fólki í Skógarkot um páskana.
Svo hef ég þvegið og hengt þvott út á fínu snúruna mína í fyrsta skipti á þessu ári.
Ég skrapp í kaupfélagið mitt og þar er allt á hverfanda hveli. Það stefnir greinilega í að fermetrum verslunarinnar fækki því fatadeildin er öll á ferð og flugi og búið að þjappa öllum vörum framar í búðina.
Þetta er ekkert svo slæmt enda er það á við góða heilsubótagöngu að fara í allar deildir kaupfélagsins, en ég er hrædd um að vöruúrvalið eigi eftir að skerðast.
Kannski gerir það svo sem ekkert mikið til heldur, maður er bara orðinn svo vanur að fá allt sem mann vantar en ekki bara vanta það sem maður fær.

|

03 apríl 2009

3. apríl

Ungfrú Klófríður Högnadóttir er fjögurra ára í dag.
Við Maggi fórum í sveitina í gær, í heimsókn út í Brennistaði. Þar sá ég svo yndislega litla kisu sem vantar heimili. Ég átti í mikilli innri baráttu því mig langaði svo að taka hana með mér heim. Þetta er yndisleg kisa sem elskar að láta klappa sér og knúsa. Hún malaði eins og sögunarmylla í Braslíu.
En þrír kettir er víst nóg á eitt heimili svo litla kisa er áfram á Brennistöðum.
Þetta er búinn að vera góður dagur, ég átti frí úr vinnunni og var að slæpast í þokunni á Egilsstöðum.
Í kvöld fylgdist ég lítillega með kosningasjónvarpinu. Ástþór er svolítið spes með þessar rafrænu lausnir á vanda þjóðarinnar. Ætli flokkurinn hans bjóði fram hér fyrir austan? Ég hef ekki fylgst vel með hvað er í boðið fyrir okkur hér í Norðausturkjördæmi. En vonandi liggur það fyrir á kosningadaginn um hvað er að kjósa í öllum kjördæmum.

|