Heitt bað og húsnæði
Þá er ég komin til Íslands.
Flugið heim tók fimm og hálfan tíma. Það var töluverð umferð á leiðinni, við mættum í það minnsta 5 þotum sem voru á leið vestur um haf. Ég sá tvö fragtskip sem sigldu í átt til Norðurlandann og rétt undan 200 mílna mörkunum voru í það minnsta 10 skip að veiðum.
Ég er búin að liggja í heitu, góðu og lítið menguðu vatni sem er hreinn unaður. Það er auðvitað alltaf smá hverailmur af Reykjavíkurvatninu og það er ekki fyrr en ég kemst í Egilsstaði sem ég fæ að baða mig í mínu heimavatni, sem skv. minni skynjun er ómengað vatn. En þið vitið að hverjum finnst sinn fugl fagur.
Svo er ég búin að ganga frá húsnæðismálum okkar Kolgrímu frá 15. maí og fram til 1. ágúst. Við ætlum að búa á Hallormsstað í sumar. Bara að hún Kolgríma mín taki ekki upp á því að týnast í skóginum, þá verður þjóðarsorg hjá mér.
Það gerðist svolítið undarlegt í gærkvöldi. Við Skúli og Tóta vorum á kvöldgöngu, sólin var rétt búin að setjast og tunglið nánast beint yfir hausunum okkar. Ein og ein stjarna var að kvikna. Ég stóð við búðarglugga og var að virða fyrir mér eitthvað glingur þegar allt í einu heyrðust kunnuglegir tónar. Ég varð að sperra eyrun því ég trúði ekki að ég væri að heyra rétt, en jú, þetta var þjóðsöngurinn okkar. Á kaffihúsi þarna alveg við var stór sjónvarpsskjár og það var að hefjast landsleikur Spánverja og Íslendinga.
Þetta var óneitanlega svolítið sérstök stund.