30 júlí 2007

Undarlegir tímar

Stjörnuspáin mín er skondin í dag.
Sporðdreki: Þegar þú varst lítill dreymdi þig um þennan tíma í lífi þínu. Nú dreymir þig um þegar þú varst lítill. Ákveddu í dag að fara bara fram á við.
Þegar ég var 12 ára heyrði ég foreldra mína leggja 15 ára gömlum bróður mínum lífsreglurnar, hann lét eitthvað illa að stjórn. Mér var svo fyrirmunað að skilja hvað pabbi og mamma voru að skipta sér af honum, fullorðnum manninum, hann réði því víst bara sjálfur hvað hann tæki sér fyrir hendur.
Nokkrum árum síðar man ég að ég velti því fyrir mér hvað fólk um fimmtugt var að hafa fyrir því að fara framúr og klæða sig á morgnanna því það gæti ekki verið neitt áhugavert sem biði. Fólk um fimmtugt var að mínu viti bara að bíða eftir að verða nógu gamalt til að fara á elliheimili, setjast í ruggustól og bíða dauðans.
Ég get því ekki tekið undir stjörnuspána mína í dag, því ég hef örugglega ekki hlakkað til þess að verða miðaldra þegar ég var lítil.
Í dag er ég 48 ára og ég er farin að hlakka til 50 ára afmælisins í lok næsta árs. Mér finnst lífið fullt af tækifærum, ég er frjáls eins og fuglinn og ég nýt lífsins ekkert síður en þegar ég var 16 ára.
Munurinn á mér þegar ég var 16 ára og í dag er bara að í dag er ég ekki sami kjáninn og ég var þá.

|

27 júlí 2007

Bréf frá miðaldra konu á Austurlandi...

... pólitískt skilgreind vinstri blá.
Ég vil taka undir orð ritara Benedikts páfa í frétt á visir.is http://www.visir.is/article/20070727/FRETTIR02/70727055 (afsakið lélega tæknikunnáttu mína).
Fréttir frá meginlandinu á þessu ári eru að rétt sé að krossinn, tákn kristinna, verði ekki sýnilegur opinberlega í Evrópu til að særa ekki fólk úr öðrum trúfélögum. Það eru alltaf einhverjar fréttir um að Evrópubúar eigi að þurrka út menningareinkenni sín til að særa ekki þá sem hafa flutt úr öðrum heimsálfum til Evrópu.
Nú er það þannig að mér finnst að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, en sum dýr eiga ekki að valtra yfir önnur í nafni alþjóðahyggju. Við eigum að taka á móti þeim sem vilja koma til okkar og gefa þeim tækifæri til að lifa lífinu á sínum forsemdum, en mér finnst það út í hött að við bukkum okkur og beygjum og hendum okkar menningu fyrir róða af tillitssemi við alheiminn.
Siðfræðin okkar er kristin og þó ég sé utan allra trúfélaga þá bið ég þess að við höldum í okkar siðfræði og að við þorum að halda uppi röð og reglu í samfélaginu okkar til að allir geti verið frjálsir og fái notið sinna hæfileika.
Amen.

|

23 júlí 2007

Í Reykjavik

Þá er ég í borginni.
Anna Guðný er flogin austur á Fljótsdalshérað, en við Guðlaug og Guðný Rós höldum áfram ferðalaginu. Við erum að skoða vini og vandmenni borginni og svona að athuga hvernig verslun og viðskipti ganga í höfuðstaðnum.
Brúðkaupið fór vel fram. Við fundum þennan sumarbústað og eigum skilið medalíu fyrir að hafa komst á leiðarenda. Brúðurin og brúðguminn játuðust hvort öðru í fallegum lundi í sólskininu og svo var veisla og dansiball.
Það fréttnæmasta af dansgólfinu er að mér tókst að fá Gissur bróðir til að koma út á dansgólfið, eða öllu heldur dansgrasflötina og þetta þótti svo merkilegt að það voru teknar af okkur myndir. Ég dansaði síðast við Gissur á þorrablóti fyrir nokkrum árum, en eftirminnanlegasti dansinn okkar var á áramótadansleik 1974 í Valaskjálf þegar Gissur fékk sér smávegis í tána og varð svona líka mikill fjörkálfur að hann bara dansaði með mig hring eftir hring. En þetta hefur farið með hann því síðan hefur hvorki séð á honum vín né gripið hann mikil danslöngun.
En aftur að brúðkaupinu. Sumir tjölduðu og skemmtu sér fram á rauða nótt. En þar sem mér tókst ekki að finna stóran og feitan karl sem gæfi frá sér góðan hita þá nennti ég ekki að fara að skjálfa ein í tjaldi og fór bara til Þóreyjar frænku í Hveragerði og gisti þar.

|

21 júlí 2007

Á löglegum hraða

Nú er ég komin suður á land.
Ég er stödd í Hveragerði en hingað er ég nú komin eftir 12 tíma akstur frá Egilsstöðum. Ég hef vandað mig í allan dag að aka á löglegum hraða.
Ég missti mig einu sinni á ofurlítið of mikinn hraða en var fljót að bremsa mig niður. Eini löggubíllinn sem varð á vegi mínum birtist á Hellu og það hvarflaði að mér þar sem hann stóð í næsta bílastæði við mig upp við Olís-sjoppuna að fara út og benda þeim á að þeir hefðu átt að fara með bílinn í skoðun í síðasta mánuði.
En maður er svo sem ekkert að skipta sér af í öðrum sóknum.
Við höfum skemmt okkur mjög vel í dag, kvensurnar fjórar sem lögðum af stað frá Egilsstöðum í bítið klukkan hálf ellefu í morgun. Fyrsta nestisstoppið var í Berufirðinum og svo var bara stoppað alls staðar og hvergi.
Í sjoppunni í Freysnes keyptum við okkur mjög glaðlega hatta sem passa akkúrat á bæjarhátíðinni heima. Við erum að spá í hvort við eigum að mæta með hattana okkar í brúðkaupið á morgun. Við myndum náttúrulega stela senunni. Anna Guðný keypti bleikan kábojhatt með diskóljósum en ég fékk fjólubleika húfu eða hatt sem fellur að höfðinu og er eins og úr gæruskinni, mjög lífleg. Svoldið eins og loðin sundhetta með smá börðum.
Eftirminnanlegasta stund dagsins er samt þegar við renndum upp að Núpsstað og heilsuðum upp á frænda okkar Filippus Hannesson, 98 ára gamlan ungling. Hann knúsaði okkur allar bæði þegar við komum og þegar við kvöddum hann.
Við erum alla vega búnar að finna þjóðveg 26, sem ku liggja upp í brúðkaupssveitina. Nú verður spennandi að vita hvort við komumst á leiðarenda á morgun.

|

18 júlí 2007

Hagkaup...

... þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla.
Þessi frasi hefur fengið nýja þýðingu fyrir mig eftir Akureyrarreisuna. Ég að velta því fyrir mér hvað hann var að fara myndarlegi maðurinn sem ég hitti í Hagkaup í Kringlunni einu sinni. Hann vék sér að mér og bað um ráðleggingar um hvers konar pönnu hann ætti að kaupa af því að hann ætti von á gestum í mat.
Voðalega get ég verið mikil geldrolla, af hverju vék hann sér að mér en ekki einhverjum starfsmanni? Hann var örugglega ekkert að fara að halda matarboð.
Ég er að fara í brúðkaup einhvers staðar suður á landi í guðmávitahvaðasveit. Það fylgdi landakort með boðskortinu. Ef ég gifti mig aftur þá ætla ég að bjóða til brúðkaups á ákveðnum gps-punkti upp á hálendinu og Guð, lukkan og gps-tækin sjá um hverjir skila sér.
Ég ætla að nota ferðina, ef ég týnist ekki i uppsveitum Suðurlandsins, og fara í Hagkaup í Kringlunni og Hagkaup í Smárlind og verja sunnudeginum þar.

|

16 júlí 2007

Síðasti áfanginn...

... vonandi verður hann ekki drjúgur.
Nú er ég sem sagt flutt aftur í Egilsstaði og lokaáfangi vergöngunnar er hafinn. Ég á að fá afhent eftir 16 daga og ég er gersamlega að fara á límingunum af tilhlökkun.
Ég hef reynt að gera systkinum mínum hér fyrir austan jafn hátt undir höfði, ég er búin að búa hjá bræðrum mínum og nú er ég komin til hennar systur minnar.
Kolgríma er í fóstri á Faxatröðinni. Verst að ég verð fram að jólum að vinna traust hennar ef ég þá fæ hana aftur því Þórhallur og Guðlaug eru orðin ástfangin af kisu og hún af þeim.
Þórhallur hringdi til mín í gær, ég hélt að hann ætti áríðandi erindi, en nei, nei, hann vildi bara svona heyra í mér hljóðið og svo fór símtalið allt í að segja mér hvað Kolgríma er góð og falleg og skemmtileg og frábær. Eins og ég hafi ekki vitað það.
Um daginn sagði Guðlaug að ég skyldi ekkert taka kisu til mín fyrr en ég væri búin að koma mér VEL fyrir - það tekur aðvitað tíma.
Ég yrði ekki hissa þótt næst yrði mér sagt að það lægi ekkert á að taka kisu fyrr en um jól, eða næsta vor eða bara hvort ég vilji ekki bara fá mér annan kött.
Um helgina fórum við nokkrar ólofaðar kvensur í skemmtiferð til Akureyrar. Það var ekkert smá skemmtileg ferð. Ein lenti á deiti í Hagkaup þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla, en við hinar urðum auðvitað pínu abbó.
Svo þegar hún var að segja okkur frá ævintýrinu á leiðinni út úr bænum þá aðeins gleymdi ég mér í spenningnum, steig aðeins of fast á bensínið og löggan var mætt með það sama. Þar fuku 15.000 kr., en það gerir ekkert því ég græddi svo mikið á síðust Akureyrarferð.
Hins vegar þótti mér leitt að sjá hvað löggan á Akureyri er með fornaldarlegar græjur í bílum sínum. Þetta er eitthvað dót frá landnámsöld, fjaðurstafir og þess háttar. Ég gat ekki einu sinni dregið upp kortið og greitt á staðnum því svoleiðis tækni er óþekkt þarna norður í landi.
Hvernig væri nú að hann Björn færi í ríkiskassann og keypti eitthvað nútímadót handa Akureyringum í staðinn fyrir að vera alltaf að láta sig dreyma um her af ýmsum stærðum og gerðum.

|

13 júlí 2007

Brúðkaupssumarið mikla

Þetta er nú meira sumarið.
Ég er búin að vera við jarðarför, fermingu og brúðkaup og á eftir brúðkaup og skírn áður en sumarið er á enda. Það er sem betur fer ekki fyrr en á næsta ári sem fimmtugsafmælin hellast yfir mann í tugatali.
En hvað haldið þið að hún Gréta Aðalsteins hafi gert? Ég sem hef verið sérlegur öryggisfulltrúi hennar og fékk hana til að kaupa sér reiðhjólahjálm í vor og hef verið að predika yfir henni að það væri ekkert vit í því fyrir hana að búa lengur með honum Fúsa nema að giftast honum. Hvað haldið þið svo að hún laumist til að gera í kyrrþey í gær???
Hún fór með hann Fúsa sinn niður á Seyðisfjörð og lét sýsla pússa þau saman. Og ég var ekki látin vita.
Ég sem var búin að láta mig dreyma um að vera sósukona þegar Gréta myndi gifta sig.
Jæja, það þýðir víst ekki að erfa þetta. Ég vona bara að Guð og lukkan fylgi þeim skötuhjúm um aldur og ævi.

|

12 júlí 2007

Af dýrum og furðudýrum

Í morgun sá ég furðulega sjón.
Eða mér fannst hún furðuleg til að byrja með. Ég var að aka út Hallormsstaðaskóg þegar ég sá þúst úti á miðju Fljóti. Þessi þúst er ekki vön að vera þarna og ég hugsaði með mér að nú bæri vel í veiði, þetta væri greinilega Lagarfljótsormurinn sjálfur að stinga hausnum upp úr í morgunkyrrðinni.
Ég hægði á mér, missti sjónar á þústinni þegar tréin báru á milli, en svo sá ég hana aftur. Æi, verst að ég var ekki með myndavél.
Þegar ég kom að Hafursá, þá endaði ævintýrið mitt. Þar niður í fjörunni var bíll frá Vatnamælingum. Jæja, en það var gaman að hverfa aðeins inn í heim ævintýranna.
Svo kom að því að fara með Kolgrímu og Garp til dýralækis. Þau voru ekki mjög hrifin af því að fara í bíltúr, vældu og skældu. Og þegar Kolgríma var bólusett þá tókst nú ekki betur til í fyrstu tilraun en svo að það var stungið út í gegn og bóluefnið lak niður feldinn hennar.
En þetta gekk allt upp að lokum og nú þurfa þau vonandi ekkert að hitta dýralækninn fyrr en á sama tíma að ári.

|

10 júlí 2007

Hamskipti

Í dag hafði Skógarkot hamskipti.
Húsið var í gær bara eins og hvert annað ómálað steinhús, en í dag komu nokkrir vaskir karlar og einn svartur hundur og hófu að sprauta einhverju hvítu efni, sem mín vegna getur hafa verið galdra grip, á húsið og svo var puðrað og skvett á húsið möluðu grjóti, einhverjum hvítum steinum og hrafntinnu. Þetta er samt ekki hrafntinna úr Hrafntinnuskeri, þetta er einhver innfluttur mulningur.
Hundurinn var kominn upp á stillansa, en ég veit ekki hvort hann var á launaskrá, ég sá hann ekki gera neitt. Þetta var fallegur Labrador hundur.
Svo er komið eitt heljarinnar grjót upp úr grunni í götunni og smiðirnir ætla að færa mér það ef kraninn ræður við flutninginn. En þá er ég líka hætt þessu steinasuði, enda er ég þegar komin með fjóra hnullunga í garðinn.

|

03 júlí 2007

Fiskur og rigning

Þá hefur nú sumarblíðan tekið sér smá frí.
Ég var að skoða veðurspánna og veðurútlitið er satt að segja ekki upp á marga fiska næsta laugardag.
Næsta laugardags hefur víða verið beðið með eftirvæntingu, 07.07.07, en þá ætlar hálf þjóðin að ganga í hjónaband. Allir presta þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga eru yfirbókaðir. Húsráðendur á Fjósakambi 12 fara þvert yfir landið og mæta í brúðkaup í Grindavík, en ég er svo mikill heimalingur, ég fer í Vallaneskirkju og verð viðstödd brúðkaup þar - í minni heimabyggð.
Skv. spánni verðu rigning og skítakuldi um allt land, kannski helst að sjáist til sólar á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og á Melrakkasléttu. Öll brúðhjónin ættu því að drífa sig á þessa staði, því það er gömul trú sem segir að hjónabandið verði eins og veðrið á brúðkaupsdaginn.
En að öðru, í gær hitti ég kappann Ingólf Friðriksson á msn. Hann er að vinna í Genf og við fórum auðvitað að tala um mat eins og oft áður, uppáhalds umræðuefnið okkar.
Ég sagði honum að ég hefði verið að enda við að borða sjófrystan þorsk sem mér var gefinn og þá fræddi hann mig á því að í einhverri fínni búð í Genf væri tvisvar í viku hægt að kaupa íslenskan fisk og hann kostaði ekki nema 3.000 kr. kílóið.
Af þessu spannst auðvitað umræða um okkar góða fisk, okkar góðu landbúnaðarvörur og okkar besta vatn í heimi.
Ef við erum til í að fórna landbúnaðinum og förum að kaupa allt ruslið frá meginlandinu væri þá ekki bara upplagt að flytja líka inn drykkjarvatn frá Evrópu? Það er í mínum huga svona næsti bær við að flytja inn landbúnaðarafurðir og fisk.

|

01 júlí 2007

Í fréttum er þetta helst.

Í gær tjöruhreinsaði ég bíl í fyrsta skipti á ævinni.
Í dag bónaði ég bíl í fyrsta skipti á ævinni og nú stendur hann Súbbi minn glansandi hreinn og fínn úti á hlaði. Ja reyndar fyrir utan gommu af flugnahræjum sem kesstust framan á hann þegar ég brá mér í kaupstað í dag.
Það er samt skárra að hreinsa flugnahræ heldur en fuglshræ, en það þurfti ég að gera um daginn. Það var dauður þröstur klesstur inn í stuðarann og ég varð að slíta af honum hausinn til að ná honum, hausinn féll á jörðina, hann er ekki inn í stuðaranum.
En svona gengur það þegar maður þarf að aka dagalega fram og til baka í skóginu og fuglarnir skjótast upp úr vegkantinum.
En svo eru það aðal fréttirnar, í dag var byrjað að flísaleggja bílskúrinn í Skógarkoti og það er búið að flísaleggja þriðjunginn.
Núna er byrjaður síðasti vergangsmánuðurinn. Konni kynlegi fann það út í grillpartýinu í gær að ég væri gleðikona á vergangi. Það er ekki slæmt hlutskipti skal ég segja ykkur. Alla vega þegar manni er ekki í kot vísað.

|