Undarlegir tímar
Stjörnuspáin mín er skondin í dag.
Sporðdreki: Þegar þú varst lítill dreymdi þig um þennan tíma í lífi þínu. Nú dreymir þig um þegar þú varst lítill. Ákveddu í dag að fara bara fram á við.
Þegar ég var 12 ára heyrði ég foreldra mína leggja 15 ára gömlum bróður mínum lífsreglurnar, hann lét eitthvað illa að stjórn. Mér var svo fyrirmunað að skilja hvað pabbi og mamma voru að skipta sér af honum, fullorðnum manninum, hann réði því víst bara sjálfur hvað hann tæki sér fyrir hendur.
Nokkrum árum síðar man ég að ég velti því fyrir mér hvað fólk um fimmtugt var að hafa fyrir því að fara framúr og klæða sig á morgnanna því það gæti ekki verið neitt áhugavert sem biði. Fólk um fimmtugt var að mínu viti bara að bíða eftir að verða nógu gamalt til að fara á elliheimili, setjast í ruggustól og bíða dauðans.
Ég get því ekki tekið undir stjörnuspána mína í dag, því ég hef örugglega ekki hlakkað til þess að verða miðaldra þegar ég var lítil.
Í dag er ég 48 ára og ég er farin að hlakka til 50 ára afmælisins í lok næsta árs. Mér finnst lífið fullt af tækifærum, ég er frjáls eins og fuglinn og ég nýt lífsins ekkert síður en þegar ég var 16 ára.
Munurinn á mér þegar ég var 16 ára og í dag er bara að í dag er ég ekki sami kjáninn og ég var þá.