29 október 2006

Fréttabréf úr Skridddal

Munið þið eftir vikublaðinu Austra?
Þetta var blað sem Framsóknarflokkurinn gaf út á Austurlandi á síðustu öld. Gott ef Jón Kristjánsson fyrrum heilbrigðisráðherra var ekki ritstjóri, alla vega um tíma.
Í riti þessu birtust af og til skemmtilegir pistlar eftir Stefán í Flögu, fréttabréf úr Skriðdal. Ég sakna þessara pistla. Maður er löngu hættur að vita hvað er að gerast í Skriðdalnum, maður veit varla hverjir búa þar og enn síður hvað menn hugsa þar. Það var nefnilega svo skemmtilegt við þessa pistla að fyrir utan að segja frá tíðarfari og búskap í Skriðdal þá fékk maður líka að vita hvað hjón ræddu sín á milli undir fjögur augu og hvað bændur voru að hugsa. Þetta var eiginlega forveri Séð og heyrt.
Einu sinni var ég fengin til að skrifa grein í jólablað Austra. Þetta var grein upp á tvær eða þrjár heilar síður. Nema hvað, eftir að greinin birtist kallaði Stefán mig kollega sinn og þegar hann frétti að við værum skyld í 7. lið þá kallaði hann mig alltaf frænku. Stefán er einn af þessum einstaklingum sem maður þakkar fyrir að hafa fengið að kynnast, einn af þessum sem auðgar mannlífsflóruna.
Ég hef oft hugsað um hvað það væri gaman ef fréttabréfin úr Skriðdalnum væru aðgengileg til lestrar. En kannski ég fari bara á safnið til hennar Dísu, sem lengi var nú blaðamaður á Austra, og fletti gömulum Austrablöðum mér til skemmtunar.

|

25 október 2006

Það snjóar og snjóar og snjóar og snjóar

Það er bara 25. október, hvað á allur þessi snjór að fyrirstilla.
Það eru rúmir tveir mánuðir síðan ég tók jólaseríuna niður úr þakskegginu og tæpir tveir mánuðir þar til ég þarf að koma henni upp aftur. Eins og þetta gekk vel í fyrra. Ég var búin að suða og suða og suða í vinum og vandamönnum þegar Gissur bróðir sá loks aumur á mér og hengdi þessa fj.... seríu upp fyrir mig.
Það er örugglega af því að ég bý á Jólavöllum sem mér gengur ekkert að selja húsið. Fólk hræðist allar þessar jólaseríur og jólasveinana sem klifra í öllum ljósastaurunum í desember, janúar, febrúar og mars. Einn þeirra er alveg upp við húsið mitt.
Fyrstu jólin okkar hérna þá var búið að hengja á og við húsið ríflega tvöfalt magn af ljósum miðað við það sem við vorum vön. Þegar ég bar það undir Bigga granna minn hvort þetta væri ekki bara gott, þá sagði hann "Jú, þetta er fínt hjá byrjanda".
Það er samt gott að búa á Jólavöllum.

|

24 október 2006

Kolgríma Nightingale

Ég hef legið alveg ónýt í rúminu í dag.
Kolgríma hefur gert það sem í hennar valdi hefur staðið til að gera mér lífið bærilegt. Mjálmað svolítið fyrir mig, legið lengi dags ofan á mér og malað og elt mig þessi fáu skref sem ég hef farið um húsið.
Kolgríma er eðalköttur.
Ég beit fast á jaxlinn og dreif mig í vinnuna í morgun af því að ég hélt að ég væri svo ómissandi. Svo kom í ljós að það var auðvitað bara misskilningur svo ég fór heim aftur, í sjóðheitt bað og upp í rúm á hitapoka.
Ég er ekki 74 ára heldur hangi ég enn í því að vera 47. Þetta er bara neyðarkall frá likamanum um að ég fari að druslast í ræktina. Það var ekki búið að finna upp skrifstofustörf þegar mannslíkaminn var hannaður og bakið á mér þolir ekki svona hreyfingarleysi.
Ef ég ætla ekki að leggjast í kör er víst ekki um annað að ræða en að koma sér í íþróttahúsið. En þangað til ligg ég á hitapoka og nýt læknisþjónustu Kolgrímu.

|

22 október 2006

Sætaslagur

Lífið hjá mér er afskaplega einfalt og ljúft.
Hér hjá okkur Kolgrímu er allt með kyrrum kjörum og engin valdabarátta í gangi. Hún lítur ekki við nýja hægindastólnum í stofunni nema ég siti í honum, þá vill hún liggja ofan á mér og mala fyrir mig. Voða notalegt.
Ég var nú að hugsa um það í morgun, svona þegar ég var að koma úr draumalandinu yfir í raunveruleikann, hvað menn eru misjafnlega baráttuglaðir. T.d. hún Nína vinkona mín. Nú er hún í sömu stöðu og fjöldin annarra pólitíkusa í landinu, hún er að berjast um eitthvað tiltekið sæti á tilteknum framboðslista til væntanlegra Alþingiskosninga.
Hvað teku þá við? Kyrrð og friður? Nei, þegar búið er að berjast um sætin á listunum taka listarnir að berjast um þessi 63 sæti sem í boði eru í Alþingishúsinu við Austurvöll. Og þegar ljóst er hverjir fá þessi 63 sæti sem til úthlutunar eru taka við blóðug slagsmál um hverjir fá að sitja í fínu leðurstólunum sitt hvoru megin við forseta þingsins.
Endalaus sætabarátta.
Ef mig langaði að vinna í Alþingishúsinu myndi ég sækja um starf kaffikonunnar - ég held að hún sé valdamesti einstaklingur landsins því hún hefur vellíðan þessara 63 í hendi sér.

|

19 október 2006

Okkar ástkæra og ylhýra

Það er vandmeðfarið blessað móðurmálið.
Ég er alltaf að fá auglýsingabæklinga í póstinum. Oftast flokka ég það strax hvað af póstinum ég tek með heim af pósthúsinu og hvað ekki. Auglýsingabæklingarnir verða yfirleitt eftir.
En af því að ég er í aðhaldsverkefninu Rannveig lætur eitthvað á móti sér þá hef ég einhverja ólýsanlega þörf fyrir að lesa auglýsingabækinga alveg spjaldanna á milli - nema Svenson, læt fyrrum barnakennara á Hallormsstað um að lesa hann.
Þetta gæti verið tilkomið af því að með því að lesa bæklingana vel og vandlega og láta mig langa í eitthvað þá hef ég það á tilfinningunni að átakið gangi betur með því að láta þetta allt, eða næstum allt, á móti mér.
Í dag fékk ég blað frá Intersport. Þar eru auglýstar "mjög góðar buxur á dömur úr teygjanlegu efni" - þetta gæti hentað mér - ég er úr mjög teygjanlegu efni. Eftir að ég hætti að reykja þyngdist ég um 8 kg án þess að húðin finndi fyrir því og nú í danska hef ég losnað við 5 til 6 kg.
Svo eru auglýstir "mjög góðir æfingaskór fyrir dömur og herra úr leðri". Ooojjjj bara. Ég hef aðeins verið að spjalla um það við hann þarna í efra hvort hann ætti á lausu draumaprins handa mér, einhvern sem væri ekki mjög upptekinn í öðrum verkefnum (þetta er ekki sos neyðarkall). Ég bara vona að ef hann verður við ósk minni að hann sendi mér einhvern þakinn skinni en ekki leðri. Mig langar ekkert í einhvern sem búið er að súta.
En svo er það rúsínan í pylsuendanum. Það eru æfingahjól með segli. Þetta er náttúrulega toppurinn - ef ég er löt en neyðist til að hjóla þá bara dreg ég seglið upp og hjóla beggja skauta byr. Gæti kannski orðið hausverkur að komast heim aftur.

|

18 október 2006

Háskaferð

Nagladekk eða ekki nagladekk, þar liggur vafinn.
Það er slyddurigning á Egilsstöðum núna. Á Öxi er blindbylur og byrjað að draga í skafla.
Ástæðan fyrir því að ég veit hvernig veður og færð eru á Öxi er að ég var að koma heim frá Höfn. Það kostaði mig mikil heilabrot í gær hvort ég ætti að setja nagladekkin undir Súbarúinn eða taka sénsinn og fara suður eftir á sumardekkjunum. Þið vitið hvernig þetta er, það kemur eitt hausthret og maður lætur skipta um dekk og svo er auð jörð fram að jólum.
Ákvað að láta dekkjaskiptin bíða og ég hálf sá eftir því á leiðinni yfir Öxi því það var líka hálka þar á köflum, fyrir utan að maður átti fullt í fangi með það sums staðar að sjá hvar vegurinn lægi, ekki síst þar sem vegagerðamenn voru búnir að fjarlægja allar stikur vegna framkvæmda.
En Súbarú er góður bíll og þetta hafðist allt.
Nú hef ég unnið mér fyrir extra góðu freyðibaði.

|

17 október 2006

Aumingja kisa

Ég er heppin að hún Kolgríma mín varð ekki úti í nótt.
Þegar ég fór í háttinn í gærkvöldi þá mundi ég ekkert eftir því að kisa hafði stungið sér út fyrr um kvöldið.
Svo bara sofna ég sætt og vært og veit ekki af mér fyrr en um kl. 3.30 en þá finnst mér eins og ég heyri mjög ámátlegt "mjááá, mjááá" fyrir utan gluggann minn.
Ég snarast fram og hugsa hvort það geti verið að kisa sé úti. Opna út í garð og kalla lágt "kis, kis" - vildi ekki vekja nágrannana. En það kom engin kisa svo ég hugsaði að mér hefði misheyrst, lokaði dyrunum og ætlaði aftur upp í ból.
Þá heyri ég kallað í örvæntingu "mjáá, mjáá, mjá" og ég fór aftur út í dyr og kom þá ekki Kolgríma mín á stökki inn. Hún mjálmaði og mjálmaði og fylgdi mér inn í herbergi, hentist upp í rúm og þegar ég var búin að koma mér fyrir lagðist hún ofan á mig og vildi aldeilis láta strjúka sinn silkimjúka og ískalda feld. Á meðan malaði hún svo undir tók í veggjunum.
Aumingja kisa mín.

|

16 október 2006

Nýr bloggari

Ég vil vekja athygli á nýjum bloggara, Konna kynlega - sjá krækju.
Eins og nærri má geta er hér um dulnefni að ræða - það gefur engin móðir barni sínu þetta nafn.
Sá sem hér stýrir penna, eða öllu heldur leikur á lyklaborð, er einn af þessum fyrrum myndarlegu Vallamönnum. Hann fékk meira að segja ótiltekinn fjölda atkvæða í kosningu Rásar 2 um kynþokkafyllst karlmanninn og það ár fékk Guðjón tónlistarkennari líka atkvæði. En það var við ramman reip að draga því Logi Bergmann bara sigur úr bítum.
Þessi tveir, Guðjón og Konni, fóru ásamt Onna sem hlaut titilinn Kyntröll Vallamanna á síðasta þorrablóti, suður til Reykjavíkur og hugðust meika það í meira fjölmenni. En hvað skeður, þeir bara hverfa í fjöldann - aldrei sé ég þá alla vega á síðum Séð og heyrt. Þessi þrír vitringar sem konur á Héraði dáðu og dýrkuðu - hvað sem Sif segir.
Ítalska fyrirtækið Impregilo hefur reynt að bæta okkur konum á Héraði skaðann með því að flytja inn sýnishorn af karlmönnum alls staðar að úr veröldinni. Það er ekki þar fyrir að það er svo sem eitt og eitt eigulegt eintak innan um. En "gæti ég fengið að klípa í eitthvað íslenskt, eitthvað gamalt og gott" því "...íslenskir karlmenn eru sko alls engar gungur", svo ég grípi til og staðfæri dægurlagatexta.
En Konni - velkominn í heim bloggara.

|

13 október 2006

Í fréttum er þetta helst...

... Nína vinkona hefur verið slegin blindu af sjaldgæfum sjúkdómi, sbr. færslu 3. okt sl.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1228528
En hún er hörkudugleg, ég hef mikla trú á henni og óska henni góðrar ferðar á þing.
Af mér er það að frétta að í gær fór Ástrún með mig út að ganga í fyrsta skipti í haust. Við fórum í stafagöngu eins og við höfum gert á fimmtudögum undanfarin misseri.
Í dag fór ég út að hjóla. Erindið var nú eiginlega fyrst og fremst að fara í apótekið og kaup mér freyðibað því freyðibað hefur í mínum huga verið hámark munaðar og sælulífs frá því ég var lítil stelpa og dáðist að Badidas-auglýsingunum í sjónvarpinu.
Í dag var tekin ákvörðun á mínu heimili um hvað verður í jólamatinn. Það verður að sýna fyrirhyggju. Þeir væntanlegu jólagestir sem hafa fengið að heyra matseðilinn lýstu ánægju sinn og staðfestu komu sína.
Svo pantaði ég mér Lazyboy stól sem verður alfarið húsbóndastóll hér á þessu heimili og ég fæ að nota hann ef Kolgríma er ekki í honum. Ég er farin að sjá fyrir mér að kannski horfi ég endrum og sinnum á sjónvarp í framtíðinni.

|

11 október 2006

Föngulegur hópur

Það voru aldeilis myndarlegir karlmenn sem ég hafði fyrir augunum í gær.
Ég var hreint ekki ein um þá skoðun. Konur spurðu mig sérstaklega um hvað allir þessir borðalögðu og glæsilegu menn væru að gera á Lyngásnum og þeir verða örugglega aðal umræðuefnið í saumaklúbbunum hér á Egilsstöðum næstu daga.
En sem sagt, yngri tengdasonurinn kom með vinnufélagana í Landhelgisgæslunni austur í gær. Tilefnið voru meintar ólöglegar veiðar Færeyinga í Rósagarðinum og ég segi bara ekki annað eftir gærdaginn en að það ætti nú að taka fastar á þessu flandri Færeyinga í íslenskri lögsögu. Dragið þá alla fyrir dóm. Ég get vel hugsað mér fleiri svona daga í vinnunni og svo hef ég heyrt að skerpikjötsuppskeran hafi hvort sem er brugðist í Færeyjum þetta árið svo við höfum svo sem ekkert til frænda vorra Færeyinga að sækja.
Fyrir Nínu og hinar stelpurnar:
http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=1&module_id=220&element_id=3140

|

05 október 2006

Ég er svo örg ...

... út í bankann minn.

Ég er að gera svo margar uppgötvanir þessa dagana, það er eins og ég hafi bara svifið um áhyggjulaus á mjúku skýi þar sem ekkert getur komið mér úr jafnvægi.

Hver er eiginlega stefna bankanna í landinu? Hverjir eru viðskiptavinir bankanna? Eru viðskiptavinirnir ekki venjulegt fólk sem vill fá venjulega bankaþjónustu hjá starfsfólki sem býr yfir þekkingu og reynslu. Starfsfólki sem þekkir viðskiptavinina - ég man ekki betur en að fyrir nokkrum árum væri mikið gert út á "persónulega þjónustu bankanna" og það er einmitt það sem útibúið okkar hér á Egilsstöðum hefur til skamms tíma verið þekkt fyrir.

Svandís Rafnsdóttir - 57 ára - vikið úr starfi hjá Kb banka Egilsstöðum í síðustu viku og Anna Einarsdóttir - 55 ára - einnig vikið úr starfi hjá Kb banka Egilsstöðum í síðustu viku, eftir 23 ára starf í bankanum. Þakka ykkur kærlega fyrir áralanga þjónustu við mig. Takk fyrir greiðvikni, góð ráð, góð úrræði og lipra þjónustulund.

|

04 október 2006

Þættinum hefur borist bréf ...

... frá Kára kynfræðingi.
Ekki það að Lata Gréta eigi að verða útibú frá Bleiku og bláu, en ég vil vekja athygli á vandræðum sem Kári kynfræðingur lenti í og skrifar um í kommentum við blogg frá 27. sept. sl.

|

03 október 2006

Hún á afmæli í dag ...

...hún á afmæli í dag.

Lambið mitt er tuttugu og eins árs í dag. Til hamingju keisari, spergill og snúður.

Það hefur mjög margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast.

T.d. varð hann Maggi Garpseigandi afi í dag, fékk 14 marka sonarson - til hamingju með það piltar.

Svo þetta af opinberum vettvangi:

Árni Johnsen býður sig fram til Alþingis. Ja, þetta kemur auðvitað flatt upp á mann, ég átti satt að segja bara alls ekki von á þessu.

Svo sá ég í Mogganum fyrir helgi þessa fyrirsögn: Sleginn blindu af völdum sjaldgæfs sjúkdóms. Síðan millifyrirsögn; Sækist eftir 4. - 5. sæti á lista Samfylkingarinnar á Suðurlandi.

Ótrúlegt hvað ég hef verið upplýst um margt á stuttum tíma. Loksins hef ég skilið af hverju fangelsið var sett niður að Litla Hrauni, Sunnlendingar eru miklu umburðarlyndari gagnvart brotamönnum en aðrir landsmenn. Svo hef ég líka fengið skýringu á því hvað fær menn til að kjósa Samfylkinguna, það er sjaldgæfur blindusjúkdómur sem veldur því.

Helgin var samfelld gleði og djamm. Ég er enn þreytt eftir alla þessu stífu skemmtun. Til að æra ekki óstöðugan, þá er hér mjög hrá frásögn: Út að borað, leikhús - Mein Kampf, sofa, vakna, bröns, dekur á Mecca Spa, búðaráp, opnun málverkasýningar á Solon Islandus, grillað, etið, kjaftað, helgið, partý lengst inn í Kópavogi, Players - jómfrúarferð, langt í næstu. Sofið, vaknað, heimsókn til Perlu og hvolpanna - algerar dúllur, heimsókn til Hrafnkels A., heimsókn á Fálkagötu, bæjarráp með Mirek og Gunnhildi, lambasteik með Siggu, videókvöld - Frends with money - óhemju langdregin mynd og svo bara allt í einu búin. Urðum að spóla til baka því við tókum ekki eftir því að myndinni lauk. Sofa, vakna, bæjarrand með Önnu Berglind, heimsókn til Gunnars og Guðnýjar, niður á bryggju, skoða Tý og heilsa Nonna, út á flugvöll og heim.

Flugið heim var ólýsanlegt. Það var svo bjart og fallegt að horfa yfir Vatnajökul og svo að koma yfir austfirska hálendið - sorglegt að sjá vísi að Hálslóni. Gaman að sjá Snæfell í allri sinni dýrð, Fljótsdalsheiðina, Fljótsdalshérð og Austfjarðafjallgarðinn í sínum fegursta haustbúningi.

Það var gott að búa í Kópavogi, en ég held það sé enn betra að búa á Héraði.

|