30 nóvember 2006

30. nóvember

Í dag hefði hann Finnur minn orðið fimmtugur.

Fyrir 10 árum var mikið húllum hæ á Strönd, mikið drukkið af Tequila, margar sögur sagðar og mikið hlegið.
Þá vissum við ekki hvað framundan var.
En lífið heldur áfram og í kvöld ætla systkini mín sem búsett eru hér fyrir austan, mágkonur, mágur og svilkona að kíkja til mín og þó það verði ekki drukkið Tequila þá vona ég að það verði hlegið og rifjaðar upp skemmtilegar sögur.

|

28 nóvember 2006

Hvernig eru þessir vinir mínir???

Alla vegan eru þeir ekki umhyggjusamir kattavinir.
Gréta er sú eina sem tjáði sig eitthvað varðandi örlög Kárahnjúkakattanna, en hún lætur sig líka örlög dýra varða. Alla vega núna undanfarið þegar hún hefur gengið til rjúpna og hefur þar að auki fengið leyfi til að stunda hreindýraveiðar.
Svo er líka spurning hvernig ég er að verða. Ég las einhvers konar blaðagrein í gær í Fréttablaðinu um hver væru mestu krummaskuð á landinu. Fyrst fauk í mig út af þessum cappuccino-sötrandi miðbæjarrottum sem maður veit ekki einu sinni hvort hafa komið austur fyrir Kringlumýrarbraut. Hvaða vit þykist þetta fólk (sem ég hef nú reyndar fæst heyrt nefnt) hafa til að lýsa því yfir að einhverjir tilteknir staðir séu aumari nástaðir en aðrir.
Ég bjó nokkur ár í Þingholtunum og mér sýndist það sem lagt var til grundvallar í vali á krummaskuði eiga ágætlega við um minningar mínar frá þeim árum þegar ég bjó í þessu ágæta hverfi í 101.
Jæja, en svo þegar ég vaknaði í morgun var mér slétt sama um þetta.

|

26 nóvember 2006

Hvern langar í kött?

Er ekki einhver þarna sem lætur sig dreyma um kött?
Það skal strax tekið fram að hér er ekki um hana Kolgrímu mína að ræða, hún verður áfram húsbóndi á okkar heimili.
Ég var úti á Eiðum í dag þar sem við klúbbsysturnar héldum kaffisamsæti fyrir erlendu konurnar frá Kárahnjúkum. Þetta var afar ljúf og góð stund sem við áttum þarna, konur alls staðar að úr veröldinni. Það var töluð franska, ítalska, enska og íslenska, mjög alþjóðlegt.
Við höfum boðið konunum til okkar og þær boðið okkur til sín undanfarin ár og það hefur verið virkilega skemmtilegt að kynnast þeim.
Ég átti reyndar svolítið bágt í upphafi því ég hef alla tíð verið á móti þessum framkvæmdum en ég tók þann pól í hæðina að láta það ekki koma niður á þessu tækifæri til að kynnast skemmtilegum konum.
En nú fer dvöl þeirra á fjöllum að ljúka og þá kemur smá babb í bátinn. Það eru nefnilega nokkrir kettir þarna sem nú verða heimilislausir.
Hvernig sem á því stóð fór ein kona að segja mér frá vandræðum sem ein ung ítölsk kona ætti í. Ég er sennilega svona mörkuð af kattaást. Sú ítalska á nefnilega læðu sem er u.þ.b. árs gömul og hún er búin að eignast tvo yndislega sæta kettlinga sem nú eru tveggja og hálfs mánaða. Það gerðist ekkert kraftaverk á fjöllum, það er einn fress þarna uppfrá sem útskýrir hvernig komið er.
Nema hvað, læðuna og kettlingana vantar íslenskt heimili eftir áramót. Reyndar ætla ég að fá annan kettlinginn, voða sæta gulbröndótta læðu. Ég sá myndir af þeim, algerar dúllur. Það verður fínt fyrir Kolgrímu að fá félagsskap.
Ég á von á myndum af kisunum í tölvupósti þannig að ef einhver hefur áhuga á að fá sér fjallakött þá vinsamlegast látið mig vita.

|

25 nóvember 2006

Jólalögin

Nú er jólatónlistin farin að koma í verslanir.
Ég mæli með að þið farið á baggalutur.is og hlustið á grenndarkynningu á nýja jóladiskinum þeirra. Ég er sko á leiðinni í BT að fjárfesta í einum.
Í grenndarkynningunni eru ýmsir þjóðþekktir Íslendingar að kynna Baggalútslögin og Matti Jokk og Laxi eru flottir að kynna mitt allra mesta uppáhalds jólalag, ja náttúrulega fyrir utan Heims um ból og Nóttin var svo ágæt ein.

|

24 nóvember 2006

Flugdólgar

Ég kann bara eitt ráð varðandi flugdólga.
Fleygja þeim út svo hægt sé að fljúga í friði.
Hér á árum áður var ég svo hræðilega flughrædd að ég var með magapínu í marga daga fyrir flug. Ég var meira að segja svo hrædd að ég átti það til að missa matarlystina og það vita þeir sem þekkja mig að gerist ekki nema ég standi við dauðans dyr. Ég var sko ekki að þvælast að óþörfu milli landshluta.
Þegar við bjuggum enn fyrir sunnan og maður var að fara heim í frí til pabba og mömmu þá varð ég að gæta þess að kaupa nóg af nammi og nýju dóti til að halda frumburðinum uppteknum þessa klukkustund sem flug milli Reykjavíkur og Egilsstaða tekur því ég var gersamlega ófær um að hugsa um þessa elsku á leiðinni. Það voru alltaf jólin hjá Gunnhildi þegar við lögðum af stað í flug en ég var græn í framan af skelfingu.
Einu sinni vorum við að fara hér á milli og þá sátu tveir blindfullir karlar hinum megin við ganginn, þeir reyktu og drukku alla leiðina og ég var skíthrædd um að þeir myndu kveikja í vélinni, ekki hitta með sígaretturnar í þessa obbolitlu öskubakka.
Til að gera mér ferðina enn ánægjulegri þá hélst athygli Gunnhildar ekki við nammið og nýja dótið nema helminginn af leiðinni og þá vildi mín fá að skoða sig um og kíkja hvar klósettið væri. Ég bað hana að vera nú góða og sitja kjurra því ég vildi bara hafa hana hjá mér. Þá lifnaði yfir þessum tveimur byttum og þeir byrjuðu að segja við mig að ég væri leiðinleg kerling að leyfa barninu ekki að valsa um vélina og að það væri svo gaman fyrir krakkann að skoða sig um.
Já, það er sem ég segi, flugdólgum á að fleygja út svo við hin höfum frið á flugi.

|

23 nóvember 2006

Gömul kerling og kulvís köttur

Eitthvað fer þessi aldur illa í mig.
Ég hef verið alger drusla það sem af er 49. aldursárinu. Ég hef meira að segja ekki mætt í vinnuna ótilneydd.
Ég þurfti að hitta lækni og ekki hefur heilsugæslustarfsfólkinu litist vel á mig því í gær fékk ég tíma á flýtivakt hjá Ólafi sem er með sérmenntunina heila- og taugaskurðlæknir. Pétur læknir hringdi til mín í símatíma, ég sagði honum að ég ætti tíma á flýtivaktinni þannig að erindið yrði afgreitt þar, en þakkaði honum fyrir að hringja. Svo til að kóróna allt var ég líka bókuð hjá doktor Hrönn. Ég sá Óttari bregða fyrir og Stefán heilsaði mér þegar hann gekk fram hjá biðstofunni þannig að ég held ég hafi bara séð alla lækna Egilsstaða í gær. Það er ýmist í ökla eða eyra þegar maður þarfnast læknisaðstoðar. Ég sá meira að segja einn húð og kyn á vappi, en það var nú bara aðkomulæknir og örugglega bara að sinna aðkomufólki, eins og menn myndu segja á Akureyri.
Kolgríma hættir sér ekki langt út í þetta vetrarríki sem hér er. Hún ver löngum stundum í gluggakistunum og horfir yfir snjóbreiðuna, bregður sér sem snöggvast út en þegar hún heyrir að ég er að fara að loka þá kemur hún mjálmandi á hendingskasti og vill ekki vera lengur úti.
Svona gengur nú lífið hjá okkur kisu þessa dagana.

|

17 nóvember 2006

Seytjándi ber

Í dag er seytjándi ber.
Það vita mínir nánustu hvað þýðir, það er sem sagt afmælisdagurinn minn. 48 ár síðan ég kom í heiminn á Landspítalanum í Reykjavík. Þegar ég var lítið stelpuskott í Kópavoginum þá sem sagt sagðist ég eiga afmæli seytjánda ber.
En hvað um það. Ég er búin að fá svo margar símhringingar, tölvupóstsendingar, afmælissönginn tvisvar, knús, kossa, kort, blóm og gjafir að ég velti því fyrir mér hvernig þetta verður eiginlega þegar ég verð fimmtug.
Kannski man enginn eftir mér þá???

|

13 nóvember 2006

Prófkjör

Ég hef orðið mjög litla trú á prófkjöri.
Mér þykir með eindæmum þetta prófkjör Samfylkingarinnar og svo skiptir hvert atkvæði ekki miklu þegar kjörkassi með 87 atkvæðum týnist og það gerir ekkert til þótt þau atkvæði hafi ekki verið með. Þetta virðist hafa verið svona skemmtilegt þversnið af töldum atkvæðum.
Það sem gerir samt útslagið er að Árni Johnsen skuli aftur vera á leið inn á þing.
Ég gef ekki mikið fyrir þetta jarm um að hann sé búinn að greiða skuld sína við samfélagið. Það er að vísu rétt að hann var tekinn úr umferð í tvö ár, en mér vitanlega hefur maðurinn aldrei sýnt svo mikið sem vott af iðrun vegna gjörða sinna. Meðan hann sér ekki neitt rangt við það sem hann gerði er hann í mínum huga alveg jafn siðblindur og daginn sem hann var handtekinn. Það hefur ekkert breyst síðan þá.
Honum fannst hann ekki hafa gert neitt af sér þegar hann mætti í dóm og ég hef hvergi séð haft eftir honum að það hafi kviknað á perunni hjá honum á Kvíabryggju.
Afsakiði en kannski hefur eitthvað farið framhjá mér.
Þannig að kosningabaráttan í vor verður á þann veg að Samfylkingarmenn þurfa að svara fyrir hvers vegna konur eiga ekki upp á pallborðið í flokknum og Sjálfstæðismenn þurfa að svara fyrir hvað í ósköpunum þeir ætli að gera við Árna. Frjálslyndir mála sig út í horn í þjóðarrembu.
Vinstri grænir virðast enn sem komið er geta einbeitt sér að einhverjum málefnum.
Kannski að þetta verði Framsókn til lífs.

|

11 nóvember 2006

Að höggva í eldinn

Hann er ansi napur í dag.
Þurrir vetrarvindar blása ofan af hálendinu en sem betur fer er Dyngjufjallasandurinn frosinn og fjörumyndun er ekki hafin í Hálslóni, annars væri ólíft á Héraði í dag.
Mér fannst hann vera að lygna svo ég brá mér út fyrir hús að höggva í eldinn. Lét mig dreyma um notalegt kvöld, eld í arni og skítakulda úti. Við Kolgríma og helgargestirnir okkar Garpur og Berglind Rós í huggulegheitum á laugardagskvöldi.
Viðarhöggið fórst mér álíka vel úr hendi og Sigurði Blöndal forðum daga, þegar hann var skógarvörður á Hallormsstað og var að kenna strákunum að högga með öxi á svo öruggan hátt að þeir myndu ekki slasa sig. Hann hjó upp undir ilina á sér og hefur ekki nokkrum manni tekist að leika þetta eftir.
Mér tókst hins vegar að troða flís undir nöglina á þumalfingri vinstri handar. Það er lán í óláni, eins og ég fann út fyrir rúmum tuttugu árum, að þessi fingur er óþarfur við vélritunarvinnu, sá eini sem hefur engu hlutverki að gegna á lyklaborðinu. Þetta uppgötvaði ég eftir að ég sneiddi væna flís úr fingri mínum í rabbarbaragarðinum á Hafursá.

|

09 nóvember 2006

Stjörnuspá

Ég þykist ekki trúa á stjörnuspá.
Samt les ég hana alltaf, er kát ef hún er góð en hálf leið ef hún er vond - það er þá sem ég trúi ekkert á hana. Eins er með veðurspána, ég tek ekki mark á henni ef hún er vond.
Stjörnuspáin mín í dag er svona: SPORÐDREKI 23. október - 21. nóvember Himintunglin draga viljastyrk sporðdrekans fram í dagsljósið. Sambandið á milli hugar og líkama er líka sterkara, sem gerir sporðdrekanum kleift að heila sjálfan sig, passa upp á vigtina eða koma í veg fyrir höfuðverk.
Ástæðan fyrir því að ég hef stjörnuspána mína hér í dag er sú að í morgun þegar ég steig á vigtina þá lá við að ég hoppaði hæð mína í loft upp, í "öllum" þeim herklæðum sem maður stígur upp á vigtina í. Ég á nefnilega bara eftir að losa mig við 800 grömm af öllum kílóunum sem ég hlóð utan á mig þegar ég hætti að reykja fyrir 8 mánuðum síðan.
Þökk sé þeim danska. Annars held ég að sá danski sé samsæri Extra blaðsins til að minnka umfang Íslendinga. Hvað ætli Íslendingar hafi rýrnað um mörg tonn síðan sá danski kom til sögunnar hér á landi?

|

07 nóvember 2006

Haustfjúk

Það var nokkuð hvasst um helgina.
Flestir hafa sjálfsagt tekið eftir því. Sem betur fer virðast ekki hafa orðið stórskaðar, alla vega ekki sem ég hef frétt af.
Kolgríma var ekki viss hvernig hún átti að taka þessu veðri, vildi vera á randi út og inn allan sunnudaginn þegar sem hvassast var hér hjá okkur.
Hún skemmti sér við að elta þurrt haustlaufið sem skrúfaðist upp í vindinum með tilheyrandi hljóðum.
Ég reyndi að kalla hana inn þegar verstu vindhviðurnar gengu yfir en hún mjálmaði bara á mig og hélt áfram að elta þessi stóru asparlauf.
Það góða við þetta hvassviðri er að nú eru laufin sem voru út um allt framan við húsið komin í snyrtilegan haug undir eldhúsgluggunum og ég þarf bara að fá mér stóran poka og skóflu og moka þessu upp - ef ég hef einhvern tíma lausa stund meðan bjart er.

|

03 nóvember 2006

Karlaheimur

Súbarúinn er greinilega hinn besti bíll.

Ég uppgötvaði það áðan að ég hef bara ekki þurft að fara á bílaverkstæðið mitt síðan fyrir síðustu jól. Ég átti erindi þangað í dag og það var kominn nýr starfsmaður. Þegar ég innti hann eftir því hvort hann væri nýbyrjaður á verkstæðinu sagði hann mér að hann væri búinn að vera þar í 7 mánuði. Sjö mánuði, ég verð greinilega að láta líta oftar á bílinn fyrir mig. Ég fer sko með hann á annan stað í olíu- og dekkjaskipti.

Þetta var nú ekki stór aðgerð sem þurfti að gera á Súbbanum, bara skipta um peru í öðru framljósinu, svo ég bara fór að skoða mig um í sýningarsalnum meðan ég beið - þetta er sko líka bílasala - það var einmitt þarna sem ég keypti Súbarúinn. Nema hvað allt í einu uppgötvaði ég að ég var stödd mitt í heimi karlmannsins. Nýir bílar, snjósleði, þægilegur sófi, sjónvarp í gangi og yfir þessu héngu margar krónur af hreindýrstörfum.

Ótrúleg veröld.

|