29 apríl 2007

Einstaka sinnum hvarflar að mér ...

... að ekkert sé að marka stjörnuspár.
En núna er ég þess fullviss að stjörnuspár eru alveg jafn marktækar og veðurspár, ef ekki bara marktækari.
Í dag er mín svona:
Sporðdreki: Þú ert ekki týpan sem neitar sér um hlutina. Þegar eitthvað gott er á boðstólnum, kemur "nei" aldrei upp í huga þinn. Nema eitthvað enn betra sé líka í boði. Skelltu þér á bæði.

|

27 apríl 2007

Samningar undirritaðir

Í gær voru nokkrir tímamótasamningar undirritaðir.
Sumir komust í fjölmiðla en aðrir ekki.
Það er auðvitað merkilegt að Íslendingar skyldu slíta konungssambandi við Dani til þess eins að skríða undir verndarvæng Norðmanna. Ég man ekki betur en að manni hafi verið kennt það í Íslandssögunni að Norðmenn væru skúrkar sem hefðu flæmt forfeður okkar vestur á bóginn.
Persónulega hefði ég viljað vera áfram í konungssambandi við Dani og sleppa því að reka míní-hirðina á Bessastöðum.
En hvað um það, það voru undirritaðir fleiri tímamótasamningar í gær, samningar sem varða mitt líf meira en þessir sem Valgerður var að undirrita, ég sem sagt undirritaði loksins kaupsamninga vegna núverandi íbúðarhúss og vegna draumahússins míns, Skógarkots. Og til að gera daginn enn ánægjulegri fékk ég að vita að það eru líkur á að ég fái húsið afhent um miðjan júlí.
Lífið er yndislegt, ég geri það sem ég vil og 26. apríl er hér með lýstur þjóðhátíðardagur Skógarkotsbúa.

|

25 apríl 2007

Gína

Ég er búin að finna nokkur leikföng frá því að ég var lítil.
Ekki það að hún Gína mín hefur aldrei verið týnd, en það er rauðhærð dúkka sem ég hef átt svo lengi sem ég man eftir. Hún þvældist með mér um allt þegar ég var krakki. Þó ég væri nú meira fyrir ævintýralega leiki með strákunum, sulla í drullupollunum í Kópavoginum, kanna nýbyggingar og fleira í þeim dúr, þá var það alltaf þannig að á sumrin breyttust leikirnir. Á sumrin fór maður af mölinni.
Við systur fórum með foreldrum okkar í sumarbústað fjölskyldunnar upp við Elliðavatn og þá var maður náttúrulega bara úti að leika sér alla daga, úti í móa eða að sigla á vatninu, en Gína fékk samt að vera með í sumarbústaðnum. Það má reyndar geta þess að þetta áður en búið var að uppgötva að lífið er stórhætturlegt og við sigldum björgunarvestislaus á bátnum fram og til baka á vatninu. Svo fór ég í sveitina austur á Borgarfjörð og þangað fór blessunin hún Gína ekki með mér.
Svo var alltaf einhver partur á hverju sumri sem fór í hálendisferðir með pabba, mömmu og Önnu systur og þá var nú svo sem ekki við neitt að vera nema að leika með Gínu, svo hún er búin að ferðast upp um fjöll og firnindi á Íslandi, enda sér á henni, t.d. augun svolítið skökk.
Ég hefði kannski frekar átt að láta dúkkuna heita Höllu af því að hún var svo mikið á fjöllum, en ég lét hana bara heita í höfuðið á mömmu.

|

24 apríl 2007

Innlánsdeildarbók

Ótrúlegustu hlutir koma upp í hendur mínar þessa dagana.
Í gær var það gamli, græni KRON sparibaukurinn minn sem ég hélt að væri löngu búinn að yfirgefa mig.
Ég man eftir að hafa verið að reyna að plokka hann upp með silfurtertuhnífnum hennar mömmu. Ég man að ég fann það út að ef ég lét hann falla úr góðri hæð á gólfið þá sprakk hann upp, peningarnir flóðu um gólfið og ég gat skotist og keypt mér apótekaralakkrís. Ég hef greinilega verið iðin að sprengja upp baukinn því með honum fylgir innlánsdeildarbók og skv. henni voru lagðar inn 81 króna og 75 aurar þann 22. október 1963 og rúmum tveimur árum seinna hef ég verið búin að öngla saman 127 krónum og 46 aurum sem eru lagðar inn 14. desember 1965. Þá var staðan á innlánsdeildarreikningi mínum í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis, höfðustóll og vextir, 216 krónur og 8 aurar. Þessar færslur eru handfærðar með nettri rithönd.
Það væri gaman að vita hvað hefði orðið um þetta fé? Því hefði örugglega verið betur varið í kaup á apótekaralakkrís en inn á þennan innlánsdeildarreikning.

|

21 apríl 2007

Garpur og gsm

Gemsinn minn hefur fundið sér nýtt hlutverk.
Ég keypti þennan netta síma af því að hann er svo dömulegur. Ég er bara ekki nógu mikil dama fyrir svona smátæki og núna er ég búin að missa hann svo oft út úr höndunum að hér eftir er bara hægt að nota hann sem vekjaraklukku.
Kannski ég fari að horfa eftir höggvörðum gsm fyrir skrifstofustúlkur.
Garpur er hjá okkur Kolgrímu í helgardvöl þar sem blöðrujeppaeigendur á Egilsstöðum eru að nota síðustu snjóalög til að leika sér á fjöllum.
Aumingja Garpur slasaðis sl. þriðjudag og er með annað lærið rakað og samansaumað. Þetta er heljarinnar sár, svona eins og ef ég væri með 25 cm skurð á öðru lærinu.
Garpur má ekki fara út, enda er ausandi rigning. Honum finnst notalegt að breiða úr sér í stofuglugganum og horfa á lífið í garðinum, sem er reyndar ekki mikið í þessari rigningu. Svo kemur Kolgríma og nusar af honum og horfir á hann samúðarfullu augnaráði, þannig að líðan Garps er eftir atvikum góð.

|

19 apríl 2007

Gleðilegt sumar

Sumar heilsar okkur Héraðsmönnum fallega.
Það er reyndar hvít jörð, en sólin skín og veðrið er stillt og fallegt.
Við hljótum að fá gott sumar ef marka má þá gömlu trú að ef sumar og vetur frýs saman verði sumarið gott. Ekki verri veðurspá en hver önnur.
Pökkunarstarfið gengur ótrúlega vel.
Það er alltaf verið að bjóða mér hjálp en ég vil bara fara ein og sjálf í gegnum þetta dót. Ég þarf hins vegar á hjálp að halda þegar kemur að því að bera dótið út í gám.
Ég er að fara lið fyrir lið í gegnum líf mit og það rifjast upp bæði góðar og sárar minningar þegar ég handleik alla þessa hluti og allan þennan pappír. Ég flokka hvað af þessu á erindi inn í næsta kafla lífs míns og þó ég viti að ég gæti verið duglegri að skilja við fortíðina hef ég samt sem áður verið nokkuð seig í þessu starfi.
En svo koma líka gullmolar upp í hendurnar eins og teikningar og bréf sem dæturnar hafa verið að skrifa strax og þær voru búnar að læra að draga til stafs.

|

18 apríl 2007

Kisa mín

Hún Kolgríma mín er eðalköttur.
Hef ég nokkurn tíma sagt ykkur það áður?
Það er svo notalegt að koma heim og hún kemur skokkandi fram til að heilsa mér.
Að sjá hana standa pena og prúða við búrdyrnar og bíða þess að ég klári að setja matinn á dallana hennar.
Að sjá hana standa í stofuglugganum og virða fyrir sér lífið úti í garði og stóra fressköttinn sem er búinn að vera þar á sveimi síðustu vikurnar.
Þegar hún vill kíkja út, stendur í dyrunum og reynir að gera það upp við sig hvort hún eigi að vera úti eða inni, sjá hana nusa út í loftið eins og hún sé að athuga hvaða kettir eru í nágrenninu.
Þegar hún fer út, snýr sér við og mjálmar til mín eins og hún sé að segja mér að hún ætli ekki að vera lengi.
Þegar hún fer á stökki út í sólina.
Þegar hún vill koma inn og stendur við garðdyrnar og bíður eftir að ég taki eftir henni, ef hana lengir eftir að komast inn lætur hún heyrast í hálsbjöllunum, en ef henni er kalt þá mjálmar hún.
Þegar ég bý um rúmið mitt á morgnanna og hún vill leggjast ofan á sængina og fá rúmteppið yfir sig, fer annað hvort að leika sér þarna eða liggur bara og malar.
Þegar hún eltir mig á klósettið því við stelpurnar förum saman á snyrtinguna.
Núna þegar heimilið er á öðrum endanum er mikið rannsóknarefni hér fyrir kisu. Hún þarf að hoppa ofan í tóma kassa, ofan í hálffulla kassa og skoða allt sem ég er að fara að pakka.
Þegar ég var búin að koma öllum fötunum á borðstofuborðið og var að flokka þau, þá vissi ég ekki fyrr en Kolgríma var komin í gömlu peysufötin hennar ömmu og búin að hnoða þeim niður á gólf.
Og svo er það afskaplega notalegt á kvöldin þegar kisa verður vör við að ég er að fara í háttinn að heyra hana koma tríttlandi, stökkva upp í rúm og koma sér vel fyrir hjá mér.
Já, hún Kolgríma mín er eðalköttur.

|

15 apríl 2007

Pakköld

Enn geysar pakköld á Reynivöllum.
Gréta Aðalsteins sakar mig um að rísa ekki undir nafni, Lata Gréta í bókinni hafi farið seint á fætur en ekki kl. 8 og alls ekki um helgar.
En ef þetta dót mitt á að hverfa úr húsinu fyrir afhendingu þá er eins gott að taka daginn snemma.
Ég bauð Grétu til mín í kaffi í morgun, hún ætlaði að koma hjólandi. Þegar ég fór að undirbúa kaffigerð þá sá ég að kaffilaust var í kotinu og þar sem Gréta þurfti að hjóla yfir Egilsstaðanesið taldi ég mig hafa nægan tíma og skaust í söluskálann.
Þar er nú frekar lítið og lélegt kaffiúrval en ég greip þarna skásta pakkann úr hillunni, grænan Gevalia. Þegar kom að því að borga þá datt nú af mér andlitið, ég vissi ekki að kaffi væri svona askoti dýrt. Ég var eitthvað að mæðast um þetta við Eðvald afgreiðslumann og hann vildi meina að best væri að hafa samband við Grétu og segja henni að vera ekkert að koma, það væru breytar forsendur.
Svona fer fyrir íslenskri húsmóður sem tínir bara það sem hana vantar í innkaupakörfuna, maður missir alveg tengsl við verðmiðana, enda kann ég ekki að lesa úr þessum strikamerkjum.
Gréta sat á þvottahúströppunum þegar ég kom heim með kaffipakkann og svo var náttúrulega slúðrað yfir kaffibollum. Verst að Gréta skyldi koma á hjóli, annars hefði ég geta losað mig við mun meira dót en kemst í eina litla hjólakörfu.
Ef þið ætlið að kíka í kaffi til mín, endilega komið þið á rúmgóðum bíl.

|

12 apríl 2007

Lata Gréta á hraðferð

Það má segja að ég hafi farið í snöggan Hafnartúr í gær.
Ferðin tók allt í allt frekar fáa klukkutíma. Ég var ein á ferð og fór Öxi. Ég var alveg eldsnögg niður í Berufjörð og var með skemmtilega tónlist að hlusta á. Stoppaði í botni Berufjarðar, dró upp kaffibrúsann, horfði á spegilsléttan sjóinn, tjalda og aðra fugla í flæðarmálinu. Gaman að sjá farfuglana. Svo bara brunaði ég áfram og fór frekar greitt, ég ætla ekki að nefna neinar tölur þar sem ég þekki löggu sem ég veit að les bloggið. Það var óvenju mikið grjót í Þvottárskriðum og ég sveigði fimlega fram hjá því og líka grjótinu í Hvalnesskriðum. Nema hvað, það var kominn svona dálítill formúlufílingur í mig í Lóninu enda var ég að hlusta á Megas syngja við trommuundirleik uppáhalds trommuleikara míns, Sigtryggs Baldurssonar. Hreinn snillingur á trommum. Svo þar sem ég er farin að lifa mig virkilega inn í aksturinn og sé að ég er að setja hraðamet á leiðinni Egilsstaðir, Höfn, þá er ég bara stoppuð. Ekki af löggunni sem betur fer, heldur einhverjum kvikmyndatökumönnum sem voru að taka upp Porshe auglýsingu. Mér finnst nú að ég hafi sýnt svo mikla aksturshæfileika að ég hefði átt að fá hlutverk í auglýsingunni. Ég spjallaði smá við strákinn sem stoppaði mig meðan ég beið eftir að kvikmyndatökunni lyki og hann fræddi mig á að einn svona Porshe kostar 30 til 40 millur. Já, ætti maður að fá sér einn??? Nei, þetta eru of margar millur fyrir of lítið notagildi.
Súbarúinn er náttúrúrulega forugur upp á topp eftir þetta ferðalag og ég ætlaði á þvottaplanið í dag þó ég nennti því engan veginn. Veðurguðirnir eru mér hliðhollir og hafa stinningskalda þannig að það fer engin heilvita manneskja að standa með þvottakúst úti í þessum strekkingi.

|

07 apríl 2007

Gersemar

Það getur verið gaman að pakka dótinu sínu.
Eitt og annað skemmtilegt kemur í ljós. Ég var t.d. að finna skrifbók sem örverpið mitt átti í 6 ára bekk, bókina sem m.a. inniheldur hina ógleymanlegu ferðalýsingu Noregsferðin.
Það eru margar skemmtilegar sögur í þessari bók, frásögn úr afmæli Selmu, saga um sorgmætt páskaegg o.fl.
Hér er ein saga, birt stafrétt, án leyfis höfundar.
Fyrst er teikning af manni (sem líkist engissprettu) að fara upp stiga en efst er kona sem situr við borð.
Prinnsesan
Þetta er maður. Hann á að frelsa prinsesu en stigin sem hann á að fara upp er svo háll að hann komst aldrei upp. Hann loksins kemst hann upp og náði prinsessunni svo fór hann með hana heim til sín og þau lifðu til æfiloka. Sögulok.
Gullkorn dagsins á dagatalinu mínu: Lífið er eins og rjómaísinn. Njóttu þess á meðan þú getur áður en það rennur út.

En svo má líka segja að rjómaísinn er eins og lífið, bestur á góðviðrisdögum.

|

06 apríl 2007

Erlingur afabróðir

Mér hefur mikið orðið hugsað til hans Erlings Filuppssonar.
Mér þótti afskaplega vænt um hann þegar ég var lítil og kallaði hann alltaf Karlinn minn. Hann kom með okkur austur að Núpsstað að heimsækja Hannes og hans fjölskyldu. Það voru farnar grasaferðir og svo kom hann auðvitað til okkar á Neðstutröðina.
Einu sinni sýndi hann mér ofan í seðlaveskið sitt og ég hélt eftir það að hann væri ríkasti maður í heimi. Ég man ekki betur en 500 krónu seðlarnir hafi verið brúnir og fyrir mér sem litlum krakka voru þetta óþrjótandi auðæfi sem við mér blöstu. Pabbi átti bara litla skrifblokk sem hann notaði þegar eitthvað var keypt.
En hvað um það. Ég var alveg miður mín um daginn þegar ég kom frá lækninum og sá fyrir mér að ég þyrfti að sækja um örorkubætur fljótlega. En læknirinn ráðlagði mér að ber illalyktandi hitakrem samviskusamlega tvisvar á sólarhring á þessa aumu liði. Kremið fengist í apótekinu.
Ástæðan fyrir því að þetta minnir mig á Erling er að hann bjó til ógeðslegt kremsull sem kallaðist gigtarmakstur og í var salmíak. Þetta var borið á auma liði og gerði mikið gagn.
Ég þarf að athuga hvort hann Gissur bróðir minn kann ekki að búa til gigtarmakstur, alla vega kunni mamma það.
Áður fyrr þótti læknum ekki mikið til grasalækna koma svo mér finnst þetta svolítið spaugilegt, því satt að segja er ég orðin nokkuð góð í handleggnum og hann dugar mjög vel í pökkunarstarfinu.

|

04 apríl 2007

Að fleygja bókum...

... eru nánast föðurlandssvik í mínum huga.
Ég er að pakka og pakka. Gengur samt rosalega hægt því ég þarf að velta fyrir mér bókunum, á ég að eiga þessa bók eða á ég að henda henni? Svo þarf ég að skrásetja það sem fer ofan í kassana því að um leið og ég er búin að loka kassa er ég búin að gleyma hvað í honum er.
Núna eru bækur sem á að geyma búnar að fylla 14 kassa. Bækur sem á að henda eru þrjár. En það á eftir að fjölga á báðum stöðum því það er töluvert langt í að helmingurinn af bókunum sé frágenginn.
Svo ég mæðist nú smávegis þá er ég bara með eina og hálfa hendi virka vegna festumeina og tennisolnboga á vinstri. Ég var svolítið slæm í handleggnum og fór til læknis og við að heyra hvernig komið er fyrir vinstri handleggnum þá versnaði líðan mín um allan helming.
Ef það er einhver sem les þetta og hefur ekki fundið sér neitt skemmtilegt að gera í páskafríinu þá er hann/hún velkomin í pökkunarstarf hjá mér.
Ég verð reyndar ekki heima á föstudaginn langa, þá ætla ég að taka þátt í Passíusálmalestri á Skriðuklaustri, í tengslum við sýningu á verkum Barböru Árnason.

|

03 apríl 2007

Hún á afmæli í dag

Prímadonnan og húsbóndinn á Reynivöllunum.
Lady Kolgríma Högnadóttir er tveggja ára í dag.
Sissa mágkona á líka afmæli, en hún er eitthvað aðeins meira en tvævetra.
Óska þeim báðum til hamingju með daginn. Ég veit ekki hvers Sissa óskar í tilefni dagsins en ég veit að Kolgríma fær ekkert betra en soðinn þorsk og hann verður á gólf borinn fyrir hana í kvöld.

|

02 apríl 2007

Lata Gréta gerist landkönnuður

Alltaf gaman að koma á framandi slóðir.
Maður er rétt kominn heim úr jómfrúarferðinni á sólarstrendur. Mætti í vinnuna mína í morgun og hvað haldið þið???
Yfirmaðurinn minn er búinn að skrá mig í ferð til Noregs í haust, bara heila Oslóarferð.
Minnir mig á ritgerð sem örverpið mitt skrifaði þegar hún var í sex ára bekk. Ritgerðin hét því fróma nafni Noregsferðin og var einhvern veginn á þessa leið: Daginn sem Gunnhildur fór til Noregs þá fórum við pabbi í Gunnlaugsstaði. Svo fórum við heim og spiluðum Lönguvitleysu. Svo fórum við í Úlfsstaði. Svo fórum við heim og héldum áfram að spila Lönguvitleysu.
Mjög skemmtileg ferðasaga.
Nema hvað, ég hef aldrei verið svo fræg að koma til Noregs, ekki eins og Gunnhildur. Kannski að örverpið mitt skrifi skemmtilega ferðasögu í haust, eitthvað á þessa leið: Daginn sem mamma fór til Noregs þá fórum við Nonni á Kaffivagninn. Svo fórum við í Keiluhöllina og spiluðum keilu. Svo ...

|

01 apríl 2007

Nú kætast Húsvíkingar...

... sumir hverjir, ekki allir væntanlega.
Það er ekki hægt að segja að niðurstaðan í kosningunum í Hafnarfirði hafi verið afgerandi í aðra hvora áttina, það voru innan við 100 atvkvæði sem skildu að þá sem voru fylgjandi og þá sem voru andvígir stækkun álversins.
En svona er lýðræðið, þú veist aldrei hvað kemur upp úr kjörkössunum.
Í gærkvöldi þurfti ég að bregða mér niður í þorp. Þegar ég ók niður Fagradalsbrautina sá ég þetta himneska sólarlag yfir Egilsstaðabænum. Þar sem ég var nú að dáðst að þessari fallegu sýn þá rann það upp fyrir mér að í framtíðinni á ég væntanlega oft eftir að dáðst að sólarlaginu því útsýnið úr stofuglugganum á Skógarkoti er yfir Fjótsdalsheiði, Fellaheiði, Smjörfjöllin og Kollumúlann. Ég verð að semja við bæjaryfirvöld að fella svo sem eitt eða tvö tré svo ég geti horft á Snæfellið sjálft, hæsta fjall á Íslandi utan Vatnajökuls. Það nefnilega blasir við meðan tréin eru ekki laufguð. Þetta eru gamlar krækklur sem engin eftirsjá er í.

|