Hún Kolgríma mín er eðalköttur.
Hef ég nokkurn tíma sagt ykkur það áður?
Það er svo notalegt að koma heim og hún kemur skokkandi fram til að heilsa mér.
Að sjá hana standa pena og prúða við búrdyrnar og bíða þess að ég klári að setja matinn á dallana hennar.
Að sjá hana standa í stofuglugganum og virða fyrir sér lífið úti í garði og stóra fressköttinn sem er búinn að vera þar á sveimi síðustu vikurnar.
Þegar hún vill kíkja út, stendur í dyrunum og reynir að gera það upp við sig hvort hún eigi að vera úti eða inni, sjá hana nusa út í loftið eins og hún sé að athuga hvaða kettir eru í nágrenninu.
Þegar hún fer út, snýr sér við og mjálmar til mín eins og hún sé að segja mér að hún ætli ekki að vera lengi.
Þegar hún fer á stökki út í sólina.
Þegar hún vill koma inn og stendur við garðdyrnar og bíður eftir að ég taki eftir henni, ef hana lengir eftir að komast inn lætur hún heyrast í hálsbjöllunum, en ef henni er kalt þá mjálmar hún.
Þegar ég bý um rúmið mitt á morgnanna og hún vill leggjast ofan á sængina og fá rúmteppið yfir sig, fer annað hvort að leika sér þarna eða liggur bara og malar.
Þegar hún eltir mig á klósettið því við stelpurnar förum saman á snyrtinguna.
Núna þegar heimilið er á öðrum endanum er mikið rannsóknarefni hér fyrir kisu. Hún þarf að hoppa ofan í tóma kassa, ofan í hálffulla kassa og skoða allt sem ég er að fara að pakka.
Þegar ég var búin að koma öllum fötunum á borðstofuborðið og var að flokka þau, þá vissi ég ekki fyrr en Kolgríma var komin í gömlu peysufötin hennar ömmu og búin að hnoða þeim niður á gólf.
Og svo er það afskaplega notalegt á kvöldin þegar kisa verður vör við að ég er að fara í háttinn að heyra hana koma tríttlandi, stökkva upp í rúm og koma sér vel fyrir hjá mér.
Já, hún Kolgríma mín er eðalköttur.