30 apríl 2006

Sunnudagsganga

Við fórum 16 manns saman í gönguferð í morgun.
Við vorum frá 6 löndum og 3 heimsálfum. Auk þess voru tveir Siberian husky hundar með í för.
Við hittumst á tjaldstæðinu á Egilsstöðum og ég hélt að ég hefði aldeilis komist í feitt þegar bíllinn minn smá fylltist af karlmönnum, fjögur stykki takk og enginn af sama þjóðerninu. Ég naut þess að aka í rólegheitum upp Velli og inn Skriðdal.
Ég rifjaði upp leiðsöguhæfileika mína frá því að ég var virk í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og ók langt undir hámarkshraða til að draga ferðina á langinn.
Nú svo stoppuðum við hjá spennivirkinu við Hryggstekk og lögðum af stað gangandi upp Hallsteinsdal og eftir ríflega klukkutíma eða kannski hátt í tveggja tíma göngu, stoppuðum við og tókum upp nestið. Ég var farin að hlakka til heimferðarinnar með þessa myndarlegu karlmenn í bílnum, spáði í hvort ég ætti kannski að bjóða þeim í bíltúr hringinn í Skriðdal. En nei, ó nei, hvað haldið þið, þeir ákváðu allir að halda göngunni áfram og fara alla leið á Reyðarfjörð svo ég tríttlaði með nokkrum ferðafélögum aftur til baka og ók ein út í Egilsstaði.

|

28 apríl 2006

Betri tíð með blóm í haga

Nú er allt að skána hjá mér.
Ég er búin að fara í tvo spinningtíma, eina stafagöngu og eina góða gönguferð í þessari viku. Kannski að tóbaksmörinn fari þá að bráðna.
Ég skrapp í sund í hádeginu á miðvikudag, fékk sérstakt leyfi hjá Steina sundlaugarverði til að fara bara í sólbað í heita pottinum, sleppa sundinu, af því að ég hafði verið í spinning um morguninn.
Tölvutátan var þarna í lauginni, en hún misskilur nú eitthvað til hvers maður fer í sund. Hún bara synti og synti í stað þess að blanda geði í heita pottinum.
Svo hef ég aðeins brugðið mér í ljós, tekið hálfan tíma í senn og það er allt annað líf að fá smá ljós og yl í kroppinn. Nú bara vakna ég eins og manneskja á morgnanna.
Ég hef ekki þorað í ljós í langan tíma, það er alltaf verið að tala um hvað þetta er hættulegt. En nú tala allir um fuglaflensu og hrakspár Den Danske bank svo ég held að það sé allt í lagi að skreppa í ljós á meðan enginn man hvað það er heilsuspillandi.
Í morgun vaknaði ég við að menntaskólakrakkarnir eru að dimmitera og komu kl. 6 að syngja fyrir hann Bjarna granna minn. Það var bara ágætt að vakna upp við fjörið í krökkunum.
Ég er búin að frétta af hrossagauk hér í bænum, það er allt fullt af álftum og gæsum á túnum Egilsstaðabænda og ég hef rekist á útsprunginn fífil. Vitið þið eitthvað fallegra blóm en túnfífil? Ég hef aldrei skilið af hverju fólk rífur þessa fallegu jurt úr görðunum sínum og plantar í staðinn einhverjum blómum sem hafa ekki nálægt því eins fallega blómkrónu og alls ekki fallegri lit.

|

25 apríl 2006

Dirrindí

Sá lóu í morgun.
Hún var sæt og fín og ekki vitund veikindaleg.
Mér datt í hug sagan hans Ármanns Halldórssonar um lóurnar á Snotrunesi. Fyrst fann hann eina hálfdauða og fékk mömmu sína til að matreiða hana - þetta reyndist herramannsmatur. Eftir það gekk hann meðfram símalínum og girðingum, fann "vængbrotnar" lóur, batt enda á þjáningar þeirra og fór með heim í pottinn.

|

24 apríl 2006

Kraftaverk

Tími kraftaverkanna er ekki liðinn.
Alla vega ekki í mínu lífi. Hjá mér hefur átt sér stað ótrúlegt kraftaverk.
Ég vaknaði bara nokkuð hress bæði á laugardags- og sunnudagsmorgun. Stillti vekjarann ekki á áframhaldandi blund heldur fór á lappir og það áður en klukkan hringdi - þess vegna stillti ég ekki á blund.
Nema hvað. Á sunnudag fór ég í góða gönguferð, já, þetta er ekki mislestur, ég fór á reiðskjótum postulanna niður með Eyvindará, út með Fljóti og barðist heim aftur í mannskaðaroki en hafði það af upp á þjóðveg. Steinsofnaði reyndar þegar ég kom heim.
Síðan, enn meira undur og stórmerki. Ég vaknaði klukkan 6 í morgun, steig strax fram úr rúminu, lét ekki hvarfla að mér að breiða sængina yfir haus - kannski flaug það svona sem snöggvast í hug, en alla vega kl. 6.30 var ég sest upp á spinninghjól í íþróttahúsinu.
Mér líður eins og ég sé endurfædd.
Til að vera ekki að ergja sjálfa mig hef ég hætt að stíga á vigtina í bili. Núna er ég að hætta að reykja og meðan ég get troðið mér með skóhorni í gallabuxurnar mínar þá ætla ég ekki að fá taugaáfall.
Annars er ég að velta því fyrir mér að hafa samband við lýtalækni og athuga hvað fitusog kostar fyrir mig og Kolgrímu og hvort við fáum magnafslátt.

|

20 apríl 2006

Það er komið sumar, sól í heiði skín .....

Óska landsmönnum til sjávar og sveita gleðilegs sumars.
Þakka ykkur öllum kærlega fyrir veturinn, sérstaklega ykkur sem hafið kommenterað á Lötu Grétu.
Sólin skín sæt og fín hér á okkur Héraðsmenn og ég er full af fögrum fyrirheitum um að nota daginn vel og koma mörgum hlutum í verk.
Nr. 1. Út að ganga.
Nr. 2. Fara á Seyðisfjörð.
Nr. 3. Fara í Gunnlaugsstaði.
Nr. 4. Ef guð lofar að vinna hér í smá verki sem ég er að humma fram af mér.
Garpur er nánast sestur að hjá okkur Kolgrímu. Hann er alger rúsína. Ég vakna á morgnanna við að hann er að þvo mér - hann er samt svo kurteis að láta andlitið á mér að mestu í friði. Hann malar eins og mótorbátur og er mjög líflegur og skemmtilegur á allan hátt.
Það er gaman að hafa tvo ketti því þá sér maður betur persónuleikaeinkennin. Kolgríma mín, þessi elska, er t.d. þóttafull prímadonna og svolítill fýlupúki. Gerir mikinn mannamun og lætur sig hverfa ef börn koma í heimsókn.
Garpur hins vegar er hvers mann hugljúfi, leyfir bæði smábörnum og gamalmennum að hnoðast með sig. Hann er hins vera frekjudallur þegar kemur að því að borða og ryðst fram fyrir Kolgrímu sem greinilega telur það neðan við sína virðingu að vera að troðast að matarskálunum.
Þau eru góð saman og núna sé ég þau út um gluggann minn þar sem þau eru að leika sér í sólinni úti í garði. Í morgun þá lágu þau alveg klesst upp við annað og möluðu bæði.
Eigandi Garps er að hringsóla um hálendið og við vitum ekkert hvort eða hvenær eða hvernig hann kemst heim. Síðast þegar við fréttum af honum var hann búinn að keyra nokkra hringi kringum Langjökul og var að leggja í annað skipti upp á jökulinn. Búinn að vera í þessum hálendistúr frá því á skírdag. Hann kemur örugglega heim fyrir haustið - við kisi höfum alla vega ekki áhyggjur.

|

17 apríl 2006

Letilíf

Páskarnir hafa flogið frá mér.
Ég gerði ekki helminginn af því sem ég ætlaði að gera en fullt af hlutum sem ég hafði ekki ráðgert þannig að útkoman er bara ágæt.
Dagarnir hafa liðið hver af öðrum í fjölskylduboðum og huggulegheitum.
Af einhverri kvenlegri skyldurækni skúraði ég gólfin, það veitti svo sem ekkert af því en það hefði ekki hrunið heimurinn þótt ég hefði sleppt því. Ég var bara ekki í rónni fyrr en öll gólfin voru skúruð. Undarlega árátta okkar kvenna.
En hvað um það, í gær var ég í fermingarveislu á Hallormsstað. Verið var að ferma Guðmund Gíslason. Þetta var auðvitað glæsileg veisla og óborganlega skemmtileg.
Ég hafði sexbombu Vallahrepps, frú hans og dóttur og Melafjölskylduna sem borðfélaga.
Við Sif fórum í sagnfræðirannsóknir og eftir nokkrar vangaveltur og spurningar sem svör fengust við á öðrum borðum þá höfum við komist að því sem hulið hefur verið dularfullu óminnismistri sl. 17 ár, en það er hverjar voru hinar sex konur sem stofnuð Gleðikvennafélag Vallahrepps. Nú sem sagt er það á hreinu. Sif vill hins vegar meina að bílstjórarnir hafi verið þrír en við Hrefna erum sammála um að þeir hafi bara verið tveir. Sif getur ekki tilgreint þennan þriðja svo hann heldur bara áfram að vera huldumaður.
Enda má svo sem segja að það er ekki neinn tilgangur með því að komast að öllu sem gerðist þetta kvöld og sumt má bara liggja áfram í óminnisþokunni.

|

13 apríl 2006

Er ég uppi á vitlausum tíma?

Er ekki örugglega 21. öldin núna?
Ég verð að segja að þegar ég les blöðin þá fer ég að efast um á hvaða öld ég lifi. Er þetta 17. öldin eða sú 19.?
Landhelgisgæslan sér sjóræningjaskip á Reykjanesröst. Skyldu þeir vera með lepp og krók? Er nýtt Tyrkjarán í augsýn?
Svo les ég að einhver fugl sem fannst á Elliðavatni og taldist vera svanur sem e.t.v. hefði drepist af hinni illræmdu fuglaflensu - af því að svoleiðis gerist í útlöndum, reyndist við skoðun vísindamanna vera dauð aligæs. Þarf sprenglærða sérfræðinga til að greina í sundur fuglategundir? Þetta sem ég hef alltaf haldið að væri lóa er e.t.v. maríuerla.
Svo verð ég bara að nefna það að ég fatta ekki hvernig hægt er að selja eina skitna einbýlishúsalóð á 20 milljónir eins og gert er þarna suður á horni í svonefndum Úlfarsárdal.
En að öðru skemmtilegra. Nú er hann Garpur kominn til okkar Kolgrímu. Ég er að velta því fyrir mér að ef það endar nú bara með að hann Garpur sest að hér hjá okkur þá verð ég að kalla kisu mína Grímu því Garpur og Gríma hljómar vel saman.

|

12 apríl 2006

Höbbn í Hoddnafirði

Brunaði á Höfn í gærkvöldi.
Á leiðinni gúffaði ég í mig helling af sykurlausu nammi sem ég fékk í Bónus. Ég varð svo veik í mallanum að ég var eins og komin að burði þegar ég bókaði mig inn á Hótel Höfn. Ég hélt ég myndi deyja í Lóninu, ekki af fuglaflensu þrátt fyrir að Lónið væri þakið álftum frá sjúkum suðlægum löndum, heldur af því að ég hélt að ég væri með bráða-botnlangabólgu.
En ég hafði það af og í ljós kom að þetta voru bara áhrif af þessu Bónus-nammi. Það var gott á meðan það var í munninum en vont þegar það var komið ofan í maga.
Það var auðvitað yndislegt að koma á Höfn. Ég gerði smá könnun á atvinnuástandinu af því að ef að Skógarkotið verður ekki mitt þá gæti ég vel hugsað mér að flytja þangað suður eftir. Kannski ekkert sniðugt núna á þessum síðust og verstu tímum því farfuglarnir koma upp að landinu í Austur-Skaftafellssýslunni.
En hvað um það, ég fór auðvitað að versla eins og lög gera ráð fyrir í Hafnarferðum. Byrjaði í Lóninu, uppáhaldsbúðinni minni. Þar keypti ég mér nú bara einar gallabuxur, en ég fer aftur á Höfn eftir mánuð og þá tek ég Lónið betur út. Svo fór ég í smollið eins og litlu verslunarmiðstöðvarnar eru kallaðar. Þar keypti ég tvenn pör af sokkum, svo keypti ég ilmvatn, freyðibað og krem í apótekinu. Kíkti loks á netið í hádeginu og keypti ferð til Kaupmannahafnar.
Þetta var því bara skemmtileg og árangursrík verslunarferð. Var reyndar obbolítið að vinna líka.
Á leiðinni heim varð ég að stoppa og hleypa 40 til 50 hreindýrum yfir veginn. Þau komu skokkandi niður dal sunnarlega í Lóninu, rétt sunnan við bæinn Volasel. Ég hef oft áður séð hreindýr á þessum stað og þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef þurft að stoppa til að hleypa dýrum yfir veginn þarna. Alltaf gaman að sjá hreindýr, ekki síður en að borða þau.

|

10 apríl 2006

Kattamyndir og Skógarkot

Nú eru komnar myndir af köttunum hér á síðuna.
Tóta tölvutáta er búin að setja myndir af Garpi og Kolgrímu hér til vinstri. Eins og þið sjáið fer vel á með þeim og þar sem Kolgríma var að fá nýja gula ól þá gaf hún Garpi þessa gömlu grænu. Það sést nú ekki svo mikill stærðarmunur á þeim tveimur þarna á þessum myndum, en Kolgríma er árs gömul og Garpur fjögurra mánaða.
Myndirnar sem blasa við hér á síðunni gætu bara verið af mér, Garpi og Kolgrímu. Kolgríma á leiðinni út í heim, Garpur upp á skáp og ég örugglega að sleikja ís af diski í sykurkasti eftir að ég hætti að reykja. Ég þekki ekki þessa kónguló (eða köngurló), kynnist henni e.t.v. í sumar.
Garpur ætlar að koma og vera hjá okkur Kolgrímu um páskana svo það verður huggulegt hér hjá okkur.
Annars eru aðal fréttir dagsins að í dag var byrjað að grafa fyrsta grunninn í Bjarkarselinu í Selskógi. En í þeirri götu á að rísa hús sem fær nú reyndar númer eins og öll hús í nútíma þorpum en það fær líka nafn eins og húsi upp í sveit sæmir og á að heita Skógarkot. Þangað ætlum við Kolgríma að flytja ef Guð og gæfan lofa og allt gengur að óskum.
Eins og ég hef verið ákveðin í að búa hér þar til ég flytti í hvíta koffortið og eins og ég hef fengið gæsahúð og grænar þegar systkini mín hafa verið að byggja, þá bara skaut þessari hugmynd upp í kollinum á mér og hefur ekki farið þaðan aftur. En ég ætla heldur ekki að flytja í hálfkarað hús, ég ætla að flytja inn þegar allt er tilbúið og búið verður að láta renna í bað fyrir mig og laga kaffi - fasteignasalinn er meira að segja búinn að lofa mér því að það verði gott kaffi. Ef það verður eitthvað lap verður það flokkað sem leyndur galli og ég hef samband við lögfræðinginn minn og læt rifta kaupunum.

|

08 apríl 2006

Fóstursonurinn

Garpur litli er fjögurra mánaða í dag.
Þessi litli fóstursonur okkar Kolgrímu er enn og aftur kominn til okkar. Eigandi hans er alltaf einhvers staðar úti á lífinu, sem kemur sér vel fyrir okkur því við höfum svo gaman af að hafa kisa litla hjá okkur.
Í tilefni dagsins fengu kettirnir daim-ís og eitthvert nammi-kattafóður.
Ég er búin að vera rosalega dugleg í dag eftir allt hreyfingaleysi undanfarinna vikna - hætti að hreyfa mig um leið og ég hætti að reykja. Í dag er ég búin að fara í gönguferð um þorpið og heilsa upp á veika systur mína. Hjá henni datt ég í súkkulaðiát svo göngutúrinn var kannski ekki einu sinni til að brenna þeim hitaeiningum sem ég tróð í mig hjá henni. En hvað um það. Ég er búin að moka gangbraut heim að húsinu mínu. Það kom nefnilega gestur hér um daginn og grenjaði eins og gamalmenni yfir að ég mokaði ekki stéttina. Heyr á endemum, ungt fólk á mínum aldri hefur bara gott af að kafa snjó upp í tegund.
Ég gafst upp á að taka þetta lyfjasull sem átti að létta mér lífið án nikótíns. Strax daginn eftir að ég hætti að taka það þá stökk mér bros og á öðrum degin gat ég hlegið obbolítið. Mér líður aftur eins og venjulega. Nú langar mig hins vegar hræðilega mikið í nammi svo kannski verð ég búin að fitan um 50 kg áður en vorið kemur.
Á eftir erum við Nína að spá í að skreppa upp í skóg og skoða Skúla Björns fimmtugan. Aðeins að sjá hvernig hann tekur sig út á þessum aldri. Ég hef nú ekki einu sinni séð hann síðan hann varð afi svo það er ekki víst að maður þekki Ruminn.

|

06 apríl 2006

Óveðrið sem brást

Síminn gekk þrotlaust og þyndarlaust í gærkvöldi.
Ótrúlega margir áttu erindi við mig og eins og gefur að skilja voru þetta mismunandi erindi.
Ein kona átti það erindi m.a. að segja mér að fara nú að drusalast til að blogga.
Í gær, reyndar strax í fyrradag, fór ég að heyra að veðurspáin hér fyrir austan væri hreint afleit, ja, eða þannig. Það átti að skella á norðan stormur með snjókomu.
Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar í gær, fór í Bónus og keypti Sviss miss og kringlur, alls konar ávexti, uppáhalds matinn hennar Kolgrímu og bara allt sem ég taldi mig þurfa á að halda á þeim tíma sem húsið mitt yrði á kafi í snjó og ég kæmist ekki út.
Ég tók heim verkefni úr vinnunni og var farin að hlakka til að verja deginum í dag á náttfötunum hér heima, sötrandi heitt kakó sem ég myndi dífa kringlu ofaní. Svo myndi ég láta fara vel um mig undir sæng, lesa skemmtilega bók og hlusta á norðanstorminn gnauða á rúðunum.
Full af tilhlökkun lagðist ég á koddann í gærkvöldi. En viti menn, þegar ég vakna í morgun er bara dandala blíða, sól og eins fallegt vetrarveður og hægt er að hugsa sér. Engin ófærð og enginn bylur. Ég bara á lappir, út í bíl og upp í vinnu.
Einhvern tíma held ég að ég láti það eftir mér að mæta á náttfötunum í vinnuna, það eru nú einu sinni uppáhalds fötin mín.

|