30 nóvember 2007

Ég er svo íslensk

Eða það fannst mér alla vega í dag.
Ég fór í nýja Hagkaup í Holtagörðum. Hvað er íslenskara en að rangla um í nýju verslunarhúsnæði.
Það sem gerði þetta enn þjóðlegra var að um búðina fóru litlir leikhópar og léku eitthvað skemmtilegt. Konur í Hagkaupssloppum, flugfreyjur að minna á neyslu. Svo var Páll Óskar að syngja meðan ég skoðaði bleik náttföt. Það var brasshljómsveit að leika í matvörudeildinni og þegar ég var búin að fara stóran hring í húsnæðinu, þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla, var Birgitta Haukdal að taka lagið í búsáhaldadeildinni.
Yndislegt. Allt á sama stað. Tónleikar og tilboðsvörur.

|

28 nóvember 2007

Í góðu yfirlæti

... í Reykjavíkursveitinni.
Í dag var ég skorin og skeytt saman aftur hjá doktor sæta Sívagó. Þegar ég vaknaði upp var mér fært heimsins besta kaffi, enda var ég orðin nokkuð kaffiþyrst eftir hafa fastað frá því í gærkvöldi.
Mirek tengdasonur mínn sótti mig og fór með mig alla leið upp í Reykjavíkursveitina til Önnu Berglindar.
Hér hefur svo verið stjanað við mig og ég hef haft það afskaplega eitthvað ljúft. Það er búið að setja jólaljós í glugga og meðan leikin var jólatónlist á einhverri útvarpsstöðinni, stóðu Anna Berglind og Selma í smákökubakstir í eldhúsinu.
Mér finnst ég bara vera gengin í barndóm. Nema ég fékk að smakka á bakkeslinu, það var ekki sett beint niður í stóra tindós og hún innsigluð eins og gert var á bernskuheimili mínu.
En ég sem sagt læt bara fara vel um mig hér á þessu myndarheimili.
Já, gleymdi næstum, áðan þegar ég vaknaði þá sá ég að það gúlpaði eitthvað á handleggnum á mér í olnbogabótinni og viti menn, doktor sæti Sívagó hafði sent mig heim með nál í æð. Ég varð því að ljúka aðgerðinni sjálf og slíta draslið úr mér.

|

26 nóvember 2007

Nú fjúkið úti fýkur

... og frostið bítur kinn.
En ekki mínar, því Súbbi minn var í bílskúrnum í nótt og ég settist í heitan og fínan bílinn í morgun, ýtti á takka og bílskúrshurðin fór upp.
Það rann á mig æði í gær og ég umstaflaði öllu bókasafninu og flutti fullt af dóti til svo ég gæti haft pláss fyrir bílinn í bílskúrnum.
Mikil dæmalaus dekurdúlla er maður. Ég var að hugsa um það í morgun hvað ég hef það gott. Hafið þið hugleitt það góðir Íslendingar hvað við höfum það rosalega gott. Maður skrúfar frá krana og það bunar endalaust ferskt og gott kalt neysluvatn. Meira að segja Kolgríma er orðin svo dekruð að það þýðir ekkert að setja vatn í skál á gólfið, nei, hún vill bara fá vatn sem rennur ferskt úr krananum, ekkert staðið sull.
Svo lætur maður renna fleiri tugi lítra af heitu, tæru vatni í baðkar, fer ofan í og hefur það notalegt, eða skrúfar frá sturtunni og lætur þetta góða vatn buna yfir kroppinn.
Þetta eru okkur svo sjálfsögð þægindi að við hugsum varla um það. Ég fékk í pósti myndir frá Afríku þar sem fólk býr við vatnsskort, auk annars skorts og ég fór að hugleiða hvað maður hefur það óendanlega gott hér á Íslandi í heitum og góðum húsum með allt sem maður þarfnast og gott betur.

|

24 nóvember 2007

Af moldu ertu kominn

... að moldu skaltu aftur verða.
Í dag var til grafar borinn Sigurður Grétarsson.
Kveðjuathöfnin var látlaus og falleg, bæði í kirkjunni og á íþróttavellinum.
Nú eru þeir fyrrum svilar Finnur og Siggi báðir dánir og grafnir. Finnur á Völlum og Siggi í Fellum.
Blessuð sé minning þeirra.

|

23 nóvember 2007

Jólin

byrja í IKEA.
Jólin eru í BYKO.
Hjá mér eru jólin meðal ástvina síðari hluta desember.
Og einhvern veginn er ég sannfærð um að þau komi þó ég fari hvorki í IKEA né BYKO.

|

21 nóvember 2007

Að eiga erindi

Mig langar að skrifa um byggingalist á Egilsstöðum.
Eða það væri auðvitað nær að tala um byggingastíl.
En aðgát skal höfðu í nærveru sálar svo ég held ég sé ekkert að tjá mig opinberlega. Ég vil ekki lesa eitthvað ljótt um húsið mitt svo ég reikna ekki með að aðrir kæri sig um slíkt hvað þeirra hús varðar.
En eins og Ísfirðingar eiga heillega götumynd af gömlum húsum, þá eigum við á Egilsstöðum heillegar götumyndir af Orrahúsum og kanadískum húsum.
Einu sinni heyrði ég um konu sem gat ekki farið í labbitúr af því að henni var ómögulegt að láta sjá sig á götu nema að hún væri að sinna ákveðnu erindi. Fólk myndi sjá það á henni að hún ætti ekkert erindi og hún vildi ekki að fólk horfði á sig og velti fyrir sér hvað ein kona væri að hugsa með því að ganga um göturnar í þvílíkri erindisleysu.
Ég hef verið að reyna að koma sjálfri mér úr húsi og í smá heilsubótalabbitúr en hef ekki haft erindi sem erfiði og ég sit alltaf sem fastast heima í stofu.
Í kvöld fann ég hins vegar út að það væri upplagt fyrir mig að spássera niður í þorpið og heilsa upp á hann kisa sem ég er að passa.
Og þar sem ég var búin að finna mikilvægt erindi þá klæddi ég mig vel og arkaði af staði.
Það fór ekki milli mála að hér var á ferð kona að sinna mikilvægu erindi.

|

20 nóvember 2007

Maðurinn minn

Ég hef eignast mann.
Hann virðist vera nokkuð traustur. Hann er rauðhærður með skegg og skalla. Kannski ekki alveg mín típa, en býður af sér nokkuð góðan þokka. Það fer ekki mikið fyrir honum og satt að segja hefur hann ekki sagt orð síðan ég kynntist honum. Frekar þögull. Hann er ekki að vastast í neinu sem honum kemur ekki við. Brosir framan í gesti og gangandi og er ekki drykkfelldur.
Hann hefur staðið úti á stétt við útidyrnar síðan hann kom inn í líf mitt. Ég er samt ákveðin í því að ætla honum stað á pallinum í framtíðinni.
Skúli og Tóta færðu mér hann á afmælinu og hann heitir Palli frá Stekk.
Það fer vel á því að á svölunum hjá Nínu er hann Svali bróðir hans Palla sem verður á pallinum hjá mér.

|

18 nóvember 2007

Siðmenntaðir ballgestir

Þá er síðasti dansinn stiginn í Valaskjálf.
Alla vega í bili, hvað sem verður.
Að loknu innflutningsteiti nr. 2 var haldið á dansleik. Ég var reyndar meira í stuði til að fara í háttinn en á ball, en þar sem Sigga vinkona var komin alla leið sunnan úr Kópavogi til að eiga skemmtilega helgi með mér, var ekki stætt á öðru en að fara á ballið.
Kannski er þetta bara aldurinn, eða hvernig sem á því stendur þá fór ég fljótlega eftir að inn í Valaskjálf kom, að velta fyrir mér siðgæðisstandardinum á ballinu.
Einn skrönglaðist blindfullur upp á borð og hugðist dansa þar en lak niður á gólf og baðaði þá sem við borðið sátu upp úr víni í leiðinni.
Einn tók sig til, stóð upp frá borðum, hneppti frá buxunum, tók niður um sig og moonaði framan í borðnauta sína.
Á dansgólfinu var ung kona í góðum holdum. Hún hafði greinilega eitthvað farið villu vegar í fataskápnum því hún taldi örugglega að hún væri í kjól, en í rauninni var hún bara í topp við húðlitaðar nælonsokkabuxurnar. Frekar nöturlegur klæðnaður í vertarveðrinu.
Einn skreið um gólfið, kannski nýmóðins dans, ef til vil að leita að linsunni sinni, en eftir hreyfingunum að dæma bara svona haugafullur.

|

17 nóvember 2007

Innflutningsteiti

Í gærkvöldi var 1. í innflutningsteiti.
Til mín komu nokkrir svona vinnutengdir vinir og hér var glatt á hjalla.
Meðal gesta var annálað karlmenni, mikill veiðimaður og hundaeigandi, Helgi Jensson.
Ég hef stundum sagt við hann Helga að hann sé svo mikil karlremba að karlhormónin flæði út úr eyrunum á honum.
Þegar Kolgríma mín gekk í stofu fór Helgi eitthvað að gera lítið úr henni, sagði að það væri nú réttast að sækja veiðihundana og leyfa þeim að nusa af henni.
En Kolgríma mín lætur ekki slá sig út af laginu. Hún heilsaði gestum, einum af öðrum, kom að Helga og gerði sér lítið fyrir, stökk upp í fangið á honum, hringaði sig niður í kjöltu hans og fór að sofa.
Í kvöld verður 2. í innflutningsteiti. Þá koma ættingjar og vinir sem hjálpuðu mér í flutningunum. Hér er bara stanslaust stuð og allt eins víst að við skellum okkur bara á ball í Valaskjálf, sem enn eina ferðin á víst að vera síðasta ballið á þeim bæ.

|

16 nóvember 2007

Leikhús

Bráðum fer ég til höfuðborgarinnar.
Í haust keypti ég tvær ferðir til Reykjavíkur, aðra í nóvember og hina um jólin. Fékk þær báðar á ótrúlega góðu verði. Ég var meira að segja að hugsa um það um daginn þegar ég fór á pósthúsið með ábyrgðarbréf að miðað við þyngdina á bréfinu og kostnaðinn við að senda það, þá er gjafverð fyrir mig að fljúga, jafnvel á fullu fargjaldi. En ég er að vísu ekki borin út til viðtakanda.
En hvað um það. Við mæðgur ætlum út að borða og í leikhús í lok nóvember. Ég hef verið að skoða hvað er í boði þennan dag sem við stefnum á og það er eftirfarnandi: Í Þjóleikhúsinu: Óhapp,Hamskiptin og Kona áður. Í Borgarleikhúsinu: Ást og Lík í óskilum.
Nú er það bara spurningin, hvað eigum við að velja?

|

14 nóvember 2007

Á hreindýraslóðum

Það viðraði vel til Hafnarferðar í dag.
Á leiðinni suðureftir sáum við nokkra hreindýrahópa. Í Álftafirðinum var alla vega einn hópur og svo voru nokkrir hópar í Lóninu. Trúlega hátt í 200 dýr.
Einn hópurinn tók sig til og hélt fyrir okkur fallega sýningu þegar eitt dýrið af öðru sveif yfir girðingu. Þvílík mýkt, þvílík lipurð, þvílíkur léttleiki.

|

Höfn í Hornafirði

Í dag er ferðinni heitið á Hornafjörð.
Ég þarf ekki að vera bílstjórinn svo ég get sofið í alla vega 2 tíma fram að hádegi. Ég ætla að taka ferðahálskoddann minn með mér. Sem minnir mig á prestakraga, hummm, kannski að þeir hafi verið fundnir upp sem stuðningur við hausinn.
En hvað um það. Ég fór til læknis í fyrradag út af þessari þrálátu þreytu og svefnsýki. Það var sogað úr mér heilmikið blóð sem sett verður í mjög viðamikla rannsókn.
En ég var líka að hitta lækninn af því að ég var eiginlega orðin sannfærð um að ég væri komin með beinkrabba - ef ég er á annað borð að ímynda mér eitthvað þá hef ég það bara eitthvað stórkostlegt. Nú, hann skrifaði sjúkdómsheiti á blað og sagði mér að googla það. Ég man eftir því að mönnum hér á Egilsstöðum þótti það bera vott um fáfræði hjá Stefáni lækni þegar hann skellti læknabók á borðið framan við sjúklina og bauð þeim að lesa um mannslíkamann.
Núna er manni vísað á netið. En ég er svo sem litlu nær. Þetta er eitthvað fyrirbæri sem heitir Ganglion og menn vita ekkert af hverju þetta poppar upp á mannslíkamanum. En þetta er ekkert hættulegt svo ég get sofið róleg þess vegna.

|

12 nóvember 2007

Af hverju þarf allt að vera stórt?

Búðir stækka og stækka og stækka.
Ég man þegar Byko var lítil búð í skúrbyggingu við hliðina á blómbúð Þórðar á Sæbóli.
Svona búðir þrífast víst ekki í dag og kaupmaðurinn á horninu er kominn á Árbæjarsafnið, eða vonandi hefur tekist að varðveita eitt eintak svona til minja.
Núna eru auglýstar opnanir á stórum verslunarmagasínum og enn stærri verlunarmagasínum og risastórum leikfangabúðum - fólk verður að gæta þess að týna ekki börnunum inn í þessum stóru leikfangabúðum, það er ekki víst að þau finnist nokkurn tíma aftur.
Ég held að ég verði bara eins og Svante í Svantesvisum þeirra Poul Dissing og Benny Andersen ef ég hætti mér inn í svona risastórmagasín.
Og af því að við hér útiálandiliðið þurfum líka að versla þá vill svo heppilega til að núna á næstu dögum opna Húsasmiðjan og Blómaval stórmagasín hjá okkur á Egilsstöðum, ekki risastór- bara stórmagasín og satt að segja finnst mér það alveg nóg.
Ég veit ekki hvernig hægt er að deila þessum 300.000 sálum jafnt á milli allra þessara molla og smolla.
Alla vega ég er bara þreytt, þreytt, þreytt. Ég var í klipp og stríp í dag. Fyrst sofnaði ég meðan verið var að klippa mig og vaknaði við að ég var spurð álits á verkum hárgreiðslukonunnar. Næst sofnaði ég þegar hún var að þvo mér um hárið og vaknaði við að hún var að fá mig til að reisa höfuðið upp úr vaskinum.
Ég vildi ég gæti verið heima hjá mér í náttfötunum í nokkra daga.

|

08 nóvember 2007

Hvað er mikilvægt?

Hvað er það sem skiptir mestu máli í lífinu?
Hvað er dýrmætast?
Ástvinir, fjölskyldan, vinir og vandamenn.
Að njóta góðrar heilsu. Að vera heiðarlegur. Að vera sjálfum sér trúr. Að fylgja samvisku sinni.
Allt er þetta mikilvægt.
Það er mikilvægt að lifa í sátt við Guð og menn. Það er mikilvægt að láta sólina aldrei setjast yfir ósætti.
Það er mikilvægt að fá fyrirgefningu þegar maður gerir eitthvað á hlut annarra, en það er enn mikilvægara að fyrirgefa.
Það er mikilvægt að gefa af sér, en það er líka mikilvægt að geta þegið. Eins og vatn sem sem hefur aðrennsli og frárennsli helst tært meðan vatn sem ekkert rennur í og ekkert rennur frá verður óhreint.
Það er mikilvægt að reyna að öðlast æðruleysi, kjark og vit til að takast á við lífið.
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

|

05 nóvember 2007

Deyr fé ...

Við systur stöndum á undarlegum tímamótum með dætrum okkar.
Veturinn 76 - 77 leigðum við saman íbúð í Hafnarfirði, við Anna Guðný og Finnur. Ég gekk með frumburðinn okkar Finns.
Svo fór Anna Guðný að koma heim með gamlan kærasta sinn, kærasta sem hún átti þegar hún var 14 ára. Þetta var hann Sigurður Grétars frá Skipalæk.
Anna Guðný og Siggi eignuðust tvær dætur og við Finnur eignuðumst tvær dætur.
Í dag eru allar þessar stelpur föðurlausar.
Siggi varð bráðkvaddur út í Bandaríkjunum í morgun þar sem hann var í viðskiptaferð. Finnur dó á Landspítalanum fyrir rúmum þremur árum.
Báðir tengdasynir foreldra minna dánir. Báðir á besta aldri. Báðir fæddir 1956.
Anna Guðný og Siggi skildu og Siggi tók saman við Grétu Sigurjóns. Þau eignuðust lítinn dreng 15. mars sl.
Ég votta ykkur öllum samúð mína, Anna Guðný, Þórunn Gréta, Kristín Arna, Gréta, litli Sigurjón Torfi, Þórunn og Grétar - Guð geymi ykkur öll.
Ég þakka Sigga fyrir allt gott, sem mágur og sem yfirmaður þegar ég vann hjá honum.

|

04 nóvember 2007

Héraðsfréttir

Mig langar að fá fréttabréf af Héraði.
Af hverju kemur ekki út blað í sveitarfélaginu okkar? Eitthvað í líkingu við Grafarvogsblaðið eða önnur hverfablöð í Reykjavík?
Ég hefði gaman af að fá að vita hvað er að gerast í bæjarmálum hér. Ég spyr reyndar bara Nínu vinkonu af því að hún er í bæjarstjórn, en ekki getur hún farið hús úr húsi og sagt fréttir af bæjarmálum.
Mig langar að heyra af fimleikadeildinni sem mér skilst að standi sig vel á landsmælikvarða. Af öllum afrekum krakkanna hérna, krakka í hestaíþróttum, fótbolta og leiklist.
Mig langar að vita hvað er að gerast í atvinnumálum, menningarmálum og bara yfir höfuð hvort það er líf í bænum.
Ég held að það myndi þjappa okkur saman og efla áhuga okkar á að búa hér í sveitarfélaginu ef við vissum betur er að gerast.
Helgin er búin að vera frábær hjá mér.
Í gær var ég á Seyðisfirði á mjög góðum fundi hjá Félagi aðstandenda altsheimersjúklinga. Mjög gagnlegur fundur og maður sér hlutina í nýju ljósi þegar einhver annar lýsir því sama og maður hefur sjálfur upplifað.
Fór og knúsaði mömmu eftir fundinn, færði henni nýja skyrtu, eldrauða. Hún hefur svo gaman af að vera fín til fara og hún hefur alltaf gaman af að fá ný föt.

|

03 nóvember 2007

Hið ljúfa skógarlíf

Við Kolgríma erum afskaplega eitthvað ánægðar með lífið í Skógarkoti.
Mig langar mest af öllu að vera bara heima í nokkra daga, ekki liggjandi í pest heldur spræk og í stuði til að taka upp úr kössum.
Anna Berglind og Nonni eru í heimsókn og á morgun verður farið í að skoða dótið í bílskúrnum, henda reiður á hvað þar er og koma reglu á hlutina.
Í gær hafði ég villibráðarkvöld, anda- og gæsabringur og hreindýrakjöt. Í kvöld verður afgangurinn snæddur. Þau halda að ég sé svona gestrisin en það er misskilningur, ég þurfti að koma út firningunum frá því fyrra og eins þurfti ég að vinna þau á mitt band áður en þrælavinnan hefst á morgun.
Maður er nú orðinn eldri en tvævetur í hrekkjum.
En að henni Kolgrímu minni. Ótrúlega lifir þessi köttur ljúfu lífi. Hún býr hér mitt í þessum miklu veiðilendum og ólíkt rjúpnaveiðimönnum má hún veiða alla daga vikunnar. Hún nennir samt ekki á veiðar nema það sé þokkalega hlýtt úti. Eftir að það fór að snjóa hefur hún bara rekið trínið sem snöggvast út, kannski farið aðeins út á pallinn en svo kýs hún frekar að fara fram í bílskúr og leika sér þar.
Þegar ég ligg í baði finnst henni notalegt að liggja í baðvaskinum. Baðvaskurinn hérna í skóginum er miklu stærri og þægilegri en vaskurinn á Reynivöllunum.
Núna þegar ég sit við borðstofuborðið og er að pikka, er Kolgríma búin að hreiðra um sig í bólinu sínu við stofugluggann bak við mig.
Já, það er ekki slæmt að vera Kolgríma Högnadóttir.

|

01 nóvember 2007

Dagar rjúpu

Það er kominn veiðitími og nú má rjúpan vara sig.
Það rann upp fyrir mér þegar ég fór í Bónus síðdegis og sá tvo myndarlega karlmenn, sennilega aðkomumenn, sem voru óhemjulega eitthvað hallærislega klæddir. Það var eins og þeir væru bara mættir á síðbrókinni í búðina. En þegar ég virti þá betur fyrir mér sá ég að þeir voru í flísbuxum.
Ég held að þessir menn verði snöggir að veiða upp í kvótann sinn því rjúpan fær óstöðvandi hláturskast þegar hún sér þá og getur ekki forðað sér.
Greinilega nýjar veiðiaðferðir.

|