31 desember 2005

Gamlársdagur

Upp er runninn gamlársdagur
ákaflega skýr og fagur.
Á þessum degi fyrir 26 árum giftum við Finnur okkur. Við tókum okkur far með leið 5 ofan úr Teigahverfi áleiðs niður í bæ og var förinni heitið í Borgardóm sem þá var til húsa á horni Túngötu og Garðastrætis. Frumburðurinn var með í för tveggja og hálfsárs gömul telputáta.
Þetta var fallegur vetrardagur, snjór yfir öllu og veðrið var stillt en kalt.
Þar sem við vorum snemma á ferð og veðrið svona fallegt ákváðum við að fara út á Hlemmi og labba niður Laugaveginn og skoða jólaskrautið í búðargluggunum.
Það lá vel á frumburðinum. Hún sat eins og svo oft fyrr og síðar á öxlum pabba síns. Hún vissi að við vorum að fara að gera eitthvað voðalega skemmtilegt sem væri kallað að gifta sig og ég held hún hafi séð fyrir sér einhvern fjölskylduleik. Af og til á leiðinni dillaði hún sér á öxlum föður síns og söng "Vi´rum a farað gift´okkur". Þetta er sá fallegasti brúðarmars sem ég hef heyrt.
Kristjana Jónsdóttir þá borgardómari en nú héraðsdómari í Héraðsdómi Reykjavíkur gaf okkur saman og á meðan á athöfninni stóð sat frumburðurinn sæll og glaður í dómsalnum með heilan tópaspakka til umráða.
Það er sagt að hjónabandið verði eins og veðrið er á brúðkaupsdaginn. Það var ekki þannig hjá okkur. Hjónabandið okkar var ekki kalt og því síður stillt.
Á 18. brúðkaupsafmælisdeginum vorum við skilin og á þeim 22. vorum við tekin saman aftur.
Þegar fór að líða að silfurbrúðkaupsafmælinu spurði ég Kristjönu hvort við Finnur mættum halda upp á það, eða hvort við yrðum að draga frá þessi 3 ár sem við vorum skilin að borði og sæng. Kristjana hélt nú aldeilis að okkur væri heimilt að halda upp á 25 ára brúðkaupsafmælið því þessi 3 skilnaðarár hefðu bara skerpt kærleikann.
En Finnur lifði það ekki að halda upp á silfurbrúðkaupsafmælið með mér.
Árið sem er nú að kveðja hefur verið gott ár í mínu lífi og nýja árið leggst vel í mig. Ég þarf ekki að bera eins þungar byrðar á komandi ári eins og þessu sem er að líða því ég er 16,5 kg léttari en ég var á þessum tíma fyrir ári síðan. Hugsið ykkur það hafa runnið af mér 33 smjörstykki.
Ég þakka öllum sem heimsótt hafa Lötu Grétu á árinu og vona að þið eigið öll skemmtilegt gamlárskvöld fyrir höndum. Ég ætla, ásamt systur minni og systurdóttur, að snæða með aldraðri móður minni á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði og koma svo seinna í kvöld upp í Hérað og gleðjast með vinum mínum. Skelli mér á áramótadansleik ef vel liggur á mér.
Þá er það spurning hvort maður stígur á stokk og strengir heit á miðnætti. Eins og allir vita sem þekkja mig þá reyki ég í laumi og hef gert undanfarin ár. Spurningin er hvort ég hætti að reykja í laumi eða hætti að reykja. Ef það verður einhver stokkur á vegi mínum þá kannski stíg ég á hann.

|

30 desember 2005

Minning

Í dag var til grafar borin í Hafnarfjarðarkirkjugarði
systurdóttir Finns, Margrét Jónsdóttir, fædd 31. mars 1981, dáin 21. desember 2005.
Margrét er sú æðrulausasta manneskja sem ég hef þekkt og þrátt fyrir sinn unga aldur tók hún lífinu, veikindum sínum og dauða af yfirveguðu hugrekki.
Hún skilur eftir sig spor í sálum vina sinna og vandamanna. Hún kenndi okkur svo margt um lífið og tilveruna og í öllu hennar mótlæti hafði hún mestar áhyggjur af því hvernig hennar nánustu myndi reiða af en ekki henni sjálfri.
Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Margréti og ég votta öllum ástvinum hennar djúprar samúðar.

|

26 desember 2005

Jólin

Eta, sofa, vakna og halda áfram að eta.
Svona hafa jólin verið á þessum bæ. Stanslaust át og maður er að fara í skrokknum af allri þessari hvíld. Það er svona rétt farið upp úr bólinu og kíkt í búrið en svo drífur maður sig aftur í rúmið áður en sængin kólnar.
Kannski smá ýkjur en ekki miklar.
Þetta eru búnir að vara afar ljúfir dagar og dæturnar og tengdasynirnir hafa farið vel í stofusófanum. Öllum hefur samið vel nema að kisurnar hafa hvæst svolítið á hvor aðra, sérstaklega eftir að það rann af Reykjavíkurkisunni Míu. En það hagar svo vel til hér í húsinu að Mía hefur getað haft forstofuna og forstofuherbergið fyrir sig og sína fjölskyldu og hægt er að loka kisurnar af án þess að móðga þær.
Kolgríma er hálf áttavillt eftir þessar tímabundnu breytingar á heimilinu. Hún sefur ein í stofunni, finnst sennilega ekki nógu rúmt um okkur báðar í geymslunni. Svo finnst henni ekki sanngjarnt þegar verið er að skamma hana frá matardöllum Míu en Kolgrímu finnst maturinn í þeim döllum miklu girnilegri en maturinn í hennar döllum, þó það sér sams konar matur. Ég verð að viðurkenna að mér líður ekki ósvipað og þegar einhver leyfði sér að finna að við dætur mínar, þegar verið er að skamma Kolgrímu mína, þessa elsku.
Annars höfum við Kolgríma haft það eins og Lýður lottóvinningshafi og haft humar í morgunmat. Við höfum ekki geta haft önd í hádegismat en kunningi minn ætlaði á andaveiðar um jólin svo kannski rætist úr hjá okkur kisu.
Aumingja Kolgríma varð fyrir hræðilegum hrakförum í gær. Fyrst gerði ég mér lítið fyrir og settist ofan á hana þar sem hún var að fá sér fegrunablund á borðstofustól. Grey kisa og ég sem var úttroðin af jólamat ofan á alla þessa miklu daglegu líkamsþyngd - þetta er svona eins og ef stór fíll settist ofan á mig. Svo til að kóróna daginn fyrir kisu þá steig ég á skottið á henni. Hún er sem betur fer búin að fyrirgefa mér þetta og er ljúf og góð við mig. Ég hengdi út þvott í dag og kisa kom til mín, hoppaði með sínar forugu loppur ofan í balann svo ég þurfti að þvo helminginn af þvottinum aftur.

|

23 desember 2005

Þorláksmessa

Búin að vera í tveimur skötuveislum í dag.
Fyrst með vinnufélaganum og vinnunágrönnunum í Söluskálanum og svo núna í kvöld hér heima með vinum og vandamönnum. Þetta er ágætur siður að eta rotnaðan fisk áður en steikarátið mikla hefst, maður kann þá betur að meta allan veislumatinn. Maður borðar svo góðan mat allt árið svo það er hausverkur að finna út hvað er nógu mikill veislumatur til að gera sér dagamun með á jólunum.
Eins og fram hefur komið á blogginu mínu á ég tvo tengdasyni. Þeir koma báðir frá fyrrum kommúnistaríkjum. Sá eldri er frá Varsjá í Póllandi en sá yngri er frá Neskaupstað í Norðfirði.
Járni, Norðfirðingurinn borðar skötu í hverri viku svo það var nú ekki vandamál að gefa honum að borða. Mirek, sá pólski, er aftur á móti mjög jákvæður að bragða allan þennan undarlega mat sem ég ber á borð fyrir hann. Hann hefur meira að segja komið með okkur á þorrablót og smakkaði þar á öllu, jafnvel the rotten shark.
Ég hafði nokkra rétti til vonar og vara svo allir myndu standa mettir upp frá borðum í kvöld og kom það sér vel þar sem dætur mínar borða ekki skötu, uppeldið hefur eitthvað brugðist hjá mér. Mirek lét sig hafa það að smakka skötuna, sagði að það væri svo ógeðslega vond lykt af þessum mat að hann yrði að smakka. Fékk sér meira að segja aftur á diskinn en nú notaði hann sömu aðferð og þegar menn svæla í sig tequila, þ.e.a.s. hann hafði sítrónu með.
Ég myndi vilja vera fluga á vegg þegar hann talar við vini sína í Póllandi og segir þeim frá matnum hjá tengdó.
Í kvöld er ósköp huggulegt hér í kotinu, krakkarnir allir í stofunni að horfa á sjónvarpið og það er ljúft að hafa allan hópinn kátan og glaðan í húsinu.
Kisurnar eru enn svolítið að hvæsa hvor á aðra og slást smávegis, en ég held að þetta fari að lagast. Mía Reykjavíkurkisa varð að fá róandi áður en hún flaug austur og hún var alveg uppdópuð fyrsta kvöldið sitt hér. Það var ekki alveg laust við að það væri fyndið að sjá hana hvæsa á Kolgrímu. Þetta var svo máttleysislegt og Mía með ranghvelfd augun, eiginlega bara eins og þvoglumælt fyllibytta að þenja sig "Góa ðegiðu og laddu mig í vriði, hvvvaaas."
Einhvern veginn er ég ekki alveg búin að meðtaka það er aðfangadagur á morgun. Þá er bara eitt til ráða, kveikja á gömlu Gufunni, hlusta á jólakveðjurnar og fá jólastemninguna beint í æð.

|

20 desember 2005

Ekki búin að gera ALLT

Og hef engar áhyggjur af því.
Fyrstu jólaenglarnir eru rétt að koma.
Lambið mitt og tengdasonur nr. 2 koma austur með hádegisvélinni á morgun - gaman, gaman. Við kisa erum að búa um okkur í obbolitla gestaherberginu sem ég breytti í geymslu í sumar. Ég er reyndar ekki viss um að Kolgríma sé hrifin af þessu umstangi því í sumar gengum við úr rúmi fyrir gesti og hún var hreint ekkert sátt við það. Hún bara hoppaði ofan á gestunum og lét öllum illum látum þegar hún uppgötvaði að henni var ekki ætlað að sofa í rúminu sínu, eða mínu, eftir því hvernig á málið er litið.
Jólaundirbúningurinn hjá mér hefur snúist upp í að setja allt á hvolf. Það hefur ekki verið svona mikil óreiða á heimilinu í háa, háa herrans tíð. En skatan bíður í búrinu ásamt heimareyktu hangikjöti af veturgömlu þannig að þetta er nú að verða svolítið jólalegt þrátt fyrir óreiðuna.
Annars er nógur tími fram að jólum og ég hef ekki miklar áhyggjur. Ég er líka orðin svo gömul að ég er búin að læra það að jólin koma hvort sem manni vinnst tími til að skúra eður ei - ef allir komast heilir heim, þá er nóg að kveikja á kerti og hlusta á Heims um ból. Lífið er bara ljúft og gott og ég hlakka til jólanna eins og þegar ég var lítil, áður en ég lét telja mér trú um að jólin væru bara inn í hreinum skápum og tylltu sér bara niður á nýbónuð gólf.

|

18 desember 2005

Loksins, loksins

Laufabrauðið skorið og steikt.
Nú geta jólin komið fyrir mér. Bara eftir að smala heim börnum, tengdabörnum og kisunni Míu og þá er allt tilbúið. Eða næstum, ég er víst bara hálfnuð að skrifa jólakortin.
Hjó eldivið í 4 kassa. Það er farið að ganga á eldiviðinn hjá mér svo ég verð að láta fella 2 tré til viðbótar úr garðinum svo ég hafi arinvið næsta vetur. Mér sýnist að það megi líka alveg grisja í nágrannagörðunum.
Kannski ég taki aðeins til og skúri gólfin ef ég verð í stuði - annars bara sópa ég.

|

17 desember 2005

Ruglingslegur jólaundirbúningur

Ég er alveg að týna sjálfri mér í jólaundirbúningnum.
Hann fellst þó aðallega í því að gera áætlanir sem ekki standast.
Í dag ætlaði ég loksins að baka laufabrauð. Fyrst uppgötvaði ég að kökurnar sem ég keypti fyrir margt löngu voru ónothæfar svo ég brunaði í kaupfélagið okkar og varð mér út um aðrar.
Svo var ég búin að hafa allt tilbúið, brettin, fötin, smjörpappír, eldhúspappír og hnífa og beið bara eftir henni systur minni sem ætlaði að skera og baka laufabrauð mér til samlætis.
Þá var bankað og það var ekki hún systir mín heldur þeir feðgar Þröstur og Sigurður. Laufabrauðsgerð var frestað einu sinni enn og við fórum upp í Vallanes að setja ljós á leiðin í brunagaddi. Ljósin eru komin á sinn stað en við gátum ekki kveikt á þeim þar sem garðurinn var rafmagnslaus og Eymundur staðarhaldari suður í Reykjavík að selja höfðuborgarbúum grænfóður. Þetta verður lagfært á morgun.
Systir mín ætlar að koma í rauðabítið kl. 10.00 í fyrramálið og við hefjumst þá handa áður en ég breyti áætlun og fer að gera eitthvað allt annað.
Gærdagurinn var samfelld veisla. Fyrst föstudagsmorgunmatur í vinnunn, þá mini-jólahlaðborð á Nielsen í hádeginu með föstudagsmatarklúbbi kvenna á Héraði. Veit reyndar ekki af hverju þetta var kallað mini-jólahlaðborð, mér finnst að öll jólahlaðborð eigi að vera eins og þetta var, hæfilega margir réttir og maður fór ekki alveg eins og troðin gæs út af veitingahúsinu.
Um kvöldið fór ég svo í fínt konuboð á Hallormsstað þar sem húsmóðirin varð að kenna okkur að neyta veitinganna því þær voru svo framandi. Hollenskar vöfflur sem ekki mátti bíta í fyrr en þær voru búnar að standa hæfilega lengi ofan á kaffibollunum, ítalskar grjótkökur sem varð að dýfa í kaffi áður en bitið var í þær, ef manni var annt um tennurnar sínar það er að segja. Svo alls konar annað góðgæti. Rúsínan í pylsuendanum var svo að við vorum allar leystar út með gjöfum og það ekki neinum slordónagjöfum heldur rosalega flottum húfum sem húsmóðirin hefur verið að dunda sér við að búa til.
Í morgun var svo veisla í Heislubót. Eftir slökunarspinning við kertaljós og einhverja exotiska leikfimi hjá Ástu Maríu var sest niður með kaffi, konfekt og ávexti - afar huggulegur líkamsræktartími. Þórveig meira að segja dreifði konfekti í miðjum tíma meðan Auður Vala lét okkur líða á hjólunum um draumheima.
Ég segi bara ekki annað en að það er eins gott að ég á Herbalife milli þess sem ég nýt alls sem desembernægtarborðið hefur upp á að bjóða. Annars kæmist ég ekki fyrir í stofusófanum innan um fjölskylduna á aðfangadagskvöld.

|

14 desember 2005

Glitský og veiðisögur

Í dag sá ég þau fallegustu glitský sem ég hef nokkru sinni séð.
Ég er búin að gleðjast mikið yfir þessu náttúruundri, allt þar til í kvöld að ég las það á mbl.is að þetta væri tákn um þynningu ósonlagsins. Það hlýtur að hafa verið voðalega þunnt ósonlag yfir Héraðinu í dag miðað við alla litadýrðina sem blasti við.
Kolgríma hefur verið í miklu veiðistuði í dag og í gær. Í gær hélt ég hún hefði veitt skógarþröst, hvar sem hún hefur fundið hann. Það var alla vega eitt sett af vængjum á pallinum og hún var að leika sér með þá. Um kvöldið fékk hún aðstoð við að veiða eina flugu sem birtist á heimilinu. Flugan hélt sig upp í loftinu og kisa náðin henni auðvitað ekki - þurfti hávaxinn karlmann til að aðstoða sig - óneitanlega spaugileg veiðiaðferð.
Í kvöld var hún svo að leika sér úti á palli með stærri væng en í gær. Ég held hún sé farin að veiða engla. Alla vega skrítið að þetta eru bara vængir sem hún leikur sér með. Ef þið rekist á vængstífða engla þá getið þið sagt þeim hvar vængi er að finna. Annars fór kisa frekar illa með þá.
Núna ætti ég að vera að skrifa jólakort. Ég er búin að skrifa þrjú kort af u.þ.b. 60 sem ég er vön að skrifa. Ég er líka búin að öðlast svo mikla trú á saumahæfileikum mínum eftir jólagardínusaumana að ég keypti mér efni í nýjan dúk á stofuborðið. Ég gæti líka verið að sauma dúkinn. En ég er frekar löt og ætla bara að hvíla mig með tærnar upp í loft - skrifa nokkur kort eftir því sem andinn kemur yfir mig eða mæla fyrir falinum á væntanlegum dúk.
Kisa er úti að leika sér, vona að það verði ekki fleiri fljúgandi verur á vegi hennar.

|

12 desember 2005

Heim í heiðardalinn

Þetta hlýtur að hafa verið síðast höfuðborgarferðin á árinu.
Ég sem sagt var að koma frá Reykjavík þar sem ég fór þvílíkum hamförum í jólagjafakaupum að ég uppgötvaði í gærkvöldi að ég hef keypt of margar jólagjafir.
Inga vinkona var með opið hús á leirverkstæðinu sínu og ég fór þangað og keypti eitt og annað, m.a. fékk ég risa stóra skál beint úr ofninum. Svo var bara hausverkurinn að koma henni heilli heim. Var búin að ráðgera að sitja undir henni í flugvélinni en mér féllust hendur þegar ég kom inn í vélina og sá að ég átti að sitja við hliðina á karli sem flæddi yfir hálft sætið mitt. Neyddist því til að ganga vel frá skálinni upp í farangurshólfinu, en þetta slapp og nú er þessi fína skál komin inn í stofu.
Svo var ég með myndir úr innrömmun þannig að það var eins og ég færi að flytja lítið listagallerí.
Önnur myndin er máluð af Jóni Guðmundssyni fyrrverandi barnaskólakennara. Hann gaf mér hana í sumar, en á henni eru nokkrar gleðikonur úr Gleðikvennafélagi Vallahrepps að dansa framan við Vallaneskirkju - virkilega lífleg og skemmtileg mynd.
Þegar ég ók inn götuna heim að húsinu þakkaði ég strokinum enn og aftur fyrir að hafa skilað mér inn í þennan stóra systkinahóp því minn ástkæri elsti bróðir var búinn að hengja jólaseríuna í þakskeggið.

|

09 desember 2005

Hobbitahola

Var spurð að því í ræktinni í morgun hvort ég byggi í hobbitaholu.
Ástæðan; mætti með glerflís í einni táslunni eftir að hafa rekið hausinn í kúpul í eldhúsloftinu hjá mér í gærkvöldi.
Til að gera stutta sögu langa. Ég sem sagt var að þvo eldhúsgluggana og slengdi hausnum svona kirfilega í ljósakúpulinn ofan við eldhúsvaskinn að kúpullinn losnaði úr festingunni og flaug á eldavélina þar sem hann fór í milljón mola. Af minni ævalöngu slysni þurfti ég endilega að fá eina flís í tásluna, en það má svo sem segja að það hafi verið vel sloppið.
Með góðri aðstoð kisu tókst mér að klára títtnefndar jólagardínur og koma þeim upp. Kisa togaði efnið úr saumavélinni jafnóðum og saumavélin vann. Svo þegar kom að því að strauja tríttlaði kisa á eftir mér inn að strauborði og sá um að strekkja gardínurnar niður af strauborðinu svo efnið lægi vel slétt undir straujárninu. Loks elti kisa mig inn í eldhús og fylgdist með mér þar, allt þar til kúpullinn fór á flug, en þá hvarf hún og ég sá hana ekki í klukkutíma.
Nú er eldhúsið mitt voða fínt og nýsaumaðar jólagardínurnar bara fjarskafínar, alla vega ef ég stend ekki of nálægt þeim og tek af mér gleraugun.

|

08 desember 2005

Áhyggjur

Ég mæti algerlega ósofin í vinnuna í dag.
Ástæðan er sú að þegar ég kom heim af jólahlaðborði nr. 2 í gærkvöldi vildi Kolgríma kíkja út. Ég hélt að það væri nú í lagi því undanfarið hefur hún ekki stoppað lengi úti. Áttaði mig ekki á því að þar sem hitastigið á Héraði fór úr fimbulkunda niður undir frostmark í gær þá fannst kisu fínt að komast út.
Svo bara kom þessi elska ekkert þegar ég kallaði. Það endaði með því að ég fór að hátta en gat auðvitað ekkert sofnað þar sem kisa var týnd.
Tíminn leið og ég var farin að sjá fyrir mér alls konar slys og hamfarir sem kisa hefði lent í. Búin að semja dánartilkynningu í Moggann: Elskuleg kisa mín Kolgríma Högnadóttir... blóm og kransar afþakkaðir... en þeim sem vildu minnast hennar...
Kl. 03.30 heyrði ég þennan fagra bjölluhljóm úti í garði. Ef ég hefði verið fjögurra ára hefði ég stokkið út að glugganum og búist við að sjá jólasveinahreindýr, en ég stökk út í dyr og kisa með allar sínar bjöllur um hálsinn kom skokkandi inn eins og hefðarfrú - mjálmaði smá, eins og hún væri að segja mér hvað hún hefði verið að bardúsa, en tríttlaði svo inn í eldhús að matardiskunum sínum.
Guð hvað ég var fegin. Gaf kisu gott að borða og það var notalegt að heyra tipplið hennar á gólfinu þegar hún elti mig inn í ból og kom sér þar makindalega fyrir og malaði mig í svefn. Nú liggur þessi elska þar og ég get ekki búið um rúmið en fer alveg ósofin í vinnuna.

|

05 desember 2005

Eldhúsguðinn

Þegar ég var lítil stelpa að alast upp á Neðstutröðinni í Kópavoginum heyrði ég mömmu stundum ákalla einhverja dularfulla veru sem ég hélt að væri einhvers konar guð. Ég las reyndar aldrei um þennan guð í biblíusögunum og þessi guð virtist eingöngu svífa yfir eldhúsinu hennar mömmu.
Ef eitthvað fór úrskeiðis hjá mömmu heyrði ég hana segja "Það er eins gott að hún frú Blöndal sjái ekki til mín núna." Mamma var reyndar sem betur fer myndarleg húsmóðir svo hún talaði ekki daglega við þennan guð sinn.
Það var ekki fyrr en ég komst sæmilega til vits og ára að ég skildi að þessi eldhúsguð hennar mömmu, hún frú Blöndal, hafði verið skólastýra á húsmæðraskóla sem mamma hafði verið á mörgum árum áður en ég fæddist, á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.
Ég hef erft þessa áráttu hennar mömmu nema hjá mér er þetta "Það er eins gott að hún mamma sjái ekki til mín núna." Það er einmitt það sem ég er búin að vera að tauta við sjálfa mig í allt kvöld.
Ég sem sagt réðst í það verk að sauma mér nýjar jólagardínur í eldhúsið, eins og ég lét getið um fyrir nokkrum dögum. Ef ég hefði munað hvað það er mikið verk að sauma gardínur hefði ég látið þetta eiga sig og keypt mér tilbúnar gardínur í Rúmfatalagernum. Ég sá einmitt í bæklingi frá þeim jólagardínur sem ég hefði gjarnan vilja eiga.
En það er of seint í rassinn gripið, ég búin að sníða og mæla og langt komin með að sauma. Og það er sko eins gott að hún mamma sjái ekki saumaskapinn. Ef svo ólíklega vill til að hún fari að skoða hvernig þetta er faldað hjá mér þá segi ég henni bara að ég hafi keypt þessar gardínur í Kolaportinu fyrir skid og ingenting.

|

01 desember 2005

Karlmannsleysi

Mig hefur sárlega vantað karlmann síðustu vikuna.
Ég sá að einhvers staðar í útlöndum er hægt að fá leigða jólasveina og var að spá í að panta einn en svo hljóp heldur betur á snærið hjá mér í dag.
Ég hitti grannkonu mína í kaupfélaginu og spurði hana hvort hún gæti séð af manninnum sínum smá stund um helgina og þegar hún vissi hvað hrjáði mig þá sagði hún "Elskan mín, ég fæ góðar græjur um helgina og ég skal bara hugsa til þín, ég sé manninn minn nú aldrei, hann er aldrei heima."
Þá er það vandamál leyst og jólaserían ætti að komast upp í þakskeggið á laugardaginn. Þungu fargi af mér létt.
Þrátt fyrir þessi góðu málalok kom ég hálf niðurbrotin heim úr búðaleiðangri með henni mágkonu minni. Ég spurði hana hvort ég fengi ekki að vera með henni í laufabrauðsbakstrinum en hún bara sagði þvert nei. Ég reyndi að láta þetta ekki slá mig út af laginu og keypti tvo pakka af útflöttu laufabrauði - við Kolgríma verðum þá bara tvær saman að skera út og steikja. Kolgríma verður að pressa kökurnar því það er ómögulegt að vera bæði að steikja og pressa. Ekki fer ég að láta hana standa yfir feitipottinum, það gæti kviknaði í henni.

|