30 desember 2006

Og nú er Jón dauður...

... en sjálfstæðisbaráttan blífur.
Þá eru þeir búnir að hengja herra Saddam þarna niður frá. Skildi heimurinn breytast í útópíu við það eða er það núna fyrst sem ballið byrjar?
Saddam dó hetjudauða, horfði óragur á böðla sína, neitaði að láta setja á sig hauspoka, sagði nokkur vel valin dánarorð og nú er hann kominn í hóp píslarvotta.
Nú hafa stríðandi fylkingar enn eina ástæðuna til að skipuleggja sjálfsmorðsárásir út og suður um allan heim.
Ég legg til að herra Bush verði framseldur til Íraks, in officio.

|

29 desember 2006

Leynilegur aðdáandi

Jibbí, skibbí, ég á leynilegan aðdánda.
Ég komst að því í dag þegar ég sótti póstinn. Ég fékk eitt og annað skemmtilegt í pósti, þar á meðal kort frá vinum mínum Kristínu og Jóni fyrrum barnakennara, Guðmundssyni. Svo var í umslaginu jólasagan 2006 og rúsínan í pylsuendanum, konfekt. Ekkert venjulegt konfekt og ekki frá Jóni og Kristínu. Þau hafa bara verið beðin að koma þessu góðgæti til mín. Konfektið var hjartalag, já takið eftir því, hjartalaga Mozartkonfekt.
Ég hef grun um að Konni kynlegi sé að senda mér þetta fínerí, en kannski er um einhvern annan enn leynilegri aðdáanda að ræða.
Úllla, la, þetta er sko spennandi.

|

28 desember 2006

Vandlifað í veröldinni

Það er orðinn mikill vandi að senda jólakveðjur.
Það hefur nú ekki farið framhjá neinum fárið út af Dóminósjólakveðjunni. Ég er reyndar hálf móðguð út í Dómínós, ég sé nefnilega að ég er mjög aftarlega á merinni hjá þeim, sennilega bara einu sinni pantað pizzu. Jólagestirnir mínir fengu nefnilega sínar kveðjur strax upp úr kvöldmat en mín kveðja kom ekki fyrr en um kl. 22. En þetta svo sem eyðilagði ekki kvöldið fyrir mér enda lá ég afvelta í hægindastól inn í stofu og dansandi fílar á þakinu hefðu ekki raskað ró minn, hvað þá eitt sms-skeyti.
Svo er það Alcan - þeir senda Hafnfirðingum jólagjöf og eftir fréttum að dæma eiga þeir von á að fá eitthvað af gjöfunum í hausinn aftur. Ég fæ ekkert frá Alcan enda bara búið eitt ár í Hafnarfirði og það eru 30 ár síðan.
En þá eru það jólagjafir Kb-banka. Ég hef komist að því að minn góði banki gerir ótrúlega upp á milli viðskiptavina sinna. Ég fékk svarta pokann sem Kolgríma ákvað að væri svefnpoki fyrir sig, en svo hef ég verið að heyra af allskonar fínni gjöfum frá bankanu. Ég var niður í banka áðan og þær sögðu mér stelpurnar sem vinna þar að það væru nokkrir búnir að koma og skila fína svarta kattasvefnpokanum og þeir hinir sömu hafi verið sármóðgaðir. En alla vega gaf bankinn starfsfólkinu fínar gjafir svo þetta er nú allt í lagi.
Það er orðinn mikill vandi að senda jólakveðjur en ég er svo heppin að þær gjafir og kort sem ég sendi vinum og vandamönnum virðast hafa fallið í góðan jarðveg - alla vega er ég ekki farin að fá neitt í hausinn ennþá.

|

26 desember 2006

Rauð jól

Þessi jól eru rauð, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Snjórinn sem ég hef verið að kafa frá því í haust hvarf að mestu síðustu dagana fyrir jólin en skildi eftir sig svell hér og þar.
Þemað í jólaskreytingunum hjá mér er rauði liturinn, hvað sem öllum tískubylgjum líður. Ljósin hjá mér eru hvít og rauð, jólatréð í stofu stendur með rauðum kúlum og gylltu skrauti. Lambinu mínu þótti þetta frekar einhæft jólaskraut svo tréð er líka skreytt með íslenska fánanum, einhverjum pappírsfánum á snúru, gott ef þetta er ekki bara frá því að ég var krakki. Mér finnst alla vega að ég hafi alltaf átt þessa fána. Reyndar á ég danska ríkisfánann líka í sams konar útgáfu og hann hefði auðvitað farið vel í rauða þemanu, en ég vildi nú frekar hafa íslenska fánann á trénu mínu.
Tréð er sérstaklega falleg lindifura sem ræktuð var af hjónunum í Brekkugerði í Fljótsdal og við fjárfestum í hjá Rumnum í Barra núna fyrir jólin þegar ljóst var að lambið mitt var ekki í skapi til að fara út í skóg og fella tré.
Svo til að gera jólin mín enn rauðari þá eru allir jólagestirnir mínir frá fyrrum kommúnistaríkjum. Annar tengdasonurinn frá Norðfirði en hinn frá Warsjá. Eins og undanfarin ár kom Ronald þýskukennari og borðaði með okkur jólahangikjötið, hann er frá Austur-Berlín, Sigga litla lögga var hjá okkur á aðfangadag, hún er að 1/4 Austur-Þjóðverji og svo kemur pólski tengdasonurinn með systur sína með sér í jólaheimsóknina í ár þannig að það er ljóst að þetta verða rauðustu jól sem sögur fara af á heimilinu.

|

23 desember 2006

Þorláksmessukvöld

Þá er hún hafin biðin eftir jólunum.
Hér í kotinu hjá okkur Kolgrímu er allt tilbúið fyrir aðfangadag. Ég hef meira að segja aðeins svindlað og þó ég sé vön að setja ekki dúkana á borðin fyrr en á aðfangadag hef ég verið að dunda mér við það í kvöld.
Ég fór í skötuveislu í hádeginu og þó ég kalli nú ekki allt ömmu mína þegar skata er annars vegar þá runnu tárin þegar ég var að borða þessa rosalega kæstu skötu.
Biðin eftir matnum var svo löng að við ræddum það við borðið að á næsta ári yrðum við bara með skötuveislu heim. Og þá var það spurningin hver væri til í að leggja það á heimilið sitt að hafa skötulykt.
Mér finnst það nú ekki mikið mál, ég hafði skötu í matinn á Þorláksmessu í 20 ár og það er í fyrsta lagi hægt að sjóða hana úti og svo hverfur lyktin endanlega þegar rjúpurnar fara að krauma. Ég er meira en til í að halda skötuveislu.

Kæru vinir og velunnarar Lötu Grétu,
við Kolgríma óskum ykkur gleðilegra jóla
og vonum að þið finnið öll frið í sálinni um hátíðarnar.

|

21 desember 2006

Jólaundirbúningur

Jólaundirbúningurinn okkar Kolgrímu gengur vel.
Kolgríma er búin að sjá notagildi fyrir jólagjöfina frá Kb-banka, hún treður sér ofan í hana og notar hana fyrir svefnpoka.
Það er bara allt að verða klárt hér á bæ. Bara eftir að skúra gólfin, taka saman draslið sem hefur skapast af þessu jólagjafainnpökkunarstandi og svo bara að fara elda jólamatinn. Kannski eitthvað smá svona annað eins og að úrbeina eitt hreindýrslæri og útvega jólatré.
Örverpið mitt hefur ekki mátt heyra á það minnst undanfarin ár að fara á næsta sölustað og kaupa tilbúið jólatré. Hún er alin upp við það að fara með pabba sínum út í hvaða veður sem var á aðfangadagsmorgun, velja tré í skóginum og fella það áður en birti. Að þessu athuguðu er ótrúlegt hvað við höfum alltaf haft falleg tré um jólin. En nú er ég búin að semja við starfmenn Skógræktarinnar á Hallormsstað um að lambið mitt má koma og saga sér tré á morgun og þá er spurning hvor það verður gert eður ei.
Rumurinn lendir kannski í því enn ein jólin að redda grenimálunum. Hann er nú farin að selja jólatré hér úti á Egilsstöðum svo það ættu að vera hæg heimatökin að fá tré hjá honum.
Ég gleymdi að semja við Eymund í Vallanesi um litlar lífrækt ræktaðar kartöflur, það náttúrulega verða ekki jól hér ef ekki verðar brúnaðar smáar kartölfur.
Er einhver sem á smáka síðan í haust??? Ræktunaraðferð skiptir ekki máli, bara að þær séu litlar.

|

17 desember 2006

Á heimleið

Sit hér úti á Grímsstaðarholti og hef það ljómandi huggulegt.
Ég er samt ánægð með að eftir 4 klukkutíma verð ég komin heim til Kolgrímu minnar.
Þetta hefur verið afar vel lukkuð kaupstaðarferð, sama hvernig á hana er litið. Kannski helst að Vísakortið hafi verið misnotað, en það eru nú að koma jól og það er langt fram í febrúar.
Við fórum saman við Sigga sæta og Inga Klemma og sáum James Bond. Hann er auðvitað flottur, en ég myndi samt frekar nota um hann lýsingarorð Skógarmanna, fjarskafallegur, því mér þykja augun í honum ekki heillandi.
Á meðan við Sigga lifðum okkur inn í ævintýri Jóns Bónda, hnypptum í hvor aðra þegar eitthvað merkilegt var að sjá, fékk Inga sér fegrunarblund í þægilegu sæti sínu í Smárabíói.
Við Selma skruppum út á landa og skoðuðum nýju Ikea-verslunina sem er einhvers staðar lengst úti í hrauni. Sem betur fer er ódýr og fín matsala þar svo við fengum okkur í gogginn áður en við héldum aftur til borgarinnar.
En nú sit ég sem sagt yfir kaffi og eðalfínu bakkelsi og bíð þess að tími verði til kominn að fara út á flugvöll. Það er eins gott að ég á ekki heima hér með Björnsbakarí úti á næsta horni. Ég myndi verða amerísk fitubolla á nokkrum vikum. Ég sem hef stundum hugsað um að þegar ég verði gömul þá ætli ég að búa hér á Fálkagötunni og á góðviðrisdögum muni ég sitja úti á svölum og fylgast með forseta vorum úti á Bessastöðum í sjónauka.

|

14 desember 2006

Það snjóar og snjóar

Ég hef bara aldrei séð annan eins snjó.
Á rúmum þremur tímum í morgun er kominn örugglega 50 cm jafnfallinn snjór.
Alla vega var það þannig að þegar ég fór heim úr vinnunni í hádeginu þá sá ekki á dökkan díl á bílnum og ég varð að opna gætilega því snjórinn náði upp á miðjar hurðar.
Það er nú óþarfi að láta okkur á Egilsstöðum hafa allan jólasnjóinn, er ekki hægt að dreifa honum jafnar.
Það var ekki laust við að það væri fyndið að sjá á eftir fröken Kolgrímu út áðan. Hún var voða kát og stökk út í garð og þar gersamlega hvarf hún ofan í lausamjöllina. Svo kom lítill haus upp úr snjónum og ungfrú kisa var fljót að drífa sig aftur inn í hlýjuna. Nú situr hún í stofunni og hreinsar af sér snjóinn.
Ég fer suður með næstu flugvél. Ég kannaði það í morgun hvort flug gengi eðlilega í þessari ógnar snjókomu og það er víst allt í lagi með það. Vélarnar verða fyrir smá töfum hér á vellinum fyrir flugtak því það þarf að hreinsa af þeim snjóinn áður en þær fara í loftið.
Það eru sem sagt ekki sjóvélar heldur snjóvélar.
Svo er það Smáralindin með Gunnhildi starx og lent er í höfuðborginni og James Bond með Siggu vinkonu og vonandi líka Ingu í kvöld. Vinna á morgun og svo förum við Visa vinkona í búðir fyrir alvöru.
Góðar stundir.

|

12 desember 2006

Vanþakklæti

Ég veit maður á að vera þakklátur fyrir gjafir sem manni berast.
En ég veit ekki alveg hvernig ég á að bregðast við jólagjöfinni sem bankinn minn sendi mér.
Þetta er einhvers konar taupoki - auðvitað úr svörtu efni eins og allt er núna fyrir jólin. Með honum fylgja einhverjar leiðbeiningar um að það megi geyma í honum ávexti eða brauð.
Ég held að brauð geymist ekki vel í þessu tauíláti og ég á góða ávaxtakörfu svo ég hef verið að reyna að sjá út eitthvað annað notagildi.
Við vorum að skoða þetta í vinnunni og það komu upp tillögur eins og að setja þetta yfir brauðristina ef maður vill ekki að hún sjáist. Mér finnst svört þúfa á borðinu bara ekkert fallegri en brauðristin mín auk þess sem þetta gæti bara skapað eldhættu. Það má setja þetta yfir teketil til að halda honum heitum. Humm, ég drekk nú ekki mikið te.
Ég prufaði að setja þetta á hausinn ef ske kynni að það mætti nota þetta sem höfuðfat, en þá leit ég út eins og kötturinn með höttinn og þetta var allt of stórt á hausinn á mér.
Af því að ég er nú búin að vera í viðskiptum við þennan banka í 45 ár þá vildi ég nú reyna að sýna gjöfinni frá þeim einhvern sóma án þess að heimilið mitt liti bjánalega út svo ég hef fundið það út að þetta nýtist mjög vel undir hárfroðu, hársprey og annað hárdót INNI í skáp sem ég get lokað.
En Kb-banki ég þakka samt fyrir mig.

|

11 desember 2006

Hinn sanni andi jólanna

Ég er orðin svo áttavilt eitthvað.
Í Kaupfélaginu mínu er til sölu bók sem heitir Biblía fallega fólksins. Ég hef ekki þorað að skoða hana, það gæti misskilist og fólk færi að stinga saman nefjum um hvort ég ætti ekki spegil - þetta er ekki bók handa mér. Ef ég myndi gefa einhverju þessa bók í jólagjöf gæti það misskilist. Gjafaþegi gæti haldið að ég væri með einhverjar meiningar í sinn garð.
Svo er það Biblían á 100 mínútum, ég hef aðeins verið að spá í að fá mér þá bók, minnug þess þegar ég var 10 ára og ákvað að lesa biblíuna. Ég hef alltaf reynt að vanda mig við það sem ég tek mér fyrir hendur svo ég byrjaði auðvitað á fyrstu blaðsíðunni og þeir sem hafa lesið biblíuna vita hvað það er áhugaverð lesning. Ég komst svo aldrei lengra.
En það sem ruglar mig mest í þessum jólahugleiðingum er fyrirsögn á mbl.is í dag. Markmiðið á að vera að útrýma fátækum börnum. Það er verið að tala um íslensk börn. Ég hef lesið um ógeðslegar aðfarir lögreglunnar í Ríó þegar fátæk börn eru annars vegar, en á Íslandi, nei takk, við hljótum að hafa efni á að leyfa öllum börnum að vaxa og dafna.

|

10 desember 2006

Annar sunnudagur í aðventu

Hér er allt frekar rólegt.
Nágrannarnir keppast við að hengja upp jólaljósin. Ég bíð eftir að löggan komi og aðstoði mig við það. Annars eru Rarik-menn í einhverju stuði og eru að fikta í rafmagninu í dag, bærinn var almyrkvaður áðan.
Þegar ég var lítil var ein vinkona mín sem öfundaði mig af því að eiga fjóra bræður, ég öfundaði hana af að eiga ekki nema einn. Enn meira öfundaði ég skólasystur mína sem var einbirni.
Ég er löngu hætt að öfunda þær, sérstaklega einbirnið. Það er oft afskaplega gott að eiga fjóra bræður og eina systur. T.d. í dag, þá kom Þórhallur bróðir minn og sagaði nokkrar greinar af trénu sem ég er vön að setja jólaseríuna í, nú verður það verk mun þægilegra og serían á eftir að njóta sín betur.
Þórhallur var á hraðferð í gegnum Egilsstaði, hringdi í mig þegar hann nálgaðist götuna mína, sagði mér að henda framlengingarsnúrunni út að trénu, renndi svo í hlað rétt um það bil sem ég lauk við þetta, hentist út með keðjusögina á lofti, stakk henni í samband og sneið sex greinar af trénu áður en mér tókst að stoppa hann og segja honum að þetta væri orðið fínt. Ég hafði nú ekki hugsað mér að hafa bara súlu þarna í garðshorninu. Svo kubbaði hann greinarnar niður í snarhasti þannig nú á ég arinvið til jólanna og svo var hann bara horfinn og ég hef hvorki heyrt hann eða séð aftur.
Anna systir verður fimmtug á morgun, Nunna Mæja vinkona hennar er fimmtug í dag. Þær fóru saman til Kaupmannahafnar til að verða fimmtugar í kyrrþey. Ekkert kaffi og engar kökur handa mér, engar kökur og ekkert sælgæti, bara eins og hjá Karíusi og Baktusi.
En ég óska þeim til hamingju og vona að þær skemmti sér vel og vanlega í Köben og geri allt sem ég myndi gera - líka það sem ég myndi alls ekki gera.

|

09 desember 2006

Svartir jólasveinar

Tíminn æðri áfram á Jólavöllum.
Ég þurfti að fjárfesta í nokkrum jólaseríum. Það kemur m.a. til af hreinræktuðum slóðaskap og líka því að ég hef verið að æfa mig í karlmannaverkum.
Ég hef haft skreytt reiðhjól í garðinum undanfarin ár og í fyrra dundaði ég mér við að setja nýjar seríur á hjólið og vandaði mig þessi ósköp við að raða perunum á gripinn og festi allt voða vel. Hjólið dró að sér athygli vegfarenda með svona fínum rauðum jólaljósum á. Svo stóð það þarna langt fram yfir jólin og stendur þarna enn, nema það að í sumar þegar ég var að æfa mig að slá garðinn - sem sagt fór í karlmannsverkin, þá lenti snúran af jólaseríunni í slátturvélinni, þannig að nú stendur fallega skreytt jólahjól hér utan við húsið en það er ekki hægt að kveikja á því.
Í gær var ég á hárgreiðslustofunni og þá komst aðeins til tals þessi nýja jólatíska, svart jólaskraut. Og þar sem ég er nú búin að vera að vandræðast yfir hvernig ég á að koma seríunni sem ég asnaðist til að taka niður í ágúst, aftur upp í þakskeggið þá bauðst Sigga lögga til að príla upp í stigann fyrir mig. Ég fattaði það í gær að auðvitað bið ég Siggu að mæta í löggubúningnum, hún verður þá alveg eins og nýmóðins jólasveinn. Og hjólið stendur þarna með svörtum jólaljósum.
Hvað er maður alltaf að væla - málin leysast á endanum farsællega.

|

02 desember 2006

Heimsborgin Egilsstaðir

Ég skrapp í verslunarleiðangur niður í þorp -
svona eins og maður hefði einhvern tíma sagt.
En í dag voru þær systur Magga og Þura að opna stórglæsilega nýja Sentrúm-verslun í miðbæ Egilsstaða og ég hef aldrei haft það á tilfinningunni að það væri verslunarhverfi hér í bænum fyrr en í dag. Reyndar er þetta ekki í eiginlegum miðbæ heldur þarna í suð-vesturhorni þorpsins, við hliðina á Kaupfélaginu, rétt utan við gömlu mjólkurstöðina.
Ég óska þeim systrum hjartanlega til hamingju með þessa flottu búð. Þura hefur séð til þess síðustu 20 ár að ég væri ekki eins og niðursetningur til fara.
Ég ætlaði auðvitað bara að skoða en fór heim með þrjár fínar flíkur. Það var nú rætt um það á jólahlaðborðinu hjá okkur í gær að ég væri púkaleg að ætla að nota sama jólakjólinn og í fyrra, en nú geta menn tekið gleði sína því ég fékk mér bæði nýjan kjól og nýtt pils.
Ekki verður nú þessi búð til að auðvelda mér átakið Rannveig lætur eitthvað á móti sér.
En að lokum, í dag mæli ég með að þið farið á baggalutur.is og horfið á nýja myndbandið þeirra, þeir eru snillingar.

|